Magnús Þórisson fæddist á Akureyri 9. febrúar 1932. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 20. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Þórir Jónsson málarameistari og Þórey Júlíana Steinþórsdóttir klæðskeri. Systkini hans eru Steinþór Jensen, f. 1919, Vilhelm K. Jensen, f. 1920, d. 1999, Baldur Þórisson, f. 1926, d. 2000, og Kolbrún Þórisdóttir, f. 1929.

Hinn 30. desember 1955 kvæntist Magnús eftirlifandi eiginkonu sinni, Árdísi Svanbergsdóttur. Synir þeirra eru: 1) Ragnar flugstjóri, f. 9. ágúst 1954, kvæntur Kristínu Steindórsdóttur. Börn þeirra: Árdís Elfa, f. 1975, og Steindór Kristinn, f. 1983, unnusta hans er Hugrún Ásdís Þorvaldsdóttir, f. 1983. Dóttir þeirra er Emilía fædd 2003. 2) Þórir málarameistari, f. 25. febrúar 1956, kvæntur Svövu Svavarsdóttur. Börn þeirra: Magnús, f. 1983, Anna Karen, f. 1986, og Þórey Sif, f. 1991. 3) Einar Svanberg bifvélavirki, f. 11. október 1959, kvæntur Guðnýju Sigurharðardóttur. Börn þeirra: Ragnheiður Ásta, f. 1978, og Magnús Örn, f. 1984. 4) Ottó viðskiptafræðingur, f. 2. desember 1964, kvæntur Guðrúnu Gísladóttur. Börn þeirra: Gísli, f. 1986, og Svana, f. 1996.

Magnús var lærður bakarameistari og starfaði við þá iðn hjá Brauðgerð KEA og Kexverksmiðjunni Lorelei. Einnig starfaði Magnús hjá gosdrykkjarverksmiðjunni Sana en frá árinu 1983 starfaði hann ásamt eiginkonu sinni hjá fyrirtækinu Tindafelli.

Útför Magnúsar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Á þessari stundu finn ég fyrir gleði og sorg. Gleði yfir því að þjáningum pabba er lokið en sorg yfir því að við skulum ekki fá að njóta samvista við hann lengur. Rúmlega þriggja ára baráttu er lokið þar sem krabbameinið hafði sigur að lokum, pabbi varð að lúta í lægra haldi, en hann var alls ekki sáttur við þau málalok. Pabbi var ekki vanur að ræða um tilfinningar sínar og um sjúkdóminn vildi hann ekki ræða. Þrátt fyrir það mátti auðveldlega greina á hans framkomu að hann ætlaði að sigra, lífsviljinn var sterkur og það var ekki hans stíll að gefast upp. Frá haustmánuðum 2003 fór þó að halla undan fæti. Frá þeim tíma hafa starfsmenn Heimahlynningar á Akureyri komið reglulega til pabba og er óhætt að segja að þær yndislegu manneskjur hafi reynst pabba og mömmu ákaflega vel. Ég vil fyrir hönd fjölskyldunnar, þakka þeim kærlega fyrir alla hjálpina. Fyrir um tveimur vikum var pabbi fluttur á sjúkrahús. Ljóst var hvert stefndi og erfitt að horfa upp á náinn ástvin fjarlægjast og líf hans fjara út. Við tekur annað tilverustig þar sem ég er þess fullviss, elsku pabbi minn, að þér mun líða vel, laus úr viðjum sjúkdómsins.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann í sambandi við persónueinkenni pabba er hversu ríkt var í hans eðli að sjá spaugilegu hliðina á hlutunum, hann var prakkari sem sleppti sjaldan tækifærum sem gáfust til að gera góðlátlegt grín að hlutunum. Pabbi var einnig fljótur til svars og var einstaklega orðheppinn maður. Fjölmörg dæmi eru um hnyttin tilsvör pabba sem ylja manni um hjartaræturnar.

Þar sem pabbi var nálægt, var stutt í hláturinn, svona oftast allavega. Annað sem einkenndi pabba var einlægur áhugi á matargerð og bakstri. Hann þurfti alltaf að vera að prófa eitthvað nýtt og var sífellt að prófa sig áfram með nýjar uppskriftir, sem voru hver annarri betri. Hann var meistarakokkur og ekki voru kökurnar síðri. Á heimilinu var verkaskiptingin skýr, pabbi sá alltaf um matargerðina en mamma um tiltektina. Þau voru samrýnd og unnu síðustu tuttugu árin saman við kryddframleiðslu og pökkun. Mamma hefur staðið sig eins og hetja í veikindum pabba og hefur enn og aftur sýnt að hún er eins og klettur sem stenst álagið þótt mikið bjáti á.

Pabbi minn, ég vil að lokum þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur bræðurna. Þau atriði sem þú hefur lagt áherslu á í uppeldi okkar bræðra, hafa og munu reynast okkur vel í lífinu.

Þinn sonur

Ottó.

