Oddbergur Eiríksson
Oddbergur Eiríksson
Ef satt skal segja eru fáar byggðir við Faxaflóann opnari fyrir ágangi sjávar í hamfaraflóðum en norðurströnd Reykjavíkur frá Laugarnesi vestur að Eiði á Seltjarnarnesi.

MIKIÐ er búið að gera fyrir miðborg Reykjavíkur en meira stendur til. Öll fögnum við því.

Nokkuð er þarna af aflögðum vöruskemmum og úreltum iðnaðarhúsum sem að skaðlausu mega víkja fyrir öðru sem fremur er í takt við tímann.

Ekki ætlum við að leggja stein í götu þeirra stórhuga manna sem ráða ferðinni, heldur hitt að slá varnagla ef það mætti verða til þess að fyrirbyggja leka.

Er bandamenn í seinni heimsstyrjöldinni bollalögðu innrás í Evrópu, þá sagði Churchill: "Italy is the soft belly of Europe", sem sagt "Ítalía er hinn mjúki magi Evrópu" og mælti fyrir því að þar yrði innrásin gerð.

Þessa hugmynd má að vissu leyti heimfæra upp á miðbæinn eða Kvosina í Reykjavík. Ef satt skal segja eru fáar byggðir við Faxaflóann opnari fyrir ágangi sjávar í hamfaraflóðum en norðurströnd Reykjavíkur frá Laugarnesi vestur að Eiði á Seltjarnarnesi. Má segja að Álftanesið sé ekki betur sett.

Jónas Elíasson og Sveinn Valdimarsson, verkfræðingar við HÍ, unnu 1993 skrá um flóðhæðir í Reykjavíkurhöfn. Þetta er gagnort og greinargott plagg. Í sjálfu sér hef ég engu við það að bæta. Hins vegar er þetta orðið tíu ára gamalt gagn og hefur á þeim tíma frekar hallast á ógæfuhliðina hvað varðar stöðu heimshafanna. Með tilliti til þess er spáð illa fyrir strandbyggðum víða um heim vegna hækkandi sjávarborðs. Þess vegna er ekki óeðlilegt þótt maður verði var við ónotatilfinningu í hnakkagrófinni þegar maður sér hin stórhuga framkvæmdaplön í Kvosinni.

Í skýrslum þeirra Jónasar og Sveins telja þeir að átta til tíu sinnum hafi sjávarhæð farið yfir 4,90 metra. Þó segja þeir að ýmislegt bendi til að háflóð gætu verið eitthvað algengari en undangengnir reikningar sýna. Vert er að gefa því gaum að tjón er ekki endilega bundið við hæstu sjávarföll. Vindálag hefur afgerandi þýðingu.

Dæmi eru um að Seltirningar hafi farið á bátum til Reykjavíkur, Austurvöllur hafi verið á kafi í sjó, Valhúsahæðin og umhverfi, Landakotshæðin og umhverfi voru eyjar.

Í heild er þetta uggvænlegt plagg.

Hins vegar má spyrja sig hvort ekki sé unnt að sporna svolítið á móti mestu tjónum sem verða við háa eða hæstu sjávarstöðu.

Sagt er að góð ráð séu dýr en við skulum skoða það nánar.

Mín hugmynd er sú, að lagðir verði varnargarðar á milli eyjanna Viðeyjar, Engeyjar, Akureyjar og Gróttu. Ef að þessu yrði horfið, þá væri strandlengjan og þar með talin gamla höfnin og kvosin laus við hafrót, Ytri höfnin og Sundin sem heiðartjörn. Að sjálfsögðu myndi þetta kosta nokkra fjármuni en með nútímatækni yrði þetta auðvelt í framkvæmd.

Enhver mundi segja að þetta yrði ljótt mannvirki. En þá spyr ég: "Hvað hugsuðu menn þegar olíutönkunum var plantað niður í Örfirisey?" Við þá framkvæmd var eynni raunverulega lokað fyrir almenningi, staðnum þar sem Þórbergur Þórðarson fór í sjóböð og gerði Möllersæfingar, staðnum þar sem unga fólkið trúlofaðist og lagði plön um framtíðina. Ég hef sjálfur góða reynslu af því. Eftir að þessum möguleika var lokað entust ástarsamböndin verr en áður.

Oddbergur Eiríksson skrifar um Reykjavík og fyrirhugaðar framkvæmdir við höfnina

Höfundur er skipasmiður í Njarðvík.