Rúmenskur sígauni fylgist með aðkomumönnum á götu í þorpinu Liesti.
Rúmenskur sígauni fylgist með aðkomumönnum á götu í þorpinu Liesti. — AP
MÚGURINN myndaðist fljótt.

MÚGURINN myndaðist fljótt. Tugir sígauna hröðuðu sér til að hitta fulltrúa mannréttindasamtaka sem eru að hjálpa þeim að sækja skaðabætur fyrir að hafa verið þvingaðir til þrælkunarvinnu á tímum síðari heimsstyrjaldar, er bandamenn nazista voru við völd í Rúmeníu.

Rúður brotnuðu og reiðiyrði féllu áður en mannfjöldinn gerði sér grein fyrir misskilningnum - gestirnir voru blaðamenn, ekki lögfræðingar komnir í þeim erindagjörðum að skrá skaðabótatilkall þeirra.

Að orðrómur skyldi nærri því hafa komið af stað óeirðum sýnir glöggt þá spennu sem ríkir í byggðum sígauna í Rúmeníu, er fólkið bíður þess að skaðabótaféð berist því - eða að minnsta kosti staðfesting á því hvort það uppfylli sett skilyrði.

Féð kemur úr sjóði sem varð til með framlögum frá þýzkum stjórnvöldum og þýzkum fyrirtækjum og ætlað er að standa undir skaðabótagreiðslum til ýmissa sem liðu undan harðstjórn þýzkra nazista í síðari heimsstyrjöld, einkum fólks í Austur-Evrópu sem ekki hafði áður haft aðgang að neinum slíkum skaðabótum sem Þjóðverjar hafa greitt á þeirri ríflega hálfu öld sem liðin er frá endalokum Þriðja ríkisins. Þetta eru fyrstu skaðabæturnar sem berast austur-evrópskum sígaunum.

Þeir sem bíða - eins og hin 77 ára gamla Diamanta Stanescu sem býr í þorpinu Liesti, 220 km norðaustur af rúmensku höfuðborginni Búkarest - óttast að verða útundan.

Stanescu var meðal 25.000 sígauna sem rúmensk yfirvöld smöluðu saman og sendu í þrælabúðir á þýzka hernámssvæðinu í Sovétríkjunum á árunum 1942-1944. Tugþúsundir rúmenskra gyðinga voru líka sendir í slíkar búðir. Flestir hinna föngnu enduðu ævina í búðunum, dóu aðallega úr hungri og farsóttum, en aftökur og hrottaskapur tóku líka sinn toll.

Sígaunarnir voru notaðir í þrælkunarvinnu fyrir þýzka nazista og bandamenn þeirra við vegavinnu og skotgrafagröft, í landbúnaði o.fl.

Um 5.900 rúmenskir sígaunar sóttu um bætur úr sjóðnum samkvæmt upplýsingum Alþjóðlegu mannflutningastofnunarinnar (International Organization for Migration), sem sáu um umsóknirnar fyrir flesta skaðabótaumsækjendur í A-Evrópu, aðra en gyðinga. Aðeins fólk sem hafði sjálft verið í hópi hinna þrælkuðu og lifað af, og beinir erfingjar þeirra úr þeim hópi sem dóu eftir 15. febrúar 1999, höfðu tilkall til að sækja um úr sjóðnum.

Þótt skaðabótaupphæðin á hvern einstakling sé ekki há á vestrænan mælikvarða - hún svarar að hámarki um 700.000 krónum í flestum tilfellum - munar hina bláfátæku sígauna Rúmeníu mikið um slíkar upphæðir.

Munteni. AP.