Garðar Sigurðsson fæddist í Reykjavík 20. nóvember 1933. Hann andaðist á Hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík þann 19. mars síðastliðinn. Foreldrar Garðars voru hjónin Klara Tryggvadóttir húsfreyja, f. 1.10.1906, og Jóhann Sigurður Hjálmarsson bifreiðasmiður, f. 17.10. 1900. Þau eru bæði látin. Frá sjö ára aldri ólst Garðar upp á heimili móður sinnar og síðari eiginmanns hennar, Hallgríms Júlíussonar, skipstjóra í Vestmannaeyjum.

Systkini Garðars eru: Tryggvi Sigurðsson, Vestmannaeyjum, Arndís Birna Sigurðardóttir, Reykjavík, Óskar Hallgrímsson, Reykjavík og Hallgrímur Hallgrímsson, Hafnarfirði.

Eftirlifandi eiginkona Garðars er Bergþóra Óskarsdóttir, f. 10. maí 1943, og gengu þau í hjónaband 27. október 1962. Foreldrar Bergþóru eru hjónin Óskar Sigfinnsson, látinn, og Þóra Guðný Þórðardóttir, nú á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Börn Garðars og Bergþóru eru a) Sigríður, f. 1962, b) Gerður Klara, f. 1969, gift Haraldi Júlíussyni og eiga þau börnin Garðar Anton og Diljá, c) Guðný Ósk, f. 1976, gift Sölva Fannari Viðarssyni og eiga þau dæturnar Helenu Fanney og Heru Sóley, d) Edda, f. 1979.

Fyrri kona Garðars er Kristrún Hólmfríður Jónsdóttir, f. 1934. Þau skildu. Börn þeirra eru e) Bjarney Kolbrún, f. 1955, gift Hjörleifi Kristinssyni og á hún börnin Tryggva Þór, Rebekku Stellu og Ástþór, f) Tryggvi, f. 1958.

Garðar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1953 og lagði stund á verkfræðinám við Háskóla Íslands frá 1953 til 1955. Stýrimannaprófi frá Sjómannaskólanum í Reykjavík lauk hann utan skóla árið 1962. Frá 1957 til 1960 var hann kennari við Gagnfræðaskólann í Neskaupstað og kenndi þar líka við Iðnskólann 1958-1960. Kennari við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum 1961-1962 og 1963-1973, settur skólastjóri þar 1969-1970. Stundaði sjómennsku með námi og kennslu og að aðalstarfi 1955-1957. Stýrimaður á fiskiskipum í nokkur sumur, frá 1962.

Garðar Sigurðsson var bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum fyrir Alþýðubandalagið 1966-1978 og alþingismaður Suðurlands fyrir sama flokk 1971-1987. Sat í flugráði 1972-1980, í stjórn Viðlagasjóðs 1973-1975 og í bankaráði Útvegsbanka Íslands 1981-1987. Fjórum sinnum var hann einn fulltrúa Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og tók einnig þátt í störfum Evrópuráðsins og Alþjóðaþingmannasambandsins.

Frá 1987 til 1990 var Garðar starfsmaður Veiðieftirlits sjávarútvegsráðuneytisins og frá 1990 til starfsloka við störf í Landsbanka Íslands.

Útför Garðars verður gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan þrjú síðdegis.

Eitt tár

af hvarmi þínum

hrundið fram

með litrófi allra tilfinninga

orðum allra tungumála

af þunga tilverunnar

tímans og þín

Augu þín

dimmur geimur

sem fela hyldýpi sálar þinnar

í óendanleika sársaukans.

Guðný Ósk, Sölvi Fannar

og afastelpurnar Helena

og Hera Sóley.

Mikil gæfa er að enginn veit sína ævina fyrr en öll er og skuggar frá myrkviðrum efri ára ná því ekki að trufla gleði æskudaganna. Garðar Sigurðsson sem í dag er borinn til grafar var svo að heiman búinn að hann átti í fari sínu bjartari gleði en flestir hinna. Þess nutum við sem þekktum hann ungan og aðrir síðar, öll hans manndómsár. En eigi má sköpum renna og þrautagangan undir lok ævinnar varð honum bæði löng og strangari en orð frá lýst.

Leiðir okkar lágu saman á Laugarvatni haustið 1949 og vorum báðir að hefja þar menntaskólanám, 16 ára gamlir, hann úr Vestmannaeyjum, ég vestan af fjörðum.

Veturinn sem í hönd fór deildum við herbergi ásamt Eyjólfi Pálssyni, einnig úr Vestmannaeyjum, og bjuggum í Grundinni er svo var nefnd. Þarna undum við okkur vel í hópi góðra félaga en á útmánuðum brast á illvíg deila við skólastjórann sem leiddi til þess að enginn úr okkar bekk hélt áfram námi á Laugarvatni næsta vetur. Sú saga verður ekki rakin hér en ógleymanlegur er sá stuðningur sem þeir Garðar og Eyjólfur veittu mér í þeim sviptingum. Báðir eru þeir nú látnir.

Hinn 7. janúar þennan vetur fórst vélbáturinn Helgi frá Vestmannaeyjum er hann hrakti í aftakaveðri upp á Faxasker, skammt frá innsiglingunni í Vestmannaeyjahöfn. Allir sem þar voru um borð drukknuðu en skipstjóri á Helga var Hallgrímur Júlíusson, einn fræknasti formaður Eyjamanna á þeirri tíð. Hann var kvæntur móður Garðars, Klöru Tryggvadóttur, og hjá þeim hafði drengurinn alist upp. Á þeim dimmu dögum sem í hönd fóru trúði Garðar mér fyrir því að reyndar hefði Hallgrímur ekki aðeins verið fósturfaðir sinn, heldur réttur faðir, þó að aðstæður hefðu valdið því að kallaður væri Sigurðsson. Sumarið áður hafði Garðar verið háseti hjá föður sínum á Helga við síldveiðar fyrir norðan land, þá á 16. ári, og yndi sjómennskunnar gripið hann sterkum tökum.

Vinátta unglinga er annars eðlis en hjá fullorðnum mönnum, nánari en brothættari. Veturinn okkar á Laugarvatni áttum við Garðar margt saman að sælda. Tveir einir fórum við í langar gönguferðir, einn daginn um Laugarvatnsvelli og Gjábakkahraun vestur í Þingvallasveit og fengum okkur flutta til baka í myrkri á jeppa frá Miðfelli. Líklega hefur það svo verið í páskaleyfi sem við gengum niður að Svínavatni og þaðan að Spóastöðum í Biskupstungum þar sem við knúðum dyra og báðumst gistingar. Var okkur vel tekið og næsta dag fengum við okkur flutta á ferju yfir Hvítá hjá Iðu og gengum á Vörðufell í útmánaðabirtu. Að skilja við þennan góða félaga vorið 1950 var mér ekki sársaukalaust en brautir okkar lágu í ólíkar áttir. Ég fór norður, hann suður sem kallað er.

Seinna lágu leiðir saman á ný um nokkurt skeið en þá voru unglingsárin langt að baki og við höfðum báðir harðnað í lífsins skóla. Að loknu stúdentsprófi varð Garðar fljótlega kennari austur á fjörðum og síðan í heimabæ sínum, Vestmannaeyjum. Þar var hann kosinn í bæjarstjórn fyrir Alþýðubandalagið árið 1966 og sat í bæjarstjórninni í þrjú kjörtímabil, allt til ársins 1978. Árið 1971 fór hann í fyrsta sinn í framboð til Alþingis og skipaði þá efsta sæti á framboðslista Alþýðubandalagsins í Suðurlandskjördæmi. Hann vann þá glæsilegan sigur og jók fylgið, enda þótt fráfarandi þingmaður flokksins í kjördæminu hefði ráðið sig í aðra vist og skipaði að því sinni efsta sætið á lista Alþýðuflokksins í sama kjördæmi.

Á Alþingi átti Garðar sæti í 16 ár, frá 1971 til 1987, ætíð þingmaður Alþýðubandalagsins fyrir Suðurland. Á þeim árum áttum við margvísleg samskipti og vorum báðir í sama þingflokki um skeið. Á hinum pólitíska vígvelli kom hann löngum til dyranna eins og hann var klæddur, vígfimur í orðaskylmingum og hreinskiptinn en kunni lítt að fara krókaleiðir því að skapgerð var hann frábitinn undirhyggju og baktjaldamakki. Gat þó verið fylginn sér í þeim málum sem hann lét sig mestu varða og naut þá vinsælda er hann átti að fagna bæði hjá samherjum og pólitískum andstæðingum.

Þó að Garðar kynni bærilega við sig í Alþýðubandalaginu lengi vel var hann í raun lítill flokksmaður og treysti löngum betur á sitt eigið brjóstvit en hugmyndafræðilegar kennisetningar eða einhverja samsuðu sem holl var talin fyrir flokkinn. Fyrir Vestmannaeyjar og fólkið við sjávarsíðuna, vítt um byggðir landsins, var hann góður fulltrúi á Alþingi en veikari á svelli í landbúnaðarmálum og átti þó allmörg atkvæði í uppsveitum.

Þegar Vestmannaeyjagosið hófst í janúar árið 1973 var Garðar bæði bæjarfulltrúi og þingmaður Eyjamanna. Þriðjungur íbúðarhúsa í byggðinni fór undir hraun og annar þriðjungur varð fyrir verulegum skemmdum. Allt athafnalíf var lamað mánuðum saman. Þá reyndi fyrir alvöru á þrek og samstöðu fólksins í Eyjum, ekki síst þeirra sem forystuhlutverk höfðu með höndum. Garðar var þá á besta aldri, rétt tæplega fertugur, og sparaði ekki kraftana. Frá því fyrsta átti hann sæti í stjórn Viðlagasjóðs, sem komið var á fót vegna gossins, og komst með sóma frá þeim miklu og erfiðu verkefnum sem þar varð að sinna.

Við leiðarlok hillir uppi æskubjartar myndir frá löngu liðnum dögum. Með trega og þökk kveð ég kæran vin og votta eftirlifandi eiginkonu hans, Bergþóru Óskarsdóttur, dýpstu virðingu. Nafnið stóra úr Brennu-Njálssögu bar hún með reisn í hinu langa sjúkdómsstríði bónda síns og vék ekki frá þegar logarnir sóttu harðast að. Dætrum Garðars og Bergþóru, börnum hans úr fyrra hjónabandi og öðrum vandamönnum votta ég einlæga samúð á sorgarstund.

Kjartan Ólafsson.

Garðar Sigurðsson, fyrrverandi alþingismaður, er látinn. Með honum er genginn glæsilegur, hæfileikaríkur og traustur vinur. Ég vil minnast hans og umfram allt þakka honum að leiðarlokum með nokkrum frátæklegum orðum.

Við vorum báðir kosnir fyrst á þing árið 1971, næstum jafngamlir svo munar nokkrum dögum, fyrir sinn stjórnmálaflokkinn hvor, sem voru nánast andstæðir pólar í íslenskri pólitík. Aldrei sló þó svo ég muni í brýnu með okkur í ræðustóli Alþingis, kannski vegna þess að við vorum báðir þeirrar skoðunar, að starf alþingismanna fælist ekki í orðaskaki í málfundastíl og auglýsingamennsku, heldur miklu fremur í samviskusamlegri vinnu að lagasmíð og stefnumótun til heilla fyrir land og lýð. Síðan atvikaðist það, að nokkrum árum seinna var okkur falið að "stjórna heiminum", eins og við nefndum verkefni okkar. Við sátum saman Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Þar kynntumst við vel og sér í lagi eiginkonur okkar. Í sendinefndinni með okkur var m.a. Magnús Torfi Ólafsson, sá fjölfróði maður. Í þessum félagsskap naut Garðar sín vel, einstakur húmor, greind og leiftrandi tilsvör hans áttu ríkan þátt í að gera þetta samfélag Íslendinga í New York að einstakri upplifun. Þess má geta að þessa hæfileika nýtti Garðar sér stundum, þegar menn settu á langar ræður á Alþingi. Hann greip þá stundum fram í á svo hnyttinn hátt, að menn urðu jafnvel klumsa við og styttu þá gjarnan mál sitt. Það þótti honum ekki ónýtt og þjóðinni heldur til heilla.

Garðar var í bankaráði Útvegsbankans, þegar ég var kjörinn bankastjóri þar í júní 1984. Í störfum hans í bankaráðinu kynntist ég því hvað hann var óbifanlega trúr þeim málstað, sem hann taldi réttan. Hafskip hf. varð gjaldþrota á árinu 1985. Það hafði lengi verið einn umsvifamesti viðskiptavinur Útvegsbankans. Miklar og hatramar umræður í fjölmiðlum, á Alþingi og meðal almennings urðu vegna þessa gjaldþrots, eins og kunnugt er, þar sem stjórnendum bankans og Hafskips voru ekki vandaðar kveðjurnar. Foringjar stjórnarandstöðunnar gengu fremstir í flokki í þeim ásökunum. Garðar var þá í stjórnarandstöðu, en hann kunni full skil á því sem bankaráðsmaður, hvernig stjórnendur bankans lögðu sig fram í aðdraganda gjaldþrotsins um að bjarga því sem bjargað varð fyrir bankann og félagið. Hann tók einarða afstöðu með stjórnendum bankans og lét enga pólistíska flokksforingja segja sér fyrir verkum gegn sannfæringu sinni. Ég veit að þetta pólitíska átakamál varð í og með til þess, að hann gaf ekki kost á sér í framboð á árinu 1987 og hætti þá þingmennsku. Ég veit einnig, að opinberar ákærur, sem stjórnendur bankans urðu fyrir og langvarandi málaferli, voru Garðari og fjölskyldu hans þung raun, en það var mikill léttir þótt seint væri, þegar bankaráðsmenn og bankastjórar voru afdráttarlaust sýknaðir af ákærum um stórfellda vanrækslu í starfi árið 1990 og taldir í forsendum dómsins þvert á móti hafa unnið björgunarstörf fyrir bankann og Hafskip. Áðurnefnd afstaða kostaði Garðar og hans nánustu miklar fórnir. Það var mikil eldskírn fyrir mann með hans stoltu skapgerð og sómatilfinningu að vera ákærður opinberlega fyrir að vanrækja starf sitt. Garðar hvikaði þó hvergi. Hann var eins og klettur, trúr samvisku sinni og samverkamönnum. Fyrir það uppskar hann virðingu þeirra. Fyrir það verð ég honum ævinlega þakklátur og fyrir það dýpkaði og styrktist vinátta okkar og bróðurhugur.

Það var svo hlutskipti þessa góða drengs síðar á ævinni að veikjast af þeim erfiða sjúkdómi, sem að lokum dró hann til dauða langt um aldur fram. Hann veiktist af Alzheimer. Hann barðist árum saman við þennan sjúkdóm. Kona hans, Bergþóra Óskarsdóttir, sem við köllum Beggu og dætur þeirra stóðu þétt með honum í þeirri baráttu, en svo brá til þess, að hann gat síðustu árin ekki tjáð sig og var algjörlega háður umönnun. Þá dvaldist hann á Landakotsspítala og síðar á Skjóli. Þeir voru fáir dagarnir, sem Begga kom ekki til hans, færandi eitthvað, sem honum þótti gott og til að hagræða honum, veita félagsskap og hressa. Dætur og barnabörn þeirra voru einnig einstaklega dugleg að heimsækja pabba sinn og afa, þó ekki væri til annars en að vera í návist hans. Orð fá ekki lýst hvað það var erfitt að verða vitni að því, hvernig þessi sjúkdómur lagðist á þennan sterka og glæsilega mann. Það var verst fyrir þá, sem unnu honum mest. Það er aðdáunarvert, hvernig alúð og væntumþykja skírast, þegar svo mikið reynir á. Því verður ekki líkt við annað en hetjuskap, í bestu merkingu þess orðs, hvernig Begga stóð við hlið Garðars í stríðinu við þennan ólýsanlega erfiða sjúkdóm. Hún vann oftast fulla vinnu utan heimilis, kom jafnan eftir vinnu og um helgar til Garðars og leit einnig til með öldruðum foreldrum sínum, en faðir hennar dó fyrir nokkrum mánuðum.

Við Rúna þökkum Garðari trygga vináttu og frábæran félagsskap, Beggu, dætrum þeirra og fjölskyldum þökkum við fyrir að fá að kynnast ást þeirra, alúðinni og umhyggjunni til hans og við sendum þeim okkar dýpstu samúðarkveðjur. Við biðjum þess, að okkur verði öllum huggun í því, að nú er Garðar frjáls, laus úr fjötrum átakanlegs sjúkdóms og friður Guðs geymir hann. Blessuð sé minning Garðars Sigurðssonar.

Lárus Jónsson.

Langþráð hvíld er líkn góð og dauðinn getur í raun verið gjöfull gestur. Hann hefur nú lokað brám Garðars félaga míns hinzta sinn eftir erfiða tíð óminnis og veikinda.

Af Garðari hafði ég nokkrar spurnir áður en ég kynntist honum, heyrði af snjöllum leiðtoga Alþýðubandalagsins í Eyjum sem sjálfsagður þætti að skipa efsta sæti þinglista flokksins í Suðurlandskjördæmi, vinsæll og mætur kennari, vaskur sjómaður og málafylgjumaður góður.

Í kosningunum 1971 hlaut Garðar svo ágæta kosningu inn á Alþingi og þar hófust góð og gefandi kynni, þar fór sannmenntaður maður í þess orðs beztu merkingu. Á Alþingi kom fljótt í ljós haldgóð og yfirgripsmikil þekking hans á sjávarútvegsmálum, byggð á ríkri eigin reynslu af sjónum, en einnig hafði hann skýra og skarpa sýn til efnahagsmála og lagði strax margt til mála innan þingflokksins, rökfastur og fylginn sér þegar hann beitti sér. Í rökræðum um þessi mál og önnur á þingfundum var hann oft fljúgandi mælskur, röksemdafærslan með ívafi hnyttninnar og þegar hitnaði í kolum var hann beinskeyttur og lét hvergi eftir sinn hlut, svo oft var af unun góð okkur félögum hans.

Hann var orðheppinn með afbrigðum enda lék íslenzkt mál honum listavel á tungu og mörg gullkorn hans geyma menn enn í minni.

Garðar fylgdist mjög vel með á öllum sviðum þjóðlífsins, en einkum var hann vakandi vel yfir málefnum kjördæmis síns, lét sig þau miklu skipta og átti þar greinilega gnótt góðra vina.

Ég fór nokkrum sinnum með Garðari á fundi og samkomur í kjördæmi hans og minnisstæðastur allfámennur en góður fundur í Njálsbúð þar sem hann fékk mig til að reifa mál í byrjun fundar og svo urðu almennar umræður og enn tók Garðar ekki til máls, en lagði stuttlega orð í belg. Þegar langt var á fundartíma liðið hélt Garðar svo yfirgripsmikla og vandaða ræðu um ástand þjóðmála og sýn til þeirra, hafði ekki orð skrifað en fór vítt um sviðið með skarplegum athugasemdum og ég spurði sjálfan mig í lokin hvers vegna í ósköpunum hann hefði verið að fá mig til fylgdar við sig. Á samkomu í Eyjum varð ég bezt vitni að því hversu hann var tengdur fólkinu þar tryggðaböndum, hann var einn af þeim og virtur vel sem slíkur í vináttu og trausti, trúr leiðtogi um leið.

Okkur varð vel til vina, sjómanninum og sveitamanninum, báðir fengist lengi við kennslu og við áttum þannig áþekka reynslu. Garðar var dulur og ekki allra, en vinhlýja hans og gefandi gamansemi brá jafnan birtu inn í gráma hversdagsins í annasömu starfi. Hann var listfengur og hafði næma tilfinningu fyrir fegurð lita og tóna.

Við áttum ágæta og ánægjulega samleið á þingi um sextán ára skeið, yfirgáfum Alþingi jafnsnemma og alltof fljótt fór svo að skyggja að á ævigöngu Garðars og dapurleg örlög þessa íðilsnjalla og hæfileikaríka drengs að missa smám saman andlegan og líkamlegan þrótt og búa svo hræðilega lengi við óminni, þó enginn viti hvað í annars huga býr.

Lífslán hans þá að eiga slíka öndvegiskonu sem hún Bergþóra er, kærleiksrík alúð hennar og sívökul umhyggjusemi allt til hinztu stundar engu lík. Fórnfýsi hennar og ástúð voru sannir sólargeislar hans á örðugri lífsgöngu.

Klökkum og þakklátum huga kveð ég félaga Garðar, þann mikla mannkostamann og við Hanna sendum Bergþóru og börnum hans okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Minning um mætan dreng lifir í huga okkar sem fengum að eiga með honum samleið. Það er heiðríkja sönn yfir munaljúfri minning hans.

Helgi Seljan.

Frá barnæsku vissi ég hver Garðar Sigurðsson var. Sterk tengsl voru á milli fjölskyldna okkar. Seinni eiginmaður móður hans, Hallgrímur Júlíusson, var skipstjóri á vélskipinu Helga VE 333 í tæpan áratug. Hann fórst með skipi sínu við Faxasker hinn 7. janúar 1950.

Garðar var vinur og félagi eldri bræðra minna og sagði okkur tvíburunum sem vorum langtum yngri ýmsar sögur af uppátækjunum frá stríðsárunum, svo sem eins og því þegar þeir Guðmundur, sá þriðji í röð okkar bræðra, komu sprengiefni fyrir í mjólkurbrúsa, grófu hann í jörð niður, leiddu tundurþráðinn yfir lítinn hól, komu sér þar fyrir og kveiktu í. Það varð jarðskjálfti og grjóti og mold rigndi yfir þá. Svona voru leikir barna í þá daga!

Þegar við tvíburarnir hófum nám við Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja ásamt öðrum jafnöldrum haustið 1965 var Garðar einn af kennurum skólans. Svipaðar sögur fóru af honum og Guðna Guðmundssyni, fyrrum rektor Menntaskólans í Reykjavík. Garðar var hnyttinn í tilsvörum, orðsnjall og býsna orðhvatur ef svo bar undir. Hlífði hann nemendum sínum, þeim sem hann taldi þola slíkt, í engu þegar til rökræðna kom og eru mörg tilsvör hans í minnum höfð. Hann var einnig líkur Guðna að því leyti að þá sem þurfti að styðja studdi hann.

Garðar var einstökum gáfum gæddur. Hann var hafsjór af fróðleik, sögumaður svo af bar og hugmyndaríkur. Ég skildi reyndar aldrei hvers vegna hann hafði dagað uppi sem kennari í gagnfræðaskóla. Við kennslu hans í eðlis- og stærðfræði var svo augljóst að þekking hans á ýmsum sviðum var meiri en svo að hún nýttist til fulls við kennsluna. Hún nýttist okkur hins vegar, nemendum hans, því að hann var óspar á fróðleik við okkur. Á þessum árum var hann að byggja eins og margir, ungir menn í Vestmannaeyjum. Hann teiknaði ekki einungis húsið sjálfur heldur allar lagnirnar. Húsið varð að sumu leyti hluti námsefnisins. Stundum fannst honum við ekki spyrja greindarlega og skorta nokkuð á að við leituðum eftir fróðleiknum á eigin spýtur. Eitt sinn vorum við að læra flatarmálsfræði. Undirritaður rétti þá upp hönd og spurði: "Garðar, hvað er þvermál?" eina svarið sem ég hef fengið við þessari spurningu var þetta: "Arnþór minn, þú ert nú ekki mjög vitlaus en þú spyrð stundum eins og kálfur." Ég fletti síðan upp á kaflanum um þvermál í reikningsbókinni og fékk býsna flókna útskýringu á því hvað þvermál var.

Allt námsefni okkar tvíburanna var á blindraletri á þessum árum sem síðar. Blindrakennari kom öðru hverju úr Reykjavík til Vestmannaeyja að leiðbeina okkur og lesa yfir próf. En brátt fór svo að Garðar lærði svo vel blindraletur að hann varð fluglæs á það. Ef honum þótti okkur ganga illa að finna tiltekinn stað í bókum sagði hann okkur að snúa bókinni að sér og fletta, síðan sagði hann okkur að hætta að fletta þegar rétta síðan var fundin. Garðar taldi reyndar að það tæki hvern "meðalhálfvita" eins og hann orðaði það einungis hálfa kvöldstund að læra letrið. Í landsprófinu las Garðar yfir flestar prófúrlausnir okkar bræðranna.

Á þessum árum hófust afskipti Garðars af stjórnmálum fyrir alvöru og um skeið stýrði hann Eyjablaðinu, málgagni Alþýðubandalagsins í Eyjum. Á útmánuðum 1965 eða 1966 tók ritstjóri annars flokksblaðs, Fylkis, sem sjálfstæðismenn gáfu út, að birta ljóð sín í blaðinu undir nafninu "Örn hins kalda norðurs". Þessar birtingar lögðust fljótlega af þegar Garðar birti ritstjórnargrein um yrkingar hins ritstjórans þar sem hann kvartaði yfir því að nú gengi hann andlegra örna í blaði sínu.

Og síðan komu bæjarstjórnarkosningarnar árið 1966. Það var einhver eftirvænting í loftinu. Við unglingarnir höfðum ekki kosningarétt en fylgdumst grannt með baráttunni. Og Garðar komst í bæjarstjórn. Íhaldsmeirihlutanum var velt úr sessi.

Árið 1971 hófst þingmennskuferill Garðars. Hann var í hópi þeirrar vösku sveitar sem velti viðreisnarstjórninni úr sessi.

Garðar var mikill byltingarmaður og samkvæmur sjálfum sér í skoðunum og gerðum. Ég minnist hans sem afburðakennara og ráðholls manns sem mótaði lífsviðhorf nemenda sinna til góðs.

Bergþóru, konu hans, og börnum þeirra votta ég virðingu mína fyrir umönnun þeirra í erfiðum veikindum Garðars. Megi allar landsins vættir halda verndarhendi sinni yfir þeim og Garðari, hvar sem hann svífur.

Arnþór Helgason.

Garðar Sigurðsson kennari, sjómaður, lengi bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum og þingmaður Alþýðubandalagsins í Suðurlandskjördæmi um 16 ára skeið, er fallinn frá eftir langvarandi veikindi. Honum hvarf smátt og smátt heimurinn þannig að þungbært var upp á að horfa. En Garðar naut þess að eiga góða að, fyrst og síðast eiginkonu sína, Bergþóru, sem með ástúð og umhyggju og ótrúlegu þreki var við hlið hans til hinstu stundar.

Ég minnist þess þegar ég, taugaóstyrkur og reynslulítill, kom til þings vorið 1983 að Garðar tók á móti mér þar ásamt öðrum í þingflokki Alþýðubandalagsins. Kankvís svipurinn og glettnisglampinn í augunum voru einkennandi fyrir hann enda maðurinn einhver sá skemmtilegasti sem ég hef umgengist. Það var hollt mér nýliðanum að umgangast Garðar. Hann hafði af miklum reynslubrunni að miðla, var m.a. helsti talsmaður flokksins á sviði sjávarútvegs- og atvinnumála, rökfastur og sjálfstæður í skoðunum í þeim efnum sem öðrum. Garðar hafði þann mikla kost, enda reyndur kennari, að segja manni hreinskilnislega til en gerði það á þann hátt að enginn þurfti að fyrtast við. "Þið þessir ungu menn sem allt þykist vita," gat hann átt til að segja við mann og svo kom uppfræðslan.

Garðar var þjóðsagnapersóna þegar á árum sínum á Alþingi fyrir hnyttni í tilsvörum og sem afburða sögumaður og eftirherma. Það var ógleymanlegt að fara í fundarferðir með Garðari eða sitja við kommaborðið, sem svo var kallað, í gömlu matstofunni í Alþingi og hlusta á hann og Guðmund J. segja sögur.

Heilsufarið var Garðari mótdrægt um dagana. Hann glímdi við erfið bakveikindi seinni árin sem hann sat á þingi og áttu þau veikindi efalaust mikinn þátt í að hann kaus að hætta þingmennsku á besta aldri. Langt um aldur fram tók hann svo að kenna þeirra veikinda er smátt og smátt gerðu hann óvinnufæran.

Ég kveð Garðar Sigurðsson með eftirsjá og þakklæti í huga og votta eftirlifandi eiginkonu hans, börnum og öðrum aðstandendum samúð mína.

Steingrímur J. Sigfússon.

Um Garðar Sigurðsson verður ekki annað sagt en að hann hafi verið um margt eftirminnilegur þingmaður. En umfram allt annað var hann þó góður samferðamaður. Fundum okkar bar fyrst saman á sameiginlegu orðaþingi frambjóðenda í Suðurlandskjördæmi í aðdraganda kosninga fyrir meir en tveimur áratugum. Á Suðurlandi var ekki hefð fyrir því að menn leiddu saman hesta sína á slíkum samkomum af sama vaskleik og sögur fóru af í sumum öðrum landshlutum. En það fór ekki framhjá nýgræðingi á þeim vettvangi að Garðar Sigurðsson lét þar ekki hlut sinn, og málatilbúnaður hans var með þeim hætti að fundirnir urðu líflegri og litríkari en verið hefði án hans.

Samkvæmt viðteknum pólitískum skilgreiningum vorum við fulltrúar andstæðra fylkinga. Ég minnist þess enn að hann tók fast á móti nýjum ungum frambjóðanda sjálfstæðismanna, sem ætlaði strax í upphafi að gera sig gildandi. Hann vissi mæta vel á hvern veg orðaglíma stjórnmálanna var stigin og hvað til hans friðar heyrði í þeim efnum. En um leið og við stigum niður af ræðupallinum að loknum þessum fyrsta fundi okkar tókust kynni, sem byggðust á heilindum og trausti, sem varði allan þann tíma, er við áttum samleið á alþingi og reyndar lengur. Og í reynd hygg ég að sú gjá hafi aldrei verið á milli okkar í skoðunum, sem nöfn flokka okkar gátu hins vegar gefið til kynna.

Þegar véla þurfti um málefni, er lutu að hagsmunum kjördæmisins komu samstarfseiginleikar hans og hreinskiptni vel í ljós. Þó að leiðir færu ekki saman, eðli máls samkvæmt, milli þeirra sem sátu í ríkisstjórn og hinna, sem voru í stjórnarandstöðu lét hann þann aðstöðumun aldrei finnast þegar taka þurfti sameiginlega á í þágu þess fólks sem valið hafði okkur til setu á alþingi fyrir Sunnlendinga. Í því samstarfi komu mannkostir hans vel í ljós. En vera má að einmitt fyrir þá sök hafi framlag hans ekki alltaf verið metið sem skyldi. Satt best að segja held ég að honum hafi aldrei fundist að hann þyrfti að gera sig góðan í augum annarra. Að því leyti var hann óvenjulegur stjórnmálamaður fyrir nútímann.

Garðar Sigurðsson hafði mjög svo sjálfstæða lund, og mér segir svo hugur um að flokksmönnum hans hafi á stundum þótt nóg um. Ég er ekki viss um að hann hafi hlítt kalli þeirra í einu og öllu. Hann var fyrst og fremst trúr eigin sannfæringu og reyndi að breyta í samræmi við það mál sem hann flutti kjósendum sínum. Mér virtist trúmennska hans fyrst og fremst vera við það umboð, sem kjósendur hans höfðu veitt honum. Þannig kom hann mér fyrir sjónir sem hreinskiptinn og ærlegur stjórnmálamaður. Og þeir eiginleikar einkenndu reyndar öll persónuleg samskipti okkar.

Veikindi Garðars Sigurðssonar hafa um langan tíma lamað kraftana og hvílt eins og skuggi yfir lífi hans. En minningin lýsir upp mynd af gáskafullum, orðheppnum og góðum samþingmanni, sem sérhver sem þess átti kost getur hrósað happi yfir að hafa kynnst.

Á kveðjustundu er þakklætið efst í þeim huga sem sendir héðan frá borginni við Sundið kveðjur til Bergþóru Óskarsdóttur eiginkonu hans og fjölskyldu.

Þorsteinn Pálsson.

Við Garðar tókum sæti á Alþingi samtímis árið 1971. Okkur varð strax vel til vina, þótt fjarlægð milli flokka okkar væri mikil.

Þingmenn ættu jafnan að hafa það hugfast að mikilvægt er í þingstörfum að ná sem beztu samstarfi, og ekki síður við annarra flokka fulltrúa. Að vísu hlýtur meirihluti að ráða úrslitum mála, en hann þarf að taka tillit til skoðana minnihlutans ef úrlausn mála á farsælleg að ráðast. Á það hefir ýmsum þótt skorta hin síðari árin.

Garðar var að vísu í upphafi þingsetu sinnar, og lengst af, mjög eindreginn alþýðubandalagsmaður. Hann var sóknharður, mjög vel máli farinn og á stundum mjög hvassyrtur. Máttu menn úr hans eigin röðum einnig undir því sitja. Var ekki trútt um að einstaka kveinkaði sér undan slíkum ádrepum. En Garðar fór ekki að því, enda réttlætiskennd hans mjög rík og einbeitt hver sem í hlut átti. Í návígi og á nefndarfundum var hann á mjúku nótunum, glaðbeittur og skemmtilegur og kom ár sinni vel fyrir borð. Vann hann með því móti hugðarefnum sínum framgang.

Garðar var ókvalráður að hvaða verki sem hann gekk enda ágæta vel menntaður til hugar og handa.

Garðar Sigurðsson var meðalmaður á hæð, vel limaður og samsvaraði sér vel. Hann var fríður sýnum með fallega framkomu. Hann átti til vestfirzkra að telja í móðurkyn og minnti þann, sem þessar línur hripar, á móðurfrændur hans vestra, sem undirritaður átti að kærum vinum og tengdamönnum.

Garðar átti við langvarandi og grimmúðleg veikindi að stríða mörg síðari æviárin. Hann átti sér við hlið vaska myndarkonu, Bergþóru Óskarsdóttur, ættaða frá Neskaupstað.

Við brottför Garðars Sigurðssonar gengur mikill mannkostamaður og drengur góður fyrir ætternisstapann.

Bergþóru, og öllum afkomendum Garðars, sendum við Greta samúðarkveðjur og biðjum Guð að gefa Garðari raun lofi betri.

Sverrir Hermannsson.

Garðar Sigurðsson, alþingismaður og fyrrverandi kennari minn úr Vestmannaeyjum, er nýlátinn eftir langa rökkvun; áratuga glímu við hægfara heilabilun. Hann stendur mér enn ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, skarpt augnaráðið og glettnin í kennslunni sem alltaf virtist veita honum mikla ánægju.

Hann kenndi okkur eðlisfræði. Í Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja, sem gnæfði hátt yfir bænum, við rætur Helgafells. Hann var einn besti kennari sem ég kynntist á langri skólagöngu. Garðar var duglegur við að nýta kennslubúnað sem þá var nokkuð góður í vel búnum gagnfræðaskóla og tók ótal dæmi úr daglega lífinu í kennslunni; bíll í beygju gaf honum tilefni til þess að tala um hröðun, spennur og krafta og auðvitað krydda allt með sögum um einhverja ökuþóra sem fóru langt fram úr lögum og reglum. Hann hafði lagt stund á verkfræðinám í háskóla og naut þess örugglega í kennslunni.

Á landsprófi í Eyjum vorið 1969 gerðist sá sjaldgæfi atburður að hæsta einkunn í eðlisfræði á landinu, einkunnin 10, reyndist vera úr hópnum okkar! Garðar var að vonum ánægður, en sagði okkur nokkrum dögum eftir prófið, sem auðvitað kom allt í ábyrgðarpósti úr Reykjavík, að "þeir fyrir sunnan" hefðu undrast það að svona frábær frammistaða kæmi úr Vestmannaeyjum. Þeir hefðu hringt sérstaklega til að spyrja nákvæmlega um fyrirkomulag prófsins, vormorguninn í Eyjum þegar það var tekið úr ábyrgðarbréfinu og þreytt af tveimur tugum nemenda. Ég man að hann sagði við okkur hlæjandi með biblíusvip: "getur svona góð prófúrlausn komið frá Nazaret!"

Garðar var alveg æfur út af þessari afskiptasemi. Hún hrærði við sterkri réttlætistilfinningu. Hann var ósáttur við margt í þjóðfélaginu, róttækur á sinn hátt, eldrauður að austan. Þó hélt hann alltaf aðskildu skólastarfinu og stjórnmálunum og rækti starf sitt af sérstakri prýði. Skömmu eftir landsprófsveturinn var hann kjörinn á þing og ég fylgdist með honum þar úr fjarlægð. Nokkru sinni hittumst við á förnum vegi og alltaf minntumst við kennslustundanna fyrir innan Ægisdyr með gagnkvæmri ánægju. En auðvitað var ljóst hvert stefndi með heilsu hans.

Ég vil minnast Garðars sem eins af þeim einstaklingum sem bæta mannlífið og gæði þess. Slíkir afburðamenn eru perlur í litlu sjávarplássi og glæða það einhverjum alþjóðleika. Kennarar eins og Garðar gerðu það að verkum að skólagæði á landsbyggðinni voru síst minni á mörgum sviðum en tíðkaðist í bestu skólum höfuðborgarinnar. Nemendurnir finna það þegar seinna líður á námsferilinn hérlendis eða erlendis.

Ég verð því miður erlendis þegar útför Garðars er ráðgerð. Ég þakka Garðari að leiðarlokum fyrir raunvísindanestið, innrætinguna góðu, sem hefur reynst mér vel ætíð síðan. Um leið votta ég Bergþóru, eftirlifandi konu hans - og klettinum þegar húmaði svo hægt í lífi hans - samúð og aðdáun.

Þorsteinn Ingi Sigfússon.

Fyrir rúmum 30 árum fluttum við hjónin í háhýsi við Kleppsveg. Þar kynntumst við fljótlega þeim Garðari og Bergþóru og tókst góð vinátta með fjölskyldum okkar. Þau hjón voru höfðingjar og töldu ekki eftir sér að leggja fólki lið, nutum við þess ríkulega. Þá var skammt liðið frá upphafi Vestmannaeyjagossins. Á þessum tíma var mikið um að vera hjá þeim hjónum, Garðar þingmaður í Suðurlandskjördæmi til tveggja ára og mikill og stöðugur gestagangur fyrstu mánuðina eftir gos auk þess sem fjöldi manns gisti á heimili þeirra. Árið 1974 áttum við svo ánægjulega heimsókn til þeirra hjóna í Vestmannaeyjum.

Garðar var meðalmaður á hæð, samsvaraði sér vel, laglegur, brúneygður með leiftrandi og hvasst augnaráð. Hann var skarpur maður og ákveðinn en hafði hógværa framkomu svo jaðraði við feimni. Hann gat verið snöggur upp á lagið, tilsvör hans voru hnyttin og eftirminnileg. Hann var öfgalaus í skoðunum og pólitísk kredda var honum víðs fjarri. Garðar var góður bridgespilari og um árabil spiluðum við vikulega saman. Við spilaborðið komu margir eiginleikar hans skýrt fram. Hann hafði vald á fleiri sagnkerfum en við hinir en miklaðist ekki af. Við úrspil tók hann sér skamman umhugsunarfrest í upphafi og spilaði síðan hratt og örugglega úr, eins og spilið lægi opið fyrir honum, ekkert kæmi á óvart. Garðar átti auðvelt með að greina kjarna hvers máls og eins og slíkum mönnum er títt hafði hann næmt auga fyrir veikleikum sem og hinu spaugilega í fari samferðamanna sinna og hermdi skemmtilega eftir. Húmor var svo ríkur þáttur í fari hans að jafnvel eftir að veikindin tóku að há honum gat hann lengi gert hnyttnar athugasemdir sem urðu til á líðandi stund og sýndu viðvarandi frumleika í hugsun.

Þegar Garðari varð sjúkdómsgreiningin ljós las hann sér til og ræddi við mig sjúkdóminn og óhjákvæmileg örlög sín af undraverðu innsæi og æðruleysi sem seint gleymist.

Við hjónin og fjölskylda okkar sendum Bergþóru og börnunum einlægar samúðarkveðjur.

Lúðvík og Hildur.

Forlög koma ofan að,

örlög kringum sveima,

álög úr ýmsum stað

en ólög fæðast heima.

(Páll Vídalín.)

Þessi orð eru úr bók sem ég á og mér finnst þessi orð eiga erindi til Garðars Sigurðssonar vinar míns.

Ég man það svo vel þegar Garðar flutti ásamt sínu fólki að Hásteinum 7, ég átti þá heima á nr. 6 (Kiðjabergi). Ein stelpa var í hópnum og tveir guttar. Elstur er Tryggvi, Addý önnur og yngstur Garðar og hann var jafngamall mér. Þessi systkin urðu góðir vinir mínir. Hann Garðar var frekur en þó ljúfur, hann gat verið inni hjá mér í dúkkuleik ef ég kom út í bílaleik og það gerðum við oft.

Ég man eins og gerst hafi í gær þegar hann Garðar skyrpti á stéttina heima hjá mér. Að hann skyldi bara voga sér það þoldi ég alls ekki, mér þótti þetta of mikið svo ég kýldi hann, sem sagt gaf honum einn á kjammann svo það fossblæddi úr vörinni á honum. Mæður okkar voru búnar að vera að hlusta á rifrildið í okkur og mamma mín sagði "ja ef þessir krakkar verða ekki hjón er ég illa svikin".

Svo þegar í gaggó var komið var haldið grímuball um haustið þegar við vorum í fyrsta bekk og mér fannst alveg sjálfsagt að gera konu úr Garðari. Ég réð því og ég sá um það líka.

Heima hjá mér voru til tvær þykkar fléttur af mömmu (hár) og þær voru auðvitað settar á höfuðið á kauða, svo var Garðar klæddur í hvíta síða fermingarkjólinn minn og háhælaða skó og til að ekki sæist hvernig við festum flétturnar á höfuðið á G þá var settur á hann hattur. Og ég verð að segja það satt, hann Garðar var reglulega sæt stelpa. Þegar líða tók á ballið var mér skemmt því einn kennarinn var farinn að halda heldur fast utan um G strák og Garðari leist nú ekki alltof vel á það, hann kom til mín um leið og hann komst (sem sagt losnaði) og vildi fara heim, svo við drusluðumst heim.

Ég átti ætíð eitthvað í þessum strák G. Alltaf ef við hittumst var ég knúsuð og föðmuð. En síðast þegar við hittumst þá var ekkert gaman. Þá faðmaði ég hann en hann horfði með skelfingarsvip á Beggu konuna sína og spurði: "Hvaða kerling er þetta?" Honum leist hreint ekkert á þetta.

Margar minningar gæti ég skrifað en það yrði nú sennilega bók fyrir rest. Ég bið góðan Guð að veita þér Garðar minn náð og blessun og eiginkonu og börnum bið ég þess sama, af öllu hjarta.

Þín æskuvinkona,

Guðrún Andersen,

Seyðisfirði.