Skúli Skúlason rektor segir frá starfi skólans og framtíðarsýn. Hrossaræktardeild kynnir uppbyggingu námsins við deildina og leiðsögn verður um hesthúsin og reiðskemmurnar og teymt verður undir börnum. Kynnt verður kynbótastarf í bleikjueldi og leiðsögn verður um rannsóknarstofu og rannsóknarverkefni kynnt, s.s álaeldi. Ferðamáladeild sér um móttöku gesta og afþreyingu fyrir börnin og deildarstjóri ferðamáladeildar kynnir nám deildarinnar. Nýir nemendagarðar verða einnig til sýnis. Boðið verður upp á kaffiveitingar.
Kynningardagur Kennaraháskólans Á morgun, laugardaginn 27. mars kl. 13-16 í Kennaraháskóla Íslands verður kynning á því námi sem verður í boði næsta háskólaár. Nemendur, kennarar og námsráðgjafar skólans munu kynna námið og svara fyrirspurnum um nám fyrir grunnskólakennara, leikskólakennara, íþróttafræðinga, tómstundafræðinga og þroskaþjálfa. Fulltrúar viðkomandi stéttarfélaga verða á staðnum og svara fyrirspurnum um atvinnumöguleika, kaup og kjör. Bókasafn og gagnasmiðja verða opin gestum í nýbyggingu skólans. Óvæntur gestur mætir á svæðið.
Umsóknarfrestur um námið er til 17. maí, sjá nánari upplýsingar á vef skólans www.khi.is.
Fræðslufundur Félags eldri borgara verður á morgun, laugardaginn 27. mars kl. 13.30, í félagsheimili félagsins Ásgarði í Glæsibæ. Fræðsluefni nú er "sykursýki aldraðra" og "hreyfing er holl og nauðsynleg".
Sykursýki meðal aldraðra fer vaxandi með hækkandi aldri, stærri hópi eldra fólks og breyttu mataræði. Guðný Bjarnadóttir sérfræðing í öldrunarsjúkdómum fjallar um sykursýki meðal eldra fólks. Seinni hluti fræðslufundarins er um gildi hollrar hreyfingar á efri árum. Guðrún Nielsen og Soffía Stefánsdóttir fjalla um íþróttir en þær hafa staðið fyrir eflingu líkamsþjálfunar á vegum Félags áhugafólks um íþróttir aldraðra.
Vorsýning Garðheima verður á morgun, laugardaginn 27. og sunnudaginn 28. mars. Á vorsýningunni verður fræðsla og kynning um sem flest sem tengist garðrækt, grænum lífstíl, föndri og skreytingum, aðallega fyrir áhugamanninn en einnig fyrir atvinnumenn í garðrækt.
Margvísleg sýnikennsla verður í boði ásamt því að hægt verður að prófa klippur og tæki, skoða mismunandi gerðir af mold og plöntum á ýmsum vaxtarstigum og fræðast um nýjungar. Garðyrkjufélag Íslands kennir vorverkin í garðinum. Á útisvæðinu verður Kraftvélaleigan með kynningu á gröfum og stærri garðvinnutækjum til leigu. Börnin fá að föndra og prófa að sá fræjum.
Sameiginlegt málþing, skákkeppni og skemmtun ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna í félagsheimilinu á Seltjarnarnesi laugardaginn 27. mars kl. 14. Ungliðahreyfingarnar munu kynna starfsemi sína og kappræður verða milli fulltrúa þeirra. kl. 20.30 fer fram keppni í atskák þar sem hver ungliðahreyfing sendir einn stórmeistara.
Að Stjórnmáladegi ungs fólks standa: Samband ungra framsóknarmanna, Samband ungra sjálfstæðismanna, Ung frjálslynd, Ungir jafnaðarmenn og Ung vinstri græn.
Fundur um skólamál Álftaneshreyfingin boðar til stefnumóts um skólamál á morgun, laugardaginn 27. mars í sal Álftanesskóla frá kl. 10-13. Erindi halda: Tryggvi M. Baldvinsson tónskáld, Jakob Hagedorn Olsen tónlistarkennari, Hjördís Ólafsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri, Hanna Ragnarsdóttir lektor við Kennaraháskóla Íslands, Júlíus K. Björnsson forstöðumaður Námsmatsstofnunar, Stefán Arinbjarnarson íþrótta- og tómstundafulltrúi Bessastaðahrepps, Sveinbjörn M. Njálsson skólastjóri Álftanesskóla, Guðlaug E. Gunnarsdóttir aðstoðarskólastjóri Álftanesskóla og Loftur Magnússon skólastjóri Setbergsskóla. Fundarstjóri er Ólafur Proppé rektor við KHÍ.