STJÓRNVÖLD í Portúgal hafa beðið Atlantshafsbandalagið (NATO) um aðstoð vegna öryggismála á Evrópumótinu í knattspyrnu sem fram fer í landinu í sumar. Í kjölfarið á hryðjuverkunum í Madríd 11. mars sl.

STJÓRNVÖLD í Portúgal hafa beðið Atlantshafsbandalagið (NATO) um aðstoð vegna öryggismála á Evrópumótinu í knattspyrnu sem fram fer í landinu í sumar. Í kjölfarið á hryðjuverkunum í Madríd 11. mars sl. hafa þau ákveðið að auka öryggisviðbúnað í landinu í tengslum við mótshaldið og hafa af þeim sökum óskað eftir því að NATO leggi til AWACS-eftirlitsflugvélar og veiti ýmsa aðra tækniaðstoð.

Jose Manuel Durao Barroso, forsætisráðherra Portúgals, greindi frá þessu í gær. Barroso sagði að með AWACS-flugvélunum, sem eru útbúnar öflugum ratsjárbúnaði, yrði hægt að hafa eftirlit með stóru svæði, þannig yrði hægt að greina allt "óvænt eða grunsamlegt flug" í lofthelgi Portúgals. Barroso sagði að einnig yrði farið fram á að NATO hjálpaði til við að tryggja öryggi á sex daga tónlistarhátíð sem hefst í Lissabon 28. maí.

NATO líka á Ólympíuleikunum

Evrópumótið í knattspyrnu hefst 12. júní og stendur til 4. júlí. Leikið verður í tólf borgum og er reiknað með að um 500.000 manns leggi leið sína til Portúgals vegna mótsins. Um er að ræða stærsta íþróttaviðburð sem Portúgalar hafa skipulagt.

Yfirvöld í Grikklandi hafa þegar óskað eftir aðstoð NATO vegna Ólympíuleikanna sem fara fram í Aþenu í sumar. Fordæmi er fyrir ósk þeirra, AWACS-eftirlitsflugvélar NATO tryggðu öryggi í loftunum á vetrarólympíuleikunum í Salt Lake City í Bandaríkjunum veturinn 2002.

Lissabon. AFP.