Kristinn Pétursson
Kristinn Pétursson
Seðlabanki svaf - brást ekki rétt við - lækkaði ekki stýrivexti nema agnarögn sem ekki virkaði.

SÍÐUSTU tvö ár hafa endurtekið komið aðvaranir frá Seðlabanka - um "þenslu" - vegna mannvirkjaframkvæmda á Austurlandi. Þess vegna var ekki unnt að lækka stýrivexti - "þenslan var alveg að koma"! Í dag virðist ljóst að Seðlabanki hafi stórlega ofmetið þensluáhrif framkvæmdanna. Afleiðingar af allt of háum stýrivöxtum Seðlabanka hafa nú birst sem stóraukið innstreymi erl. lánsfjár.

Hlutverk Seðlabanka er að vera "dempari" í peningamálastjórn - dempa peningalegar sveiflur - með stjórnunaraðgerðum - þegar slíkar sveiflur gera vart við sig - ekki ólíkt og dempari í bíl mýkir högg -þegar hola kemur í veginn. Þegar Seðlabanka varð ljóst stóraukið innstreymi erlends lánsfjár á síðasta ári - (sá hann það ekki?) átti strax að bregðast við og lækka stýrivexti. Þá hefði innstreymi erlendra lána minnkað af sjálfu sér.

Innflutt steypujárn, timbur, stálbitar, háspennulínur o.fl byggingarefni til mannvirkjagerðar við Kárahnjúka eru dauðir hlutir sem valda ekki auknu peningamagni í umferð hérlendis. Það er bara vinnulaunaliður framkvæmda og hluti af þjónustutengdum greiðslum sem hafa peningaleg áhrif. Frá dragast svo allar slíkar greiðslur til erlendra verktaka - og erlends vinnuafls við framkvæmdina.

Í dag þegar Seðlabanki svo - "varar viðskiptabanka við aukningu á erlendum lántökum" hrekkur maður í keng...Ætlar Seðlabanki - að láta líta út sem svo - að tiltekið þrjúhundruð milljarða innstreymi erlends lánsfjár á síðasta ári - sé viðskiptabönkunum að kenna! "Árinni kennir illur ræðari." Viðskiptabankarnir þjóna því viðskiptaumhverfi sem Seðlabankinn skapar. Þeir stjórna ekki stýrivöxtum. Það gerir Seðlabanki. Seðlabanki hefur margsinnis verið varaður við afleiðingum af háum stýrivöxtum - en skellt skollaeyrum við.

Sannleikurinn er því miður sá - að háir stýrivextir Seðlabanka - og fátt annað - hafa virkað eins og "peningadæla" á erlendu lánsfé til landsins. Nú svo þegar alþjóðlegar peningamálastofnanir sýna "gula spjaldið" á vettvangi peningamála hérlendis - á þá ekki Seðlabankinn að axla ábyrgð - sem faglegur stjórnandi á vettfangi peningamála hérlendis - og gangast við afleiðingum gerða sinna?

Skoðum afleiðingarnar: Háir stýrivextir "dældu" hundruðum milljarða af erlendu lánsfé til landsins. Seðlabanki svaf - brást ekki rétt við - lækkaði ekki stýrivexti nema agnarögn sem ekki virkaði. Erlenda lánsféð sem inn flæddi (EES skriflegur samningur - um frjálst flæði fjármagns - sem felstir vita um - nema þá Seðlabanki) - hækkaði gengi krónunnar verulega. Hækkun á gengi krónunnar hefur valdið útflutnings- og samkeppnisiðnaði okkar - stórskaða - milljarðaskaða - vegna þess að Seðlabanki brást rangt við og lækkaði ekki stýrivexti. Ég sé fyrir mér hverja á að taka á teppið. Aðalhagfræðing Seðlabankans - og þá sem fylgdu honum að málum innan bankans. Best væri að þeir myndu axla ábyrgð af þessu klúðri með reisn - og segja af sér.

Kristinn Pétursson skrifar um efnahagsmál

Höfundur er fiskverkandi á Bakkafirði.