UMSÓKNUM um lán úr Íbúðalánasjóði fjölgaði um 3% í febrúarmánuði í ár miðað við sama mánuð í fyrra, sem gerir það að verkum að þetta er stærsti febrúarmánuður í innkomnum umsóknum um húsnæðislán hjá Íbúðalánasjóði frá upphafi.
Greint er frá þessu í nýútkominni mánaðarskýrslu sjóðsins og sagt að frekar óvarlegt sé því að ganga út frá því sem gefnu að samdráttur í húsnæðisviðskiptum sé hafinn. Hins vegar er á það bent að ef janúar og febrúarmánður í ár eru teknir saman er um að ræða 3% samdrátt í umsóknum frá sama tíma í fyrra.
Samtals voru umsóknir í febrúar 993 talsins samanborið við 965 umsóknir í sama mánuði í fyrra.
Árið í fyrra var algert metár í útgáfu húsbréfa hvort sem litið er til heildarútgáfu í krónum talið eða fjölda innkominna og afgreiddra umsókna. Heildarútgáfa húsbréfa á árinu nam 50,1 milljarði króna samanborið við rúma 35,3 milljarða kr. árið 2002 sem er 42% aukning milli ára. Umsóknum fjölgaði um 19% og voru 11.980 á árinu 2003.