Borgar Þór Einarsson fjallar á Deiglunni um sölu á eignarhlut ríkisins í Símanum. "Fyrir nokkrum misserum fóru fyrirætlanir um sölu Símans út um þúfur.

Borgar Þór Einarsson fjallar á Deiglunni um sölu á eignarhlut ríkisins í Símanum. "Fyrir nokkrum misserum fóru fyrirætlanir um sölu Símans út um þúfur. Menn voru of seinir til þegar aðstæður voru hagstæðar og þegar til kom hafði áhugi kaupenda minnkað og verðið sem ríkið vildi fá var einfaldlega of hátt fyrir markaðinn. Vonandi hafa menn lært af þessari reynslu. Þótt það eigi í sjálfu sér ekki að vera markmið ríkissjóðs að selja á uppsprengdu verði er tvímælalaust heppilegra fyrir ríkið að selja á þeim tíma sem markaðurinn er tilbúinn til að kaupa.

Aðalmarkmiðið er auðvitað að losa um eignarhald ríkisins á fyrirtækinu enda hefur ríkissjóður engu hlutverki að gegna með að reka símafyrirtæki sem er í bullandi samkeppni við önnur fyrirtæki á markaði," segir Borgar. "En segjum svo að þessi áform gengju eftir og ríkinu tækist að selja hlut sinn í Símanum á sanngjörnu verði, sem myndi væntanlega vera um 40 milljarðar króna. Hvaða þýðingu hefði það? Er hægt að halda því fram að ríkissjóður hefði þar með hagnast um 40 milljarða, að þessir fjármunir væru fundið fé? Menn hafa auðvitað séð það fyrir sér að milljarðana mætti nota í ýmis góð mál, vegaframkvæmdir og þar fram eftir götunum. Síðast þegar menn stóðu frammi fyrir því að ætla að selja Símann voru að sama skapi uppi áætlanir um verja fjármununum í ýmis góð mál, eins og endranær."

Borgar vísar í eldri pistil sinn á Deiglunni, þar sem hann segir hagnað af sölu ríkisfyrirtækja engan happdrættisvinning, heldur fjármuni sem ríkið eigi bundna. Ríkið hagnist í raun ekkert á sölu þeirra, því engin viðbótareign verði til. "Þeir fjármunir sem ríkissjóður fær út úr væntanlegri sölu Símans eru því ekki fundið fé. Þótt tekist hafi að grynnka mjög verulega á skuldum ríkissjóðs á undanförnum árum þá hvíla enn miklar skuldir á ríkissjóði. Þrátt fyrir að yfir 50 milljarðar hafa verið settir til hliðar á síðustu árum til að mæta lífeyrisskuldbindingum ríkissjóðs í framtíðinni þá vantar enn verulega upp á að þær miklu skuldbindingar séu fyllilega tryggðar. Áður en menn ráðast í að þvera firði, bora göng eða byggja menningarhús út um hvippinn og hvappinn, þá ættu þeir að hugsa um hvernig hyggilegast sé að ráðstafa þeim fjármunum sem ríkissjóður losar vonandi um við sölu Símans."