EFTIR að Magdeburg tapaði fyrir Stralsunder í þýsku 1. deildinni í handknattleik í fyrrakvöld er ljóst að möguleikar lærisveina Alfreðs Gíslasonar eru nánast úr sögunni í keppninni um þýska meistaratitilinn þetta árið.

EFTIR að Magdeburg tapaði fyrir Stralsunder í þýsku 1. deildinni í handknattleik í fyrrakvöld er ljóst að möguleikar lærisveina Alfreðs Gíslasonar eru nánast úr sögunni í keppninni um þýska meistaratitilinn þetta árið. Þrír tapleikir fyrir neðstu liðunum, Stralsunder, Wilhelmshavener og Kronau/Östringen reynast dýrir þegar upp verður staðið. Magdeburg er í fjórða sæti og á möguleika á því að komast upp í þriðja sætið vinni það leikinn sem það á til góða á meistaralið síðustu leikíðar, Lemgo. Þrjú efstu sætin gefa þátttökurétt í meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð og eftir tapið fyrir Stralsunder sagði hornamaðurinn Stefan Kretzschmar að nú yrðu menn að einbeita sér að því að tryggja sætið í meistaradeildinni, draumurinn um þýska meistaratitilinn væri úr sögunni. "Við verðum ekki eingöngu að vinna þá leiki sem við eigum eftir, heldur verðum við að vona að andstæðingar okkar um meistaradeildarsætin misstígi sig," sagði Kretzschmar m.a. við þýska fjölmiðla í gær.

Átta umferðir eru eftir af þýsku 1. deildinni og verða þær leiknar á næstu tveimur mánuðum.

Sigfús Sigurðsson lék ekki með Magdeburg gegn Stralsunder, hann fékk frí til þess að jafna sig á meiðslum í hné sem hafa gert honum lífið leitt síðustu vikur.