STJÓRN Verkalýðsfélags Akraness hefur sent frá sér ályktun þar sem er skorað á ríkisstjórn Íslands að fella niður virðisaukaskatt af veggjaldi í Hvalfjarðargöngum, en það gæti leitt strax til 14% lækkunar á veggjaldi.

STJÓRN Verkalýðsfélags Akraness hefur sent frá sér ályktun þar sem er skorað á ríkisstjórn Íslands að fella niður virðisaukaskatt af veggjaldi í Hvalfjarðargöngum, en það gæti leitt strax til 14% lækkunar á veggjaldi.

"Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill minna á að samgönguráðherra sagði í utandagskrárumræðum á Alþingi í desember 2003 að ríkisstjórnin stefndi á að lækka virðisaukaskatt á veggjald í Hvalfjarðargöngum, og í máli hans kom líka fram að það kæmi vel til greina að ríkið tæki á sig hluta af tryggingum ganganna.

Verkalýðsfélag Akraness vill benda á hve gríðarlegt hagsmunamál þetta er fyrir Akurnesinga, en í skýrslu sem Vegagerð ríkisins lét gera í október 2002 kom fram að um fimmti hver bíll sem fór í gegnum göngin, eða 18%, hefði komið frá Akranesi.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar jafnframt á sveitarstjórnir og verkalýðsfélög á Vesturlandi að taka höndum saman í því að fá stjórnvöld til að afnema virðisaukaskatt á veggjaldi, því eins og fram kom í skýrslu Vegagerðarinnar, voru 40% þeirra sem óku í gegnum Hvalfjarðargöng búsett á Vesturlandi. Því er það mikið hagsmunamál fyrir Vesturland í heild sinni að vel takist til í þessu máli.

Verkalýðsfélag Akraness vill þakka þeim forsvarsmönnum Spalar ehf. sem með elju og atorkusemi létu þann draum rætast að hægt væri að aka undir Hvalfjörð. Tíminn hefur leitt það í ljós að hér er um eina mestu samgöngubót sem Íslendingar hafa orðið vitni að.

Það er mat stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að þetta framtak Spalar ehf. hafi orðið til mikilla hagsbóta fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness, sem og aðra landsmenn."