"STARF mitt á Eiðum tengist því að ég hef búið erlendis í mörg ár," segir Sigurjón Sighvatsson um markmið sitt með því að bjóða listamönnum víðsvegar að úr heiminum að koma saman á Eiðum síðastliðið sumar.

"STARF mitt á Eiðum tengist því að ég hef búið erlendis í mörg ár," segir Sigurjón Sighvatsson um markmið sitt með því að bjóða listamönnum víðsvegar að úr heiminum að koma saman á Eiðum síðastliðið sumar. "Ég hef tekið eftir því að erlendir listamenn sem hingað rata vilja leggja mikið á sig til að koma aftur; nægir að nefna Richard Serra í því sambandi. Þetta fólk kemur ekki hingað til að eiga stutta skemmtan heldur er upplifun þess slík að það vill sækja sér hingað efnivið í vinnu sína." Sigurjón segir lengi hafa skort einskonar "skjól" eða "sanctuary" fyrir erlenda listamenn úti á landi, "og því fannst okkur Sigurði Gísla Pálmasyni, gott tækifæri opnast þegar Eiðar buðust til sölu. Við sáum að þar væri hægt að leiða saman erlenda og íslenska aðila og bjóða þeim fast athvarf á listasviðinu, tengja þá starfsemi höfuðborgarsvæðinu og umheiminum, en stuðla um leið að uppbyggingu á Héraði. Lykillinn er að þar er hægt að sækja reynslu sem ekki býðst annarsstaðar."

Hann segir verkefnið síðastliðið sumar og það sem nú er að koma út úr því, bera þess glöggt vitni "að þó ekki sé hægt að taka Eiða úr samhengi síns umhverfis, þá er hægt að bera hróður staðarins víða eins og t.d. með þessari Lesbók. Vonir standa til að í framtíðinni verði Eiðar ekki staðbundið menntasetur eins og forðum, heldur menningarsetur sem mun teygja anga sína víða."