Richard Clarke ber vitni fyrir rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings.
Richard Clarke ber vitni fyrir rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings. — AP
RICHARD Clarke, fyrrverandi yfirmaður baráttunnar gegn hryðjuverkum allt frá því í forsetatíð Ronalds Reagans til George W. Bush, núverandi Bandaríkjaforseta, sakar Bush um að hafa grafið undan hryðjuverkastríðinu með innrásinni í Írak.

RICHARD Clarke, fyrrverandi yfirmaður baráttunnar gegn hryðjuverkum allt frá því í forsetatíð Ronalds Reagans til George W. Bush, núverandi Bandaríkjaforseta, sakar Bush um að hafa grafið undan hryðjuverkastríðinu með innrásinni í Írak. Segir hann einnig, að Bush hafi ekki tekið hættuna, sem stafaði af al-Qaeda, nógu alvarlega fyrir hryðjuverkin 11. september 2001.

Kom þetta fram í fyrradag við yfirheyrslur nefndar, sem rannsakar aðdraganda hryðjuverkanna í Bandaríkjunum, en Clarke byrjaði á því að biðja ættingja fórnarlambanna afsökunar á því, að stjórnvöld hefðu brugðist þeim.

Clarke, sem hefur skrifað bók þar sem hann gagnrýnir Bush harðlega, segir meginástæðuna fyrir gagnrýninni vera Íraksstríðið.

"Með innrásinni í Írak hefur Bush stórskaðað stríðið gegn hryðjuverkum," sagði Clarke og bætti við, að á fyrstu átta mánuðum sínum í embætti hefði Bush vanmetið hættuna af al-Qaeda, hryðjuverkasamtökum Osama bin Ladens.

"Stjórnin leit á hryðjuverkaógnina sem mikilvægt mál en ekki mjög áríðandi."

Bók Clarkes og vitnisburður hans í fyrradag hefur farið mjög fyrir brjóstið á Bandaríkjastjórn og repúblikum í rannsóknarnefndinni. Gefa þeir í skyn, að hann geri allt til að auglýsa bókina, og Hvíta húsið segir, að fyrir tveimur árum hafi hann hrósað Bush-stjórninni fyrir frammistöðuna í hryðjuverkastríðinu.

"Hann verður að fara rétt með," sagði Condoleezza Rice, ráðgjafi Bush í þjóðaröryggismálum, en Clarke segir, að hún og Bush hafi margoft verið vöruð við því fyrir 11.9. 2001, að hryðjuverkaárás al-Qaeda væri yfirvofandi. Sakar hann Rice um að hafa ekki staðið í stykkinu.

Stefnt er að því, að rannsóknarnefndin ljúki störfum í júlí og niðurstöður hennar verða síðan kynntar í ágúst, ekki löngu fyrir forsetakosningarnar í nóvemberbyrjun.

Washington. AP, AFP.