Elsku afi, núna ertu farinn frá okkur og til guðs eftir að vera búinn að berjast við mjög erfiðan sjúkdóm. Ég man svo eftir því þegar við fórum saman í berjamó og þú spurðir mig hvað klukkan var en þá átti ég ekkert úr en þú varst svo góður að þú keyptir nýtt úr handa mér strax daginn eftir. Ég man líka eftir því þegar þú gafst mér bangsann og hann er enn í uppáhaldi hjá mér. Það var alltaf svo gott að koma upp í Hamró og fá eitthvað gott hjá þér enda varstu nú besti bakari í heimi. Svona get ég talið lengi upp góða hluti um þig elsku afi minn, ég á eftir að sakna þín svo mikið.

Elsku afi mig langar til að minnast þín með öllum góðu minningunum, hvað þú varst alltaf kátur og líka með þessu ljóði:

Sorg er eins og blóm án blaða

söngur án raddar

skyggir dökkur fugl heiðríkjuna

vorið, sem kom í gær,

er aftur orðið að vetri

(Magnús Jóhannsson.)

Ég bið góðan Guð að vera með okkur og hjálpa okkur í gegnum erfiða tíma.

Þín

Þórey Sif Þórisdóttir.

Elsku afi, nú ertu farinn frá okkur eftir baráttu við erfiðan sjúkdóm, við sem elskuðum þig svo heitt. Þú varst orðinn svo mikið veikur og því var gott fyrir þig að fá hvíldina þrátt fyrir að öllum þyki erfitt að sætta sig við að þú sért farinn frá okkur, þetta er mikil sorg því missirinn er mikill en var þér fyrir bestu, elsku afi.

Það var alltaf gott að koma í heimsókn til þín og þú varst alltaf svo glaður þegar ég kom. Þú varst alltaf hress og skemmtilegur og hafðir alveg frábæran húmor, það leið varla dagur án gríns hjá þér sama hversu veikur þú varst og sem betur fer halda pabbi og bræður hans honum. Þú varst besti bakarinn enda lærður bakari, já, þú varst sannkallaður bakarameistari, þú varst einnig mjög góður kokkur. Það brást ekki þegar maður kom í heimsókn til þín fékk maður eitthvað gott í gogginn, pönnsur, vöfflur eða annað góðgæti. Á jóladag var alltaf hangikjötsveisla í Hamragerðinni þar sem öll fjölskyldan kom og átti góðar stundir saman. Það var ávallt borðað yfir sig af hangikjöti og öðru góðgæti og mikið hlegið þennan dag. Á nýársdag hefur líka verið veisla, enda á amma afmæli þá, fólk var nú að tínast inn í seinna lagi eftir gamlárskvöldið. Ég minnist þess sumars sem ég vann hjá þér og ömmu í Tindafelli eða "kryddinu" eins og við kölluðum það. Ragnheiður frænka og Guðný unnu líka þar. Það var svo gott að vinna í kryddinu, þú og amma hælduð mér svo mikið því ykkur fannst ég svo dugleg og ég met það mikils. Mér fannst þú, afi, svo ótrúlega duglegur að vinna þrátt fyrir veikindi þín. Þú varst svona maður sem gafst ekki upp fyrr en á síðustu stundu, þú varst svo sannarlega baráttumaður og lífsvilji þinn var mikill. Þú varst alltaf duglegur að fara í leikfimi á Bjarg og það hefur eflaust skilað sér í veikindunum hvað þú varst sterkur líkamlega og andlega.

Elsku afi, ég sakna þín svo mikið, mig langar til að minnast þín og kveðja þig með ljóði sem mér þykir svo fallegt.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Takk fyrir allt, elsku afi. Ég bið góðan Guð að styrkja ömmu, pabba, bræðurna og aðra aðstandendur á þessum erfiðu tímum.

Þín

Anna Karen Þórisdóttir.

Við viljum minnast þín með nokkrum orðum. Það er sárt að þetta skuli hafa þurft að enda á þennan hátt. En þar sem þú varst mjög veikur var þetta þér fyrir bestu og gott fyrir þig að fá hvíld eftir allt sem þú hefur gengið í gegnum. Auðvitað er sárt að missa þig en maður má ekki bara hugsa um sjálfan sig.

Okkur finnst ótrúlegt hvernig þú varst í veikindunum. Þú varst alltaf mikill húmoristi og ekki hættir þú að segja brandara, alveg sama hversu veikur þú varst. Það skipti ekki nokkru máli, þú varst alltaf svo harður og ákveðinn í því að sigra. Þegar við heimsóttum þig fyrir stuttu varstu oft að fíflast og segja brandara, þrátt fyrir að vera mjög slappur.

Við minnumst þess hversu gríðarlegan viljastyrk þú hafðir. Það var alveg samt hvað kom fyrir, það stoppaði þig ekkert. Eftir hjartaaðgerðina fórstu á fullt í leikfimi á Bjargi og hafðir mjög gaman af og slepptir ekki úr tíma, nema þegar þú varst á sjúkrahúsi í Reykjavík. Þú ætlaðir þér að ná bata og barðist eins og hetja og alltaf stóð amma með þér og á heiður skilinn fyrir og þú fyrir baráttu þína.

Þú kvartaðir heldur ekki undan neinu. Það eru ef til vill margir sem hefðu gefist upp á því að vera á sjúkrahúsi í mjög langan tíma og fara í erfiða og langa aðgerð. En þú barðist og þegar þú komst af sjúkrahúsinu fórstu ekki að hvíla þig heldur fórst aftur á Bjarg, þar sem þér líkaði svo vel að vera og æfðir sem aldrei fyrr.

Þú varst mjög góður kokkur og það var gott að koma í Hamró og fá sér pönnukökur eða eitthvað annað sem þið buðuð upp á.

Þú varst alltaf duglegur í vinnu og áttir meðal annars staðinn sem við frændurnir vinnum núna á, Nætursöluna. Svo varstu á fullu í kryddinu. Eftir að þú komst heim til Akureyrar eftir aðgerðina á hálsi hefðu margir haldið að þú myndir hætta að vinna, allavega taka þér langt frí. En þeir sem þekkja þig rétt vissu að það myndi Bangsi ekki gera. Enda gerðirðu það ekki. Það leið ekki langur tími þangað til þú varst kominn á fullt aftur, eins og ekkert hefði í skorist.

Það er erfitt að missa þig og við viljum þakka þér fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Það er samt gott að vita að núna líður þér vel.

Andlit þitt

er ekki framar ungt

en augun segja

við spegilmynd sína:

Sálin hefur engan aldur.

Þú gengur sem fyrr

út í birtuna

og gleðst yfir deginum.

(Þóra Jónsdóttir.)

Magnús Þórisson,

Magnús Örn Einarsson.

Magnús Þórisson, föðurbróðir okkar, er nú fallinn frá, eftir hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm.

Bangsi frændi, eins og við kölluðum hann alltaf, var okkur alla tíð afar kær. Alveg frá því að við vorum litlar hefur okkur fundist gaman að heimsækja Bangsa og Dísu, enda þau miklir höfðingjar heim að sækja. Bangsi átti mjög auðvelt með að sjá skoplegu hliðarnar á hlutunum og sagði afskaplega skemmtilega frá.

Það er margs að minnast frá því að við vorum litlar stelpur, svo sem allra fallegu gjafanna sem við fengum frá þeim hjónum, á jólum, þegar þau komu frá útlöndum og við önnur tækifæri. Einnig viljum við sérstaklega nefna allar skemmtilegu stundirnar sem við áttum saman í heyskapnum með pabba. Þá komu Bangsi, Dísa og strákarnir að hjálpa til. Oft komu líka með einhverjir vinir þeirra bræðra og stundum einnig frændfólk okkar að sunnan. Í minningunni eru þetta langir, sólríkir dagar, þar sem ýmislegt var brallað og oft mikið fjör. Í seinni tíð dróst heyskapurinn heldur saman hjá okkur, en áfram héldu Bangsi, Dísa og "strákarnir", þá fulltíða menn og fjölskyldur þeirra að koma til að keyra heyið heim. Þetta var alltaf jafnánægjulegt.

Bangsi var mikill hagleiksmaður. Allt lék í höndunum á honum, hvort sem það var að gera við vélar, tengja ljós eða baka gómsætar tertur. Það eru líka ófáar veislurnar sem við höfum sótt í Hamragerði. Fermingarveislur þeirra bræðra, brúðkaup og fermingarveislur barnabarna, þar sem Bangsi átti oft stóran þátt í að útbúa glæsilegar veitingar.

Þótt ekki hafi verið daglegur samgangur með fjölskyldum okkar í gegnum tíðina, hefur samt alltaf verið sterkt samband okkar á milli. Þeir föðurbræður okkar voru ekki alltaf sammála um allt og stundum slettist tímabundið upp á vinskapinn, en það jafnaðist samt alltaf, enda menn með stórt skap, en ennþá stærra hjarta. Við systurnar tölum oft um hvað einstakt hafi verið að sjá hvað umhyggja og væntumþykja þeirra bræðra var mikil, ekki síst eftir að þeir fóru að eldast og ástvinamissir og veikindi herjuðu á. Er þar skemmst að minnast hversu þau Bangsi og Dísa, sem alla tíð hafa verið mjög samhent, voru dugleg að heimsækja pabba okkar í hans löngu veikindum og mörgu sjúkrahúslegum. Þar voru þau alveg einstök.

Kæru Dísa, Raggi, Þórir, Eii, Oddi og fjölskyldur, við og fjölskyldur okkar sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur. Við vitum að missir ykkar er mikill, en erum þess fullvissar að Bangsi frændi er kominn á betri stað, laus við allar þjáningar og hefur fengið þar hlýjar móttökur.

Edda og Marta.