Sverrir Hermannsson
Sverrir Hermannsson
Tveir valdamestu menn þjóðarinnar ákváðu, einir og sér, að varpa þessari grundvallarstefnu Íslendinga fyrir ofurborð.

EIN mikilvægasta ákvörðun í utanríkismálum, sem Íslendingar hafa tekið, er vafalaust innganga Íslands í varnarbandalag vestrænna ríkja, Atlantshafsbandalagið, árið 1948. Þótt brýna nauðsyn bæri til samstöðu ríkjanna, settu Íslendingar eitt ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir aðildinni: Ísland myndi aldrei taka beinan þátt í hernaðaraðgerðum; aldrei fara með ófriði á hendur öðrum þjóðum, hvað sem í skærist. Að þessu skilyrði gengu aðrar þjóðir í bandalaginu umyrðalaust. Öðru máli gegndi þótt Íslendingar léðu land sitt undir hernaðarbækistöð varnarbandalagsins, þótt ýmsum væri það óskapfellt.

Að Íslendingar héldu sig utan við þátttöku í hernaði hefir verið mikilsverðasta atriðið í utanríkisstefnu Íslands frá því að hið svokallaða kalda stríð brast á; og er enn, þótt því hafi slotað. Enda hefir nú brotizt út annað stríð og enn voveiflegra að því er virðist: Styrjöld við hryðjuverkamenn, sem enginn sér fyrir endann á og illvígara en orð fái lýst.

En nú hafa þeir höggvið er hlífa skyldu. Tveir valdamestu menn þjóðarinnar ákváðu, einir og sér, að varpa þessari grundvallarstefnu Íslendinga fyrir ofurborð. Þeir tóku um það ákvörðun austur í Prag í Tékklandi að Ísland skyldi eiga beina aðild að hernaði amerískra heimsvaldasinna í Írak. Og brutu með því háttalagi íslenzk lög og alþjóðalög.

Í 24. grein þingskapa Alþingis Íslendinga segir svo: ,,Utanríkisnefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum."

Engir munu finnast á Ísalandi sem telja aðild okkar að hernaði í Írak til minniháttar utanríkismála.

Það hreyfir heldur enginn málsmetandi maður athugasemdum við því áliti þjóðréttarfræðinga, að innrásin í Írak hafi verið brot á alþjóðalögum. Þegar forsætisráðherra Íslands leyfði sér í stefnuræðu sinni á Alþingi sl. haust að fullyrða að Íraksstríðið hafi verið ,,löghelgað af samþykktum Sameinuðu þjóðanna" fór hann með ósvífnari ósannindi en nokkur stjórnmálamaður getur verið þekktur fyrir.

Því var haldið fram að innrásin í Írak hefði verið mótaðgerð vegna ógnarverkanna í New York 11. sept. 2001. Á daginn hefir komið að innrásin hafði verið ákveðin fyrir þann atburð.

Allt ber að sama brunni: Bandarískir auðmenn og olíufurstar höfðu ákveðið að ná undir sig olíulindum Íraks. Allt tal um mannvonsku Saddams, fyrrum bandamanns þeirra, og gereyðingarvopn hans hafi verið yfirvarp eitt, enda segir Hans Blix, yfirmaður vopnaleitar Sameinuðu þjóðanna, að Bush og hans menn hafi ekki viljað vita hið sanna, þótt fyrir þá væri lagt.

Og Íslands fylkti liði með þessari þrælmennsku.

Sá, sem hér heldur á penna, hefir oftsinnis haldið því fram, að núverandi valdhafar á Íslandi muni hljóta verri eftirmæli sagnfræðinga framtíðar en aðrir íslenzkir ráðamenn. Nú hafa þeir bætt þeim skrautfjöðrum í hatta sína að verða sannir að sök sem lögbrjótar, bæði á landslög og alþjóðalög. Standa svo á sakleysi sínu eins og hundar á roði.

En þegar fyrrverandi dómsmálaráðherra og verðandi forseti Alþingis segir að voðaverkin í Madríd gætu haft jákvæð áhrif á samninga um framtíð herstöðvar á Miðnesheiði, fyllast hugir venjulegra manna af forundran og smán.

P.S. Síðan grein þessi var rituð hefir aðalritari tekið undir orð formanns utanríkisnefndar um hin ,,jákvæðu" áhrif Madríd-morðanna. Slík smekkleysa er engu tali takandi.

Sverrir Hermannsson skrifar um utanríkismál

Höfundur er fv. form. Frjálslynda flokksins.