Hin unga og efnilega Heidi Marie gengur fram fyrir skjöldu í kvöld í innrás norskra tónlistarmanna í landið.
Hin unga og efnilega Heidi Marie gengur fram fyrir skjöldu í kvöld í innrás norskra tónlistarmanna í landið.
JON Andersen Gotteberg er Norðmaður sem búsettur er á Íslandi.

JON Andersen Gotteberg er Norðmaður sem búsettur er á Íslandi. Hann hefur nú sett á stofn fyrirtækið TROLL Productions og mun á næstu vikum flytja inn fimm tónlistarmenn frá Noregi, poppara og rokkara, sem allir eiga það sameiginlegt að vera ungir og upprennandi og hafa þeir þegar skapað sér nafn í heimalandinu. Það er söngvaskáldið Heidi Marie sem ríður á vaðið í kvöld en henni hefur verið líkt við pönktrúbadúrinn Ani DiFranco.

Jon segist hafa unnið við skipulagningu tónleika í Noregi og þaðan hafi hann sambönd. Tilgangurinn sé einfaldur; að kynna það sem er að gerast í nýju norsku rokki og poppi fyrir Íslendingum og um leið að veita Norðmönnunum færi á að koma hingað og spila.

"Mér hefur fundist sem samgangur á milli Noregs og Íslands að þessu leytinu til sé furðu lítill," segir Jon. "Það er ákveðin vaxtarbroddur í gangi núna úti í Noregi og um að gera að hamra járnið á meðan það er heitt."

Jon segir að áhugi Norðmannanna hafi verið mikill og hann sé glaður að geta stuðlað að því að Íslendingar kynnist góðri tónlist, sem alla jafna færi fram hjá þeim.

Búið er að skipa næstu ferna tónleika. Laugardaginn 10. apríl treður Karin Park upp, sem mun vera upprennandi poppprinsessa í Noregi. Föstudaginn 23. apríl leikur svo St. Thomas en hann hefur vakið mikla athygli undanfarin ár, leikur einskonar jaðarsveitatónlist í ætt við það sem Will Oldham og Lambchop eru að gera. Föstudaginn 21. maí spilar svo hljómsveitin Minor Majority sem á nú að baki þrjár breiðskífur. Það er svo Thomas Dybdahl sem lýkur törninni, en hann er rísandi söngvaskáld og þykir minna á Elliott Smith heitinn. Plötur hans tvær, That Great October Sound og Stray Dogs hafa fengið framúrskarandi góða dóma og mælir Jon eindregið með því að fólk missi ekki af Thomasi, tónleikar hans séu sannkölluð upplifun.

Tónleikar Heidi Marie eru í kvöld á Jóni forseta og er aðgangseyrir 1.000 krónur. Sama gildir um hina tónleikana.