Gijs de Vries
Gijs de Vries
LEIÐTOGAR Evrópusambandsríkjanna útnefndu Hollendinginn Gijs de Vries í nýtt embætti yfirmanns hryðjuverkavarna ESB á fundi sínum í Brussel í gær.

LEIÐTOGAR Evrópusambandsríkjanna útnefndu Hollendinginn Gijs de Vries í nýtt embætti yfirmanns hryðjuverkavarna ESB á fundi sínum í Brussel í gær. Þá náðu þeir samkomulagi um ýmsar ráðstafanir til að auka samstarf lögreglu og leyniþjónustu í nafni efldra hryðjuverkavarna um alla álfuna.

Andinn á fundi leiðtoga ESB-ríkjanna í gær þótti markast mjög af því að margir þeirra komu beint til Brussel frá Madríd, þar sem þeir voru á miðvikudag viðstaddir minningarathöfn um þá sem biðu bana í hryðjuverkunum 11. mars sl.

Sagði Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands, en hann situr nú í forsæti ESB, að fyrir hendi væri einbeittur vilji til að bregðast við ógninni. "Hryðjuverkaváin ógnar öryggi okkar, lýðræðinu sem við búum við og lífsháttum okkar," sagði Ahern. "Við munum gera allt sem við getum til að verja þjóðir okkar gegn þessari vá."

Stjórnarskrá á dagskrá á ný

Gijs De Vries er 48 ára gamall og gegndi embætti varainnanríkisráðherra í Hollandi 1998-2002. Þar áður sat hann 14 ár á Evrópuþinginu og hann veitti Atlantshafsráðinu hjá NATO forystu 1991-1997.

Til marks um sterkan samhug, sem myndaðist á fundinum í Brussel, er sú staðreynd að leiðtogarnir ákváðu einnig að hefja aftur viðræður um stjórnarskrá fyrir ESB en í desember sl. runnu slíkar viðræður út í sandinn. Er stefnt að því að samkomulag um orðalag og efni stjórnarskrárinnar liggi fyrir 17. júní nk.

Brussel. Associated Press.