ENGIN formleg ákvörðun var tekin á stjórnarfundi Lögmannafélags Íslands sem fram fór í fyrradag um hvort félagið kæri ákvörðun samkeppnisráðs um að sekta LMFÍ um 3,5 milljónir króna fyrir að brjóta gegn bannákvæðum samkeppnislaga um ólögmætt samráð.

ENGIN formleg ákvörðun var tekin á stjórnarfundi Lögmannafélags Íslands sem fram fór í fyrradag um hvort félagið kæri ákvörðun samkeppnisráðs um að sekta LMFÍ um 3,5 milljónir króna fyrir að brjóta gegn bannákvæðum samkeppnislaga um ólögmætt samráð. Ákvörðunin ráðsins byggist á því að félagið lét gera kostnaðargrunn fyrir lögmannsstofur og birta hann og hvatti með því til samræmingar á gjaldskrá lögmanna, að mati ráðsins.

Að sögn Ingimars Ingasonar, framkvæmdastjóra Lögmannafélags Íslands, ætlar stjórnin að ræða málið betur sín á milli enda hafi félagið nægan tíma til að taka ákvörðun. "Menn erum að fara ofan í saumana á þessu. Þetta er tiltölulega yfirgripsmikil ákvörðun frá samkeppnisráði og mikilvægt að gefa sér tíma til að sjá hvaða möguleikar eru í stöðunni," segir Ingimar.