Guðjón Ingimundarson kennari fæddist á Svanshóli í Kaldrananeshreppi í Strandasýslu 12. janúar 1915. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítala - háskólasjúkrahúss Fossvogi 15. mars síðastliðinn. Foreldrar Guðjóns voru Ingimundur Jónsson bóndi á Svanshóli, f. 15.7. 1868, d. 21.3. 1924, og kona hans Ólöf Ingimundardóttir, f. 28.4. 1877, d. 11.2. 1952. Guðjón var fjórði í röð sjö systkina er upp komust, þau voru: 1) Fríða, húsmóðir á Klúku í Bjarnarfirði, f. 22.11. 1908, d. 1.6. 1983, gift Sigurði Arngrímssyni bónda á Klúku; 2) Ingimundur bóndi á Svanshóli, f. 30.3. 1911, d. 22.6. 2000, kvæntur Ingibjörgu Sigvaldadóttur; 3) Sína Vilhelmína Svanborg húsmóðir í Goðdal, f. 19.7. 1913, d. 12.12. 1948, gift Jóhanni Kristmundssyni; 4) Guðjón, sem hér er kvaddur; 5) Sigríður, f. 8.12. 1917, d. 25.1. 1986, var búsett á Akureyri; 6) Arngrímur Jóhann bóndi í Odda í Bjarnarfirði, f. 25.7. 1920, d. 9.3. 1985, kvæntur Þórdísi Loftsdóttur; og 7) Sína Karólína, f. 29.8. 1923, d. 24.4. 1977, var búsett á Akureyri.

Guðjón kvæntist 27.5. 1944 Ingibjörgu Kristjánsdóttur, f. 11.9. 1922. Foreldrar hennar voru Kristján Árnason bóndi á Krithóli í Skagafirði og kona hans Ingibjörg Jóhannsdóttir. Fósturforeldrar Ingibjargar voru Sigurður Þórðarson alþingismaður og kaupfélagsstjóri frá Nautabúi í Skagafirði og kona hans Ingibjörg Sigfúsdóttir frá Mælifelli í Skagafirði.

Guðjón og Ingibjörg eignuðust sjö börn, þau eru: 1) Sigurbjörg, deildarstjóri í Árskóla á Sauðárkróki, f. 30.3. 1945, gift Jóni Sigurðssyni bifreiðastjóra og loðdýrabónda og eru börn þeirra: a) Hjördís kennari í Hvaleyrarskóla, sambýlismaður Hjörtur P. Jónsson framkvstjóri Iðnvéla í Hafnarfirði, dóttir þeirra er Snædís Ósk. Börn Hjördísar frá fyrra hjónabandi eru Andrea og Gísli Þráinn. b) Brynja Dröfn hjúkrunarfræðingur LSH, sambýlismaður Friðrik Örn Haraldsson grafískur hönnuður, sonur þeirra Haraldur Jón. c) Sigurður Guðjón nemi í THÍ. 2) Birgir, læknir í Heilsugæslustöðinni í Mjódd, f. 21.5. 1948, kvæntur Soffíu Svövu Daníelsdóttur ritara og eru börn þeirra: a) Bryndís Eva dr. í næringarfræði, sambýlismaður Tómas Orri Ragnarsson viðskiptafræðingur hjá utanríkisráðuneytinu, dóttir þeirra Theodóra, b) Hákon Örn lífefnafræðingur, sambýliskona Lilja Rún Sigurðardóttir lögfræðinemi og c) Dagmar Ingibjörg nemi í HÍ. 3) Svanborg, móttökugjaldkeri við Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki, f. 20.1. 1950, gift Sigurjóni Gestssyni starfsmanni Sundlaugar Sauðárkróks og eru börn þeirra: a) Ingibjörg Rósa garðyrkjufræðingur, sambýlismaður Hjalti Árnason lögfræðingur hjá Byggðastofnun, dóttir þeirra Hallgerður Erla, dóttir Hjalta frá fyrra sambandi er Hrafnhildur Olga. b) Gestur nemi í KHÍ. 4) Ingimundur Kristján tannlæknir á Sauðárkróki, f. 25.2. 1958, kvæntur Agnesi Huldu Agnarsdóttur hjúkrunarfræðingi og eru börn þeirra: a) Lilja nemi í HÍ, sambýlismaður Rafn Sigurðsson aðstoðarverslunarstjóri, dóttir þeirra Rebekka Mirjam, b) Sunna stúdent frá FNV, sambýlismaður Þorsteinn Lárus Vigfússon trésmíðanemi, c) Arna, d) Guðjón, og e) Agnar Ingi. 5) Ingibjörg Ólöf, starfsmaður KB banka á Sauðárkróki, f. 14.10. 1960, sambýlismaður Björn Sigurðsson iðnverkamaður og eru börn þeirra: a) Sigurður Arnar nemi í KHÍ, sambýliskona Karítas Sigurbjörg Björnsdóttir iðnnemi, b) Þorgerður Eva nemi, og c) Aron Már. 6) Sigurður verkfræðingur hjá Fjarhitun hf. í Reykjavík, f. 14.10. 1960, kvæntur Steinunni Sigurþórsdóttur sérkennara og eru synir þeirra Örn og Þorgeir. 7) Hrönn leikskólakennari við Furukot á Sauðárkróki, f. 16.8. 1963, sambýlismaður Sigurður Örn Ólafsson rafvirki, dóttir þeirra er Harpa.

Guðjón lauk prófi frá Héraðsskólanum í Reykholti 1934, íþróttakennaraprófi frá Laugarvatni 1937 og smíðakennaraprófi frá Handíðaskólanum í Reykjavík 1944. Hann stundaði nám í teiknikennaradeild seinni hluta vetrar 1948 og sótti ýmis endurmenntunarnámskeið varðandi sund-, handavinnu- og íþróttakennslu. Guðjón var kennari við Héraðsskólann á Laugarvatni 1937-1941. Hann flutti til Sauðárkróks 1941 og bjó þar til dauðadags.

Guðjón var kennari við skólana á Sauðárkróki 1941-1974 og sundkennari á vornámskeiðum í Varmahlíð 1940-1956. Guðjón var forstjóri Sundlaugar Sauðárkróks og sundkennari 1957-1986. Hann hafði umsjón með Námsflokkum Sauðárkróks 1974-1979 og kenndi á ýmsum námskeiðum. Alla sína ævi tók Guðjón mikinn þátt í félagsmálum, m.a. var hann bæjarfulltrúi á Sauðárkróki fyrir Framsóknarflokkinn 1950-1974 og forseti bæjarstjórnar 1966-1970. Hann var formaður íþróttanefndar Sauðárkróks 1946-1978, í skólanefnd um árabil og formaður hennar 1974-1978, í fræðsluráði Norðurlands vestra 1974-1978, í stjórn Fiskivers Sauðárkróks hf. frá stofnun 1957 og Skagfirðings hf. frá 1959 þar til þau félög hættu störfum.

Guðjón sat í stjórn Framsóknarfélags Sauðárkróks um langt árabil, var endurskoðandi Kaupfélags Skagfirðinga til fjölda ára, í stjórn Menningarsjóðs KS í mörg ár og formaður fræðuslunefndar þess um skeið.

Íþrótta- og ungmennafélagsmál áttu hug hans allan og beitti hann sér mjög fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja og skóla á Sauðárkróki. Hann var í stjórn Ungmennasambands Skagafjarðar 1942-1973 og þar af formaður í 29 ár. Formaður Ungmennafélagsins Tindastóls í fimm ár og í stjórn alls níu ár. Hann var varaformaður Ungmennafélags Íslands 1965-1983 og í sambandsráði Íþróttasambands Íslands um árabil. Guðjón hlaut riddarakross fálkaorðunnar fyrir störf að félagsmálum 1984. Hann var heiðursfélagi Sundfélagsins Grettis á Ströndum, Ungmennasambands Skagafjarðar, Ungmennafélagsins Tindastóls, Íþróttasambands Íslands, Ungmennafélags Íslands og Rotaryklúbbs Sauðárkróks.

Útför Guðjóns fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Í nokkrum orðum viljum við þakka föður okkar og eiginmanni samfylgdina, sem hefur verið okkur og okkar nánustu ómetanleg. Þessi samfylgd hefur mótað okkur sem persónur og þátttakendur í þjóðfélaginu. Í uppeldi barnanna voru allar reglur skýrar en sanngirnin og skilningurinn á viðhorfum æskunnar skein í gegn. Hann hafði mikla ánægju af lífinu, trúði á hið góða og taldi að samstaða og samvinna væri leið til lausnar á flestum vanda. Ávallt er leiðbeiningar voru gefnar var það gert án allra fordóma og af þeirri hógværð og réttsýni sem voru svo sterkur þáttur í samskiptum hans. Hann var alltaf hvetjandi og studdi þær ákvarðanir sem teknar voru um framtíðaráform og var óþreytandi við að sannfæra um að allir góðir hlutir væru framkvæmanlegir, en það þyrfti að vinna að þeim.

Lífshlaup hans mótaðist einmitt af þessari þrautseigju, reglusemi, heiðarleik og vinnusemi, sem hann hafði með sér frá æskuheimilinu í Bjarnarfirði á Ströndum. Þessi gildi koma vel fram í ljóði, eftir eldri bróður hans, Ingimund Ingimundarson á Svanshóli, ortu í tilefni ættarmóts.

Ef stofninn er traustur og greinanna gerð

af þeim gæðum er prýða hvern meið

og rótin er djúpstæð og reklanna mergð

full af lífsmætti, - þá er hún greið

þessi braut, sem að öllum svo ásköpuð er

til að auka við framtíðarsvið.

Án samstöðu verður að baki hver ber,

og bugast hið hraustasta lið.

Látum gleðina ríkja og þann gróandi mátt

er göfgast við samskipti öll,

allar áhyggjur víkja, sem annars þú átt

og örla við svartnættisfjöll.

Veitum ljósi og yl inn í sérhverja sál.

Verum sáttfús og vansælum góð.

Með fögnuði styðjum hvert framfaramál

og farsæld hjá íslenskri þjóð.

Með innilegri þökk fyrir samfylgdina.

Eiginkona og börn.

Það dofnaði yfir, það dvínaði allt

þá dánarfregn heyrðum við þína.

Það virtist um Bæinn þinn verða svo kalt

að vilji til starfs myndi dvína.

(Sighvatur Torfason.)

Eitt er óumflýjanlegt í lífi okkar á þessari jörð, það er dauðinn. Hvenær hann ber að er eitthvað sem enginn veit og aðstandendum finnst aldrei tímabært. Af hverju nú, af hverju ekki einhvern tímann síðar? En svona er þetta líf.

Þannig finnst mér um Guðjón, tengdaföður minn. Þó aldurinn væri orðinn hár og líkaminn farinn að gefa sig, þá var andinn, hugsunin og áhuginn á viðfangsefnum dagsins óbilandi, eins og hann hafði verið alla tíð. Þegar kallið kom var hann í rauninni í miðju verkefni við að fá flutt norður ný sæti, sem hann ætlaði að gefa Sundlaug Sauðárkróks fyrir væntanlegt landsmót í sumar.

Fyrstu kynni mín af Guðjóni voru fyrir rúmum 40 árum þegar ég var í Gagnfræðaskóla Sauðárkróks og hann var kennari þar. Síðar kom ég inn í fjölskyldu hans, er ég giftist Sigurbjörgu elstu dóttur hans og hafa þessi kynni verið á einn veg. Þar hefur aldrei borið skugga á. Góð ráð, hvatning og hjálpsemi við okkur hjón á frumbýlingsárum okkar og alla tíð, verður seint full þökkuð.

Þegar maður sest niður og lætur hugann reika um samferð okkar í gegnum lífið, koma upp óteljandi skemmtilegar minningar úr fjölskyldulífinu, úr ferðalögum, eða bara úr samræðum yfir eldhúsborðið á Bárustígnum, svo eitthvað sé nefnt.

Einkenni Guðjóns var hlýtt og glaðvært viðmót, hann hafði skipulag á hlutunum, var með vel tamið Strandamannaskap, áræðinn og fylginn sér ef svo bar við, en ávallt sanngjarn.

Hann var mikill gæfumaður, þegar hann náði í hana Boggu sína og það leyndi sér ekki hvað hann mat hana mikils og hversu samheldin og samstiga þau voru alla tíð.

Hann fylgdist með hvernig gekk hjá fjölskyldum barna sinna, hvatti barnabörnin til að mennta sig og gaf þeim góð ráð á leiðinni út í lífið.

Hann spurði iðulega hvernig gengi í vegavinnunni þar sem minn flokkur var að vinna, núna síðast á Þverárfjalli og ,,Hvernig gengur svo með kvikindin?", og átti þá við loðdýrabúið.

Hann var með hugann við bæjarmálin, framkvæmdir í bænum, landsmálapólitíkina eða heimsmálin. Hann var alls staðar heima, þótt árin væru orðin áttatíu og níu.

Því létt var þitt fas, og þín lund var svo sterk

og löngun til starfa að njóta.

Og finna má allsstaðar framfaraverk

sem fékkstu að styðja og móta.

Þau sagan mun geyma og segja þeim frá

sem vitar í framtíð þau lýsi.

Og ókomnum niðjum með athafnaþrá

til árangurs götuna vísi.

(Sighvatur Torfason.)

Þannig var Guðjón. Hann hafði gaman af ferðalögum og ógleymanleg er ferð okkar hjóna með Boggu og Guðjóni um Norðurlöndin og Rússland árið 1985 . Þá var slegið á létta strengi á kvöldin í spjalli og vangaveltum. Síðasta ferð okkar var fyrir hálfu öðru ári, er við fórum ásamt fleirum á Kjöl að skoða Beinahól, þar sem Reynistaðabræður urðu úti 1780.

Guðjón var mikill félagsmálamaður og baráttumaður fyrir bættu mannlífi í sinni heimabyggð. Ég ætla ekki að tíunda allt það starf, sem hann áorkaði hér á Sauðárkróki, það eru aðrir færari um að gera það. En ég vil þó nefna baráttu hans fyrir uppbyggingu á íþrótta- og skólamannvirkjum og starf hans að málefnum ungmennafélagana. Þar vann hann mikið og óeigingjarnt starf.

Guðjón var alinn upp í Bjarnarfirði á Ströndum, missti föður sinn aðeins níu ára en barðist sjálfur til mennta og fór í Reykholtsskóla í Borgarfirði 17 ára. Ferðasjóðurinn var ekki stór og þurfti að endast út veturinn, sem og hann gerði. Til heimferðar um vorið voru aðeins eftir nokkrar krónur, sem nægðu til að greiða fargjald með mjólkurbílnum að Varmalandi, eftir það tóku við tveir jafnfljótir. Gekk hann í áföngum heim, gegnum Dali, yfir Tröllatunguheiði, var ferjaður yfir Steingrímsfjörð og gekk síðast yfir Bjarnarfjarðarháls og heim að Svanshóli.

Þessir erfiðleikar hafa örugglega mótað hann og gert hann að baráttumanni fyrir jafnrétti, samvinnu og að sem flestir geti notið menntunar í sinni heimabyggð. Ungmennafélagsandinn var honum í blóð borinn og var hann merkisberi ungmennafélaganna í gegnum tíðina.

Guðjón minn, þá hafa leiðir skilið að sinni. Þú hefur lagt í þá ferð sem fyrir öllum liggur að fara. Nú þegar ég kveð þig vil ég þakka þér allar ráðleggingarnar, hvatninguna og hlýhuginn sem þú sýndir okkur Sibbu, börnum okkar og barnabörnum.

Og nú þegar þú gengur um grundirnar grænu, í óravídd fjarlægðarinnar, með gömlum vinum og ættingjum sem farnir voru á undan þér, þá veit ég að þú lítur til með okkur eins og þú hefur ávallt gert.

Elsku Bogga, Sibba mín, hin systkinin og fjölskyldur. Við höfum misst góðan dreng, ættarhöfðingjann okkar, og söknuður okkar er mikill. En við eigum yndislegar minningar um eiginmann, föður og afa, sem ylja okkur um ókomna framtíð.

Jón Sig.

Elsku besti afi.

Þótt nú sé komið að kveðjustund og mikil sorg í okkar hjarta, er líka gleði yfir því að hafa fengið að vera hluti af þínu merka lífi. Afi, þú varst maður sem við vorum svo montin af. Bara það að tengjst þér, þekkja þig og afrek þín gerði okkur svo stolt af þér. Þú varst okkur öllum svo mikill innblástur. Alltaf var hægt að leita ráða hjá þér um allt milli himins og jarðar. Þér tókst alltaf að setja allt í samhengi fyrir mann og hafðir alltaf áhuga á því sem við vorum að gera. Þessi áhugi á okkur gerði það að verkum að það var svo þægilegt að segja þér frá og nærvera þín ein gerði allt notalegt. Þú hlustaðir en dæmdir aldrei, þú gafst ráð en gagnrýndir aldrei.

Margt kemur upp í hugann þegar við minnumst þín. Þá fyrst ber að nefna umhyggjuna sem þú sýndir okkur og öll gullkornin sem þú sagðir okkur, allt það sem þú gerðir fyrir íþróttalífið hérna á Sauðárkróki, þó aðallega sundið.

Að fara á Bárustíginn var alltaf gaman, þarna var hægt að fara í feluleiki, greiða þér, en þér þótti alltaf svo notalegt þegar að við börnin greiddum á þér hárið, spila á spil, horfa á Tomma og Jenna, búa til kínverja, henda hlutum niður af svölunum, gera flugnasúpur, hanga í snúrustaurnum, skoða fuglahreiðrin í garðinum, stela tyggjói úr vasanum á kápunni hennar ömmu, fikta við vatnsslönguna inní bílskúr, stela nammi úr búrinu, renna sér á handriðinu niður stigann og hanga á hliðgrindinni fyrir utan aðaldyrnar. Þið amma áttuð svo marga fallega muni inní bílskúr sem var svo gaman að skoða. Okkur rámar líka í eitt skipti í að hafa dansað regndans á kringlótta teppinu inní svefnherberginu ykkar ömmu og að hafa nokkrum sinnum læst hvort annað inni í litlu kompunni í herberginu sem við sátum alltaf í. Það var líka eitt skipti þegar tvö af okkur voru að tala saman um þig að áheyrandi sagði: ,,Er afi ykkar Súperman eða eitthvað?" Það gengur líka sú saga að besta vatnið í heiminum sé úr krananum inni í þvottahúsinu á Bárustígnum og eru allir sammála um það sem hafa smakkað það.

Hérna áður fyrr voru jólin og áramótin alltaf haldin hátíðleg á Bárustígnum en fjölskyldan hefur alla tíð verið mjög náin. Það fylgdi því alltaf svolítil öryggiskennd að koma þangað því það var fátt sem breyttist þar. Þú last á pakkana og ísinn hennar ömmu klikkaði aldrei og hefur ekki gert enn. Þegar fjölskyldan varð stærri varð að breyta því þannig að hver fjölskylda héldi jólin heima hjá sér en við hittumst svo á Bárustígnum seinna um kvöldið. Það voru nefnilega ekki jól nema allir hittust á Bárustígnum.

Þú sýndir okkur að lífið snýst ekki bara um veradleg gæði heldur fólkið í kringum okkur og hvernig við getum snert þeirra líf. Maður tók líka mark á manni eins og þér sem hafði afrekað svo margt á einni ævi sem fáum öðrum hefði tekist á tveimur eða þremur.

Við trúum því heitt og innilega að Guð hafi kallað þig til sín vegna þess að hvergi gæti hann fundið jafn góðan engil eins og þig. Við vonum að þú vakir yfir okkur og veitir okkur styrk í sorginni, sérstaklega ömmu en þið hafið fylgst að í gegnum lífið í meira en 60 ár án þess að nokkurn tíma hafi fallið hnjóðsyrði á milli ykkar.

Við vonum líka að það sé sundlaug á himnum, ef svo er ekki þá höldum við að þú hafir fengið nýtt verkefni. Við þökkum fyrir allt elsku afi og vitum að þú ert kominn á góðan stað. Heimurinn er betri staður eftir að þú varst hér.

Barnabörnin í Ártúni 1 og Ártúni 5.

Okkur langar til að kveðja hann Guðjón afa okkar. Í kringum hann er stór og samheldin fjölskylda þar sem öllum þykir óendanlega vænt um hann. Hann var mikill athafnamaður, og það var sama hvort afrek okkar barnabarnanna voru stór eða smá, og hvert okkar það var sem vann þau, alltaf var hann jafnstoltur og ánægður fyrir okkar hönd. Afi hvatti okkur alltaf áfram í því sem við tókum okkur fyrir hendur og studdi okkur í þeim ákvörðunum sem við tókum - og rökræddi við okkur ef hann var ekki alveg sammála. Afi náði ekki að ljúka öllu sem hann ætlaði sér og hefði eflaust þurft að verða tvöfalt eldri til þess. Hann var þó ávallt tilbúinn að taka því sem að höndum bar og vissi að degi var tekið að halla eins og ljóð Davíðs Stefánssonar lýsir.

Við sjáum að dýrð á djúpið slær,

þó degi sé tekið að halla.

Það er eins og festingin færist nær,

og faðmi jörðina alla.

Svo djúp er þögnin við þína sæng,

að þar heyrast englar tala,

og einn þeirra blakar bleikum væng,

svo brjóst þitt fái svala.

Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt,

svo blaktir síðasti loginn.

En svo kemur dagur og sumarnótt,

og svanur á bláan voginn.

(Davíð Stefánsson.)

Ingibjörg Rósa, Gestur, Bryndís Eva, Hákon Örn, Dagmar Ingibjörg, Örn og Þorgeir.

Í dag fylgjum við afa okkar til hinstu hvílu. Þeir sem þekktu til afa vita að þar fór mikill fyrirmyndarmaður. Afi var hornsteinn fjölskyldunnar og studdi bæði börn og barnabörn í öllu því sem þau tóku sér fyrir hendur. Fyrir okkur systkinin var afi ein sú besta fyrirmynd sem við gátum hugsað okkur. Hann var í öll þessi ár til staðar fyrir okkur og tók ríkan þátt í lífi okkar allra. Það er okkur alveg ómetanleg lífsreynsla að hafa fengið að vera í miklum og nánum samvistum við afa og hefur það haft mikil áhrif á það í hvaða farvegi líf okkar er í dag.

Afi var mikill handverksmaður og smíðaði húsgögn og batt bækur af mikilli kostgæfni. Allt sem hann gerði var gert af heilum hug og ekkert fúsk þar á ferðinni.

Bárustígur 6 var okkar annað heimili á uppvaxtarárunum og metum við það mikils að hafa fengið að dvelja þar í góðu yfirlæti ömmu og afa. Nú á seinni árum hefur þetta verið einn helsti samkomustaður fjölskyldunnar og gaman að setjast niður yfir kaffibolla og spjalla um heimsmálin.

Sundlaugin var stór hluti af lífi afa og bar hann hag hennar fyrir brjósti allt til dauðadags. Lengi vel héldum við systkinin að afi ætti sundlaugina og kom það okkur verulega á óvart þegar við áttuðum okkur á því að svo var ekki. Þetta hafði þó þau áhrif á okkur að við vorum mikið í sundi og hafa flest afabörnin æft sund.

Afi var mikill íþrótta- og keppnismaður. Hann fylgdist sérstaklega vel með sínu fólki og fór á alla þá íþróttaviðburði sem hann komst á hvort sem það var körfuboltaleikur hjá Tindastóli, frjálsíþróttamót UMSS eða landsmót UMFÍ.

Afi hafði góða nærveru og það eitt að vera nálægt honum fyllti mann stolti og löngun til þess að gera vel. Það var ekki hvað hann sagði og gerði heldur hvað hann stóð fyrir. Við systkinin erum stolt af því að vera afkomendur Guðjóns Ingimundarsonar.

Eitt sinn verða allir menn að deyja og það vitum við, en það er alltaf sárt að verða að kveðja. Um leið og við kveðjum afa biðjum við góðan Guð um að styrkja ömmu á þessum erfiðu tímum.

Hjördís, Brynja og

Sigurður Guðjón.

Elsku afi, mig langar að þakka þér fyrir allar samverustundirnar sem við áttum, það var alltaf svo gott að koma til þín og ömmu á Bárustíginn.

Ég mun sakna stundanna þegar við héldumst í hendur og þú vildir fá að vita hvernig mér gengi í skólanum og í sundinu.

Leiddu mína litlu hendi,

ljúfi Jesús, þér ég sendi

bæn frá mínu brjósti, sjáðu,

blíði Jesús, að mér gáðu.

Hafðu gát á hjarta mínu

halt mér fast í spori þínu,

að ég fari aldrei frá þér,

alltaf, Jesús, vertu hjá mér.

Um þig alltaf sál mín syngi

sérhvern dag, þó eitthvað þyngi.

Gef ég verði góða barnið,

geisli þinn á kalda hjarnið.

(Ásmundur Eiríksson.)

Ég mun geyma allar góðu stundirnar með þér í hjarta mínu.

Þín

Harpa.

Ég vil með nokkrum orðum kveðja kæran föðurbróður og vin Guðjón Ingimundarson íþróttakennara á Sauðárkróki. Með honum hverfur af þessu jarðríki síðasta systkinið frá Svanshóli í Bjarnarfirði á Ströndum. Þau voru þrettán talsins en aðeins sjö þeirra komust til fullorðinsára.

Sem strákur var Guðjón frændi nánast hálfguð í mínum huga. Hann var íþróttafrömuður í Skagafirði sem við Svanshólsbræður litum mikið upp til. Fyrstu árin bar fundum okkar ekki oft saman, en ein samverustund átti eftir að hafa mikil áhrif á lífshlaup mitt.

Það var nánast fyrir tilviljun að við frændur hittumst í Reykjavík um páskaleytið 1966. Ég var að ljúka námi við Kennaraskólann um vorið og framtíðin var óráðin. Guðjón innti mig eftir því hvað ég færi að gera að skóla loknum. Það lá ekki ljóst fyrir. Hann spurði hvort ég gæti hugsað mér að koma norður í Skagafjörð og vinna hjá Ungmennasambandi Skagafjarðar. Mér leist vel á þá hugmynd. Niðurstaðan af spjalli okkar varð sú að ég réð mig sem þjálfara og starfsmann hjá UMSS.

Guðjón kom í Skagafjörðinn um 1940 og setti fljótlega svip sinn á íþrótta- og æskulýðsstarfið. Um afskipti hans að þeim málum munu aðrir vafalaust skrifa af meiri þekkingu en ég. Hann var við stjórnvölinn hjá UMSS í um 30 ár og stjórnaði af nákvæmni og festu. Allt skipulag hjá frænda var til fyrirmyndar. Betri læriföður gat ég ekki fengið. Hann var einstakt snyrtimenni á allan hátt. Gögn sambandsins voru varðveitt á skipulegan hátt. Þar var að finna ómetanlegar heimildir og hægt var að lesa sögu þess á auðveldan máta með því að fletta þeim.

Hann kenndi í mörg ár sund í Varmahlíð og barðist síðar fyrir byggingu sundlaugar á Sauðárkróki. Var hann forstöðumaður hennar frá opnun 1957 til ársins 1985. Bar hann hag þess mannvirkis mjög fyrir brjósti, en stundum fannst honum hægt ganga eftir að hann hætti að starfa þar. Á síðasta ári ákvað hann að gefa stóla í áhorfendasvæðið með því skilyrði að þeir yrðu komnir upp fyrir Landsmót UMFÍ í sumar. Þetta framtak hans og skilyrðin finnst mér lýsa Guðjóni vel. Hann vildi að aðrir stæðu sig vel en til sjálfs sín gerði hann mestu kröfurnar.

Auk þess að vera forystumaður UMSS tók hann virkan þátt í bæjarmálum á Sauðárkróki. Var hann um árabil bæjarfulltrúi fyrir Framsóknarflokkinn en kennslan var hans aðalstarf. Það sýnir vel hvaða trausts hann naut að hann var formaður íþróttanefndar Sauðárkróks í rúm 30 ár hvort sem hann var í meirihluta í sveitarstjórn eða ekki.

Guðjón var góður íþróttamaður á yngri árum. Iðkaði fimleika og glímu og var sundmaður í fremstu röð hér á landi. Átti hann t.d. um tíma Íslandsmet í 50 m skriðsundi. Hann var góður sundkennari og þjálfari og náði upp sterku sundliði innan UMSS. Vann það Norðurlandsmótið með nokkrum yfirburðum í mörg ár. Guðjón vann alla tíð að margs konar félagsmálum og var kjörinn heiðursfélagi í flestum þeirra félaga sem hann starfaði í. Einnig hlaut hann gullmerki og var heiðursfélagi hjá UMFÍ og ÍSÍ. Þá hlaut hann riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir félagsstörf sín og hafa fáir verið betur að þeim heiðri komnir.

Hann sat 18 ár í stjórn UMFÍ og lagði þar margt gott til málanna. Hann sótti öll landsmót UMFÍ frá Hvanneyrarmótinu 1943. En þar vann hann 100 m frjálsaðferð í sundi í sex gráðu heitri laug! Sumir urðu veikir eftir sund við slíkar aðstæður. En Guðjón tók það ekki nærri sér enda vanur að keppa á sundmótum UMSB þegar synt var í ármótum Norðurár og Hvítár. Í mínum huga er óvíst að Landsmótið á Sauðárkróki 1971 hefði verið haldið þar ef Guðjón hefði ekki haft forgöngu um það.

Faðir minn og Guðjón voru miklir mátar og mjög samrýndir. Þeir skrifuðust á og eru þau bréf öll til og eru skemmtilegar heimildir um hvað þeir höfðu fyrir stafni. Um tíma voru bréfin skrifuð með leyniletri sem enginn skildi nema þeir tveir. Einhverju sinni spurði ég Guðjón hvort hann hefði ekki sett saman vísur eins og pabbi. Hann aftók það með öllu. En faðir minn sagði að það væri ekki allskostar rétt. Eitt sinn þegar þeir bræður sátu yfir kvíaánum varð eftirfarandi vísa til:

Hér er sólskin sætt og blítt

sumardaga bjarta.

Hér er allt svo unaðshlýtt

eins og móðurhjarta.

Átti Guðjón fyrripartinn en faðir minn botnaði. Þá mun Guðjón hafa verið 10 ára en Mundi 14 ára.

Þeir bræður voru nákvæmir í öllu sem þeir tóku sér fyrir hendur. Það er athyglisverð staðreynd að þeir bræður yfirgefa þetta jarðríki á svipuðum aldri. Faðir minn lifði í 89 ár og tæpa fjóra mánuði en Guðjón 89 ár og rúma tvo mánuði.

Heimili Boggu og Guðjóns var mitt annað heimili meðan ég dvaldi í Skagafirðinum og er raunar enn. Eftir að ég og fjölskylda mín flutti þaðan 1974 höfðum við Guðjón minna samband um tíma. En hin síðari ár töluðum við reglulega saman í síma. Við hjónin áttum góða helgi saman með Boggu og Guðjóni fyrir tveimur árum. Þá fór unglingalandsmót UMFÍ fram í Stykkishólmi. Guðjón hafði áhuga að komast á mótið en treysti sér tæplega til aka að norðan. Hann hringdi og spurði af sinni alkunnu hógværð hvort ég væri búinn að ráðstafa næstu dögum. Svo var ekki og þau hjónin komu með áætlunarbílnum og voru hjá okkur í Borgarnesi yfir helgina. Það voru ánægjulegir dagar. Við fórum í Stykkishólm og þar hitti hann marga samherja úr ungmennafélagshreyfingunni. Einnig renndum við í Reykholt. Guðjón rifjaði þar upp ýmsar minningar frá dvöl sinni þar. Hann var nemandi þar veturinn 1933-34 en vann síðan sem fjósamaður hjá Þorgils Guðmundssyni um tíma. Hafði frændi gaman af heimsókninni í Reykholt en þangað hafði hann ekki komið lengi.

Áhugasvið okkar frænda lágu saman. Við höfðum vænst þess að hittast á 24. Landsmóti UMFÍ á Sauðárkróki í sumar en því miður verður það ekki raunin. En andi hans mun svífa þar yfir og vaka yfir því að allt takist sem best.

Ég þakka þér, kæri frændi, fyrir ánægjulega samferð sem hefur verið mér og fjölskyldu minni mikils virði. Minningin um þig mun víða lifa um ókomin ár. Ég bið góðan Guð að styrkja þig Bogga mín og þitt fólk í sorg ykkar.

Ingimundur Ingimundarson Borgarnesi.

Listamaður, ljós og skýr,

lifir í miklum önnum.

Yfir krafti og kynngi býr

og kominn af galdramönnum.

Þannig orti forveri minn á Sauðárkróki, séra Helgi Konráðsson, um Guðjón Ingimundarson. Guðjón var frá Svanshóli í Bjarnarfirði í Strandasýslu. Hann kom ungur í Skagafjörð og kenndi kynslóðum Skagfirðinga að synda. Hann var vel íþróttum búinn og hafði einlægan áhuga fyrir því að efla íþróttastarfið í héraðinu.

Guðjón var einn þeirra manna sem ungmennafélagsandinn hafði blásið eldmóði í brjóst.

Einn þeirra sem hrifust af þeirri bjartsýni og glaðværð sem hreyfingin bar með sér. Þessi mikilvægi þáttur í þróun íslensks samfélags á síðustu öld er oft vanmetinn. Einnig það hversu miklu þeir menn fengu áorkað sem báru hugsjónina uppi. Guðjón var sannarlega einn þeirra. Áhugi hans á framfara- og þjóðþrifamálum skorðaðist ekki við íþróttirnar einar heldur náði til flestra þátta. Hann var óþreytandi í því að vinna að framförum í samfélaginu og sparaði hvorki tíma né fyrirhöfn.

Ég kynntist Guðjóni fyrst á vettvangi skólamálanna. Þar var gott að starfa með honum og njóta leiðsagnar hjá góðgjörnum, reyndum manni. Hann var yfirvegaður og athugull, jafnan leitandi að þeim lausnum sem best hentuðu og ná mætti samstöðu um. Þótt Guðjón hafði eindregnar pólitískar skoðanir hafði hann það stundum á orði að fyrst og fremst þyrftum við öll að ná saman um heillavænlegar leiðir fyrir heildina, það kæmi fyrst. Svo mætti alltