Skipulagsstofnun birtir að öllum líkindum matsskýrslu vegna fyrsta áfanga Sundabrautar á næstu dögum.

Skipulagsstofnun birtir að öllum líkindum matsskýrslu vegna fyrsta áfanga Sundabrautar á næstu dögum. Ekki er enn ákveðið hvernig Sundabrautin verður tengd Kjalarnesinu, en tvær leiðir koma til greina, önnur gerir ráð fyrir þverun Kollafjarðar en hin beinir umferð inn á Vesturlandsveg hjá Mógilsá.

Ferlið til mats á umhverfisáhrifum Sundabrautar er með þeim hætti að framkvæmdaraðilar, Reykjavíkurborg og Vegagerðin, sendu drög til Skipulagsstofnunar að matsskýrslu. Stofnunin hefur þegar farið yfir þær en það er gert með því að bera þau saman við upphaflega matsáætlun sem og ganga úr skugga um að drögin séu í samræmi við lög og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum.

Matsskýrslan, með athugasemdum Skipulagsstofnunar, hefur verið send til framkvæmdaraðilum og að sögn Ólafs Bjarnasonar hjá borgarverkfræðingi er von á að endanleg skýrsla verði send Skipulagsstofnun á næstu dögum. Einungis sé eftir að fara yfir nokkra líffræðilega þætti.

Skýrslan aðgengileg á Sólheimasafni og Grafarvogssafni

Eftir að Skipulagsstofnun hefur fengið endanlega matsskýrslu í hendurnar verður skýrslan auglýst og gerð aðgengileg almenningi, að sögn Sigurðar Ásmundssonar sérfræðings í umhverfismati hjá Skipulagsstofnun. Í sex vikur eftir auglýsingu skýrslunnar hefur almenningur frest til athugasemda auk þess sem lögboðnir umsagnaraðilar verða að skila umsögnum innan þess tíma.

Skipulagsstofnun hefur svo frest í fjórar vikur til að úrskurða um málið eftir að frestur almennings og umsagnaraðila rennur út.

Alls spannar ferlið frá því skýrslan er auglýst og þar til Skipulagsstofnun skilar úrskurði tíu vikur eftir að endanleg matsskýrsla Sundabrautar liggur fyrir. Að þeim tíma loknum er veittur fjögurra vikna kærufrestur. Berist umhverfisráðherra kærur hefur hann átta vikur til að svara þeim. Heildarferlið gæti því tekið allt að 22 vikur frá því skýrslan er auglýst.

Að sögn Sigurðar verður matsskýrslan til að mynda til sýnis fyrir almenning í Bókasafni Grafarvogs og Sólheimasafni til að þeir íbúar sem næst búa Sundabrautinni eigi greiðan aðgang að henni. Einnig verður skýrslan aðgengileg á Netinu.

Síðari áfangar Sundabrautar ekki verið tímasettir

Sá hluti Sundabrautar sem nú gengst undir mat á umhverfisáhrifum mun ná frá Sæbraut og liggja þvert yfir Kleppsvík í Elliðaárvogi upp í Grafarvog. Þaðan er ætlunin að Sundabraut tengist Hallsvegi, sem liggur ofan við Foldahverfið og að íþróttasvæði Fjölnis.

Í framtíðinni er ætlunin að vegurinn jafnframt um Geldingarnes og Álfsnes og allt upp á Kjalarnes. Tvær leiðir koma til greina, önnur gerir ráð fyrir þverun Kollafjarðar en hin beinir umferð inn á Vesturlandsveg hjá Mógilsá.

"Í þessari framkvæmd er bara verið að tala um fyrsta áfangann sem teygir sig upp á Gufunesið," segir Ólafur Bjarnason. Hann segir að ekkert hafi verið ákveðið um hvenær veglínan verði komin upp á Gunnunes, Álfsnes eða Kjalarnes. Þá hafi ekki verið tekin ákvörðun um það hvort Sundabrautin komi til með að liggja þvert yfir Kollafjörð eða um Mógilsá. "Aftur á móti er landsbyggðin farin að þrýsta meira á þennan kafla Sundabrautar. Hafnartengingin gefur ástæðu til að flýta þessu," segir Ólafur.

Þverun Kollafjarðar yrði sérstakt verkefni

Byggð í Álfsnesi er á Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar eftir árið 2024 en að sögn Ólafs fer tímasetning framkvæmda við síðari hluta Sundabrautar nokkuð eftir því hvenær það svæði byggist. Hann segir ekki ákveðið hvernig staðið verður að framkvæmdum við Sundabraut frá Gufunesi og upp að Kjalarnesi, ekki hafi verið teknar neinar ákvarðanir um hvort sá hluti vegarins verði lagður í einu lagi eða fleirum. Þó sé ljóst að þverun Kollafjarðar myndi verða sérstakt verkefni og kalla á umhverfismat. Rannsaka þurfi lífríki þar með sama hætti og gert var í aðdraganda áætlana um þverun Kleppsvíkur.

Sundabraut verður þjóðvegur númer 450. Framkvæmd við veginn er á hendi Vegagerðar ríkisins og samgönguyfirvalda, en Reykjavíkurborg fer með skipulagsforræði.