Hannes Ágúst Hjartarson fæddist á Stóru-Þúfu í Miklaholtshreppi hinn 8. júní 1924. Hann andaðist á Sjúkrahúsi Akraness 2. mars síðastliðinn og var útför hans gerð frá Akraneskirkju 9. mars.

Í formála minningargreina um Hannes Ágúst, sem birtust í Morgunblaðinu 9. mars var rangt farið með fæðingarár Þorgerðar Bergsdóttur, eiginkonu hans, sem fæddist 24. maí 1928, og föðurnafn föður hans, Hjartar Líndals, sem var Hannesson.

Hann afi var svo sannarlega einstakur maður. Hann gaf okkur svo ótrúlega margt. Hann sagði oft við okkur barnabörnin að hann væri ofboðslega ríkur maður og man ég eftir því að við vorum vön að fara og leita að fjarsjóði hans um allt hús hjá honum og ömmu. Það var ekki fyrr en maður fór að eldast að maður áttaði sig á hvað hann átti við.

Afi minn var mikið glæsimenni og leit alltaf svo vel út og ef það er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma þá er það hans stolta bros sem aldrei vantaði. Fjölskyldan skipti hann mestu máli . Ekkert gladdi hann jafn mikið og að vera meðal þeirra sem hann elskaði.

Ég hef verið mjög lánsöm að fá að kynnast honum afa mínum og mun ég aldrei gleyma öllum þeim yndislegum minningum sem ég á um hann. Þegar við spiluðum á spil, gengum Langasandinn og gerðum báta. Nú er víst komið að litla bróður mínum að fá að kynnast okkar yndislega afa. Takk fyrir allt, afi minn.

Guð blessi elsku ömmu og fjölskylduna á þessum tíma. Megi minningarnar um hann ylja okkur.

Þín bátakona

Lára.