ÉG brá mér á sýningu Árna Johnsen sem haldin var í Keflavík og er skemmst frá að segja að sýningin kom skemmtilega á óvart. Endurtekningar að vísu nokkuð miklar, en virkilega skemmtileg tök á einstökum verkum. Svo er um nr. 31, "Valkosti".

ÉG brá mér á sýningu Árna Johnsen sem haldin var í Keflavík og er skemmst frá að segja að sýningin kom skemmtilega á óvart.

Endurtekningar að vísu nokkuð miklar, en virkilega skemmtileg tök á einstökum verkum. Svo er um nr. 31, "Valkosti". Þar vaxa þrjár eirhendur út úr 13 milljón ára gömlum steinhnullungi. Krepptur hnefi, framrétt sáttahönd, og bending vísifingurs. Virkilega eigulegt. Nokkuð er nú um liðið síðan ég leit sýningu félags myndhöggvara. Sú var haldin í Hafnarhúsinu í Rvk. Reyndar afmælissýning. Þar var helsti dýrgripurinn u.þ.b. 9 rúmmetra stæða af dagblöðum. Bleytt var í stæðunni og fræ sett í millum, sem áttu síðan að spíra. Annað verk var þar stórskemmtilegt. Um 200 pappaöskjur dreifðar um gólfið, hvítar, og áprentað: "fullnæging". Þar var og kvikmynd í gangi sem sýndi nokkra beljurassa! Önnur listaverk voru eftir þessu. Treg var salan, að sögn. Mætti ég heldur biðja um Árna Johnsen en alla myndhöggvaraelítuna ef þetta er getan eftir allar prófgráðurnar. Einar Jónsson frá Galtafelli hefði snúið sér við í gröfinni hefði hann mátt líta þessa algjöru niðurlægingu.

SIGURÐUR SIGURÐARSON frá Vatnsdal.

Frá Sigurði Sigurðarsyni: