"Heimsyfirráð eða dauði?" Mínus hefur náð að heilla yfirstjórn Kerrang!
"Heimsyfirráð eða dauði?" Mínus hefur náð að heilla yfirstjórn Kerrang!
ROKKSVEITIN Mínus er í miklu uppáhaldi hjá breska vikuritinu Kerrang! sem er helsta þungarokksritið í dag. Í byrjun þessa mánaðar hélt Mínus tónleika á Gauk á Stöng ásamt velsku sveitinni Jarcrew og íslensku sveitinni Jan Mayen. Í nýjasta hefti Kerrang!

ROKKSVEITIN Mínus er í miklu uppáhaldi hjá breska vikuritinu Kerrang! sem er helsta þungarokksritið í dag.

Í byrjun þessa mánaðar hélt Mínus tónleika á Gauk á Stöng ásamt velsku sveitinni Jarcrew og íslensku sveitinni Jan Mayen. Í nýjasta hefti Kerrang! (dagsett 24. þessa mánaðar) er opnudómur um téða tónleika. Fá þeir hæstu einkunn eða fimm K og er það sjálfur ritstjórinn, Ashley Bird, sem skrifar en hann kom hingað til lands og þeytti skífum á umræddu kvöldi.

Bird fer mikinn í dómnum og lofar Mínus í hástert. Lýsir hann stemningunni á einkar litríkan hátt og segir að allt hafi bókstaflega orðið vitlaust er Mínus steig á svið. Segir hann að áhorfendur hafi gengið af göflunum og Mínus hafi verið eins og blanda af Queens of the Stone Age og Stooges og hafi þeir gjörsamlega rúllað yfir mannskapinn með kraft-riffum sínum.

Bird færir dálítið í stílinn, segir að blóð og bjórslettur hafi flogið þvers og kruss og á tíma hafi verið fleiri uppi á sviði en eru í sjálfri hljómsveitinni.

Því næst gerist Bird ögn fræðilegri og segir það skrýtið hvernig Mínus hafi tekið u-beygju, stíllega séð. Þeir hafi breyst úr jaðar-harðkjarnabandi undir áhrifum frá Refused og Dillinger Escape Plan yfir í sveitt og groddalegt þungarokksband. Hann segir hins vegar að tónlistin sé þannig að hér sé ekki helber kaldhæðni í gangi. Lög eins og "Romantic Exorcism", "My name is Cocaine" og "Boys of Winter" séu einfaldlega þrusulög og sveitin sé níðþung og kraftmikil, um hana leiki "gengis"ára líkt og var með Guns'n'Roses á sínum tíma en það hafi verið eitt af því sem hafi gert þá sveit sérstaka. Hann segir svo að Krummi minni á þá Iggy Pop og Axl Rose þar sem hann standi, ber að ofan, sveittur og með húðflúr.

Að endingu staðhæfir Bird að töfrar Mínuss eigi að geta heillað víðar en á Íslandi og endar dóminn á því að segja: "[Mínus] gæti verið sú rokksveit sem heimurinn hefur verið að bíða eftir."!

www.noisyboys.net