Laufey Sigurrós Ásgeirsdóttir fæddist í Reykjavík 10. apríl 1918. Hún lést á Landakotsspítala 20. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Þórunn Þorsteinsdóttir úr Hafnarfirði, f. 20.8. 1882, d. 20.10. 1935, og Ásgeir Ásmundsson frá Stóra-Seli í Reykjavík, f. 4.9. 1883, d. 8.1. 1960. Alsystkini Laufeyjar eru Ásmundur Kristinn skákmeistari, f. 1906, d. 1986, Ástvaldur Helgi, f. 1908, d. 1980, Gunnar Aðalsteinn, f. 1909, d. 1980, Guðrún, f. 1910, d. 1923, Þórarinn er fórst á stríðsárunum, Guðlaugur Adólf, f. 1915, d. 1958, Borghildur, f. 6. júní 1919, auk tveggja Bryndísa er létust ungar. Hálfsystir Laufeyjar sammæðra er Guðrún Welding, f. 25. apríl 1928.

Fyrsti eiginmaður Laufeyjar var Frank Cassata, heildsali í Reykjavík, f. 1911, annar eiginmaður hennar var Björn Guðmundsson kennari, f. 1917, d. 1976. Síðar giftist Laufey Ólafi Th. Ólafssyni vélstjóra, f. 1922, d. 1989.

Útför Laufeyjar verður gerð frá Fossvogskapellu í dag og hefst athöfnin klukkan 14.30.

Laufey móðursystir mín hefur nú lokið ferð sinni hér á jörð. Hún fæddist hinn 10. apríl 1918, næstyngsta barn hjónanna Þórunnar Þorsteinsdóttur og Ásgeirs Ásmundssonar frá Stóra-Seli. Þau voru 10 alsystkinin, en nú er móðir mín, Borghildur Ásgeirsdóttir, sú yngsta í hópnum orðin ein eftir, auk hálfsystur sinnar, Guðrúnar Welding, er býr í Noregi. Móðir mín biður Guð að blessa systur sína og veit að hún fær góðar móttökur á himnum hjá Þórunni ömmu minni og Ásgeiri afa, og að það verða fagnaðarfundir hjá þeim Óla þegar þau nú hittast á ný.

Margar minningar um þessa stórbrotnu konu þyrlast upp í huga mér. Það var aldrei nein lognmolla í kringum hana frænku mína. Hún var dugnaðarforkur, klæðskeri góður sem aldrei féll verk úr hendi. Fyrstu minningar mínar af henni eru þar sem hún situr innan um hlaða af herrahálsbindum sem hún var að sauma. Hún útskýrði fyrir mér hve vandasamt verk er að sníða og sauma falleg herrabindi, ekkert má út af bregða, öll spor hnífjöfn, og hálsbindin í Harrods komast ekki í hálfkvisti við handbragð hennar.

Hún var glæsileg kona og smekkvís, mikill fagurkeri og heimili hennar líktist listasafni þar sem hverjum hlut var vandlega valinn staður og vel hugsað um þá. Hún var mjög hæfileikarík og allt lék í höndunum á henni. Úti á stóru svölunum ræktaði hún fagrar rósir sem lifðu af harða veðráttu enda pakkað inn í steinull á veturna, og á sumrin framreiddi hún rjómapönnukökur og kaffi á sólardögum í suðræna garðinum sínum á 8. hæð.

Hún spilaði á píanó og orgel, og alltaf var hún að læra eitthvað nýtt, enda góðum gáfum gædd. Eftir langan vinnudag sótti hún kvöldskóla í öllu milli himins og jarðar, og símenntun var ekki nýyrði í hennar huga. Hún talaði ensku og dönsku lýtalaust, og fannst því sjálfsagt að eyða nokkrum árum í að læra íslensku til hlítar, sat oft við sauma á kvöldin með málfræðibækurnar opnar sér við hlið til þess að nota heilann á meðan hendurnar voru að sýsla. Á efri árum eftir að hún varð ekkja fór hún að sækja einkatíma í þýsku, og var svo allt í einu horfin til Þýskalands á sumarnámskeið, þar sem hún stundaði skóla 8 tíma á dag, og fór svo út að skemmta sér á kvöldin með unga fólkinu í skólanum þótt hún væri hátt á áttræðisaldri, enda undi hún hag sínum best innan um ungt fólk, henni fannst eldra fólk eitthvað svo gamaldags í hugsun og það þótt það væri meira en 20 árum yngra en hún.

Fyrsti eiginmaður Laufeyjar var Frank Cassata, og fluttist hún með honum til New York þar sem þau bjuggu í rúm 5 ár. Þar starfaði hún á saumastofu Sak's á 5th Avenue og sagði mér ungri margar sögur af kvikmyndastjörnum sem lögðu leið sína í það fræga verslunarhús. Þau skildu og Laufey fluttist heim til Íslands aftur. Annar eiginmaður hennar var Björn Guðmundsson kennari. Hún var með í för þegar hann fór til framhaldsnáms í Danmörku og þar bætti hún við sig menntun í klæðskerasaumi. Það var því ævintýraljómi sem umlukti þessa víðförlu heimskonu í augum okkar ungra barna systur hennar.

Síðar giftist Laufey Ólafi Th. Ólafssyni vélstjóra. Hjónaband þeirra var farsælt og hamingjuríkt. Síðustu ár sín átti Óli við erfið veikindi að stríða og hjúkraði Laufey honum af natni og umhyggjusemi þar til hann lést árið 1989. Þau voru tíðir gestir hjá mér, en eftir lát Óla eyddi hún ásamt móður minni, öllum jólum, páskum og öðrum stórhátíðum á heimili mínu, alveg fram á síðustu ár að hún treysti sér ekki til þess lengur.

Við fórum líka saman í löng ferðalög um landið í sumarfríum mínum, og hlógu þá systurnar mikið, stundum var Ásta "frænka" , með í för en hún er ekkja Helga bróður þeirra. Ekki var hlegið minna í þeim ferðum. Einnig fórum við tvisvar sinnum í mánaðarferðir til Englands að sumarlagi, heimsóttum fagrar sveitir þess lands, kastala, krár, skrúðgarða og strendur.

Eftir að Laufey festi kaup á litlu hjólhýsi á Laugarvatni voru ófáar ferðirnar þangað, oft skutlaði ég henni uppeftir og sótti svo nokkrum dögum seinna þegar hún var búin að fá nóg í bili og var farið að langa í bæinn aftur. Svo var skroppið á Hótel Örk í afslöppun á milli, og einn daginn hringdi hún frá Írlandi, hafði þá dottið í hug að gaman væri að skoða sig um þar áður en hún færi á betri stað.

Og nú er hún komin á þann góða stað, í faðm þeirra sem henni þótti vænst um, blessuð sé minning hennar.

Við móðir mín þökkum bróðursyni hennar, Kristþóri Borg Helgasyni, fyrir þá miklu umhyggju og hjálpsemi sem hann sýndi henni síðustu árin.

Gunnhildur Gunnarsdóttir.

Laufey föðursystir okkar hefði orðið 86 ára hinn 10. apríl nk. hefði hún lifað. Okkur langar að þakka henni samfylgdina með nokkrum kveðjuorðum.

Við minnumst hennar sem fallegrar, fágaðrar konu, sem sveipuð var dálítilli dulúð, en máltækið segir: ,,Djúp vötn hafa minnstan gný".

Hún bar ekki tilfinningar sínar á torg og var ekki margorð um eigin líðan. Henni lét betur að tjá sig í verki.

Eitt sinn kom hún færandi hendi með myndir af ömmum, öfum og fleiri skyldmennum í fallegum römmum, í farteskinu, eins og til þess að minna okkur á að rækta frændgarðinn og gleyma ekki þeim sem á undan eru gengnir. Hún valdi einatt allar gjafir af alúð og kostgæfni. Á góðri stundu átti hún það til að segja okkur frá bernskuárum sínum og systkinanna, einkum þótti okkur vænt um þegar hún sagði okkur frá Þórunni ömmu okkar sem lést áður en við fæddumst. Meðal annars að hún hefði unnið sér það til ágætis að syngja inn á litla hljómplötu árið 1934, að eigin frumkvæði, og senda syni sínum út á land sem brúðkaupskveðju.

Þegar Laufey var ung stúlka var ekki algengt að stúlkur gengju menntaveginn. Annars vegar var tíðarandinn sá og hins vegar réð þröngur efnahagur þar um. Á fullorðinsárum reyndi hún að bæta sér það upp með ýmsum hætti og lagði sig fram um að sækja sér margvíslega menntun. Hún lærði á hljóðfæri, stundaði tungumálanám o.m.fl. Hún var mikil hannyrðakona og var það snjöll að sauma að hún saumaði bæði kápur og kjóla á sjálfa sig og aðra. Einu sinni kom hún og færði börnum okkar stóra jólasveina sem hún hafði teiknað og saumað, þeim til ómældrar ánægju. Eins eigum við frænkurnar gamlar brúður sem hún sendi okkur frá útlöndum þegar við vorum litlar sem við gætum vel.

Fyrir nokkrum árum, þá komin vel á áttræðisaldur, dreif hún sig á þýskunámskeið í Þýskalandi og slóst þar í för með ungmennum frá ýmsum löndum, sótti með þeim kaffihús og ýmsa menningarviðburði. Lýsir það henni betur en mörg orð.

Að leiðarlokum stendur okkur fyrir hugskotssjónum, gáfuð kona sem ekki fór varhluta af mótlæti lífsins, en sýndi ótrúlega seiglu og dugnað við að takast á við það. Henni varð ekki barna auðið en við frænkur hennar munum varðveita minninguna um hana og miðla henni til barna okkar, að hennar fordæmi.

Blessuð sé minning hennar.

Halla, Hildur og Bryndís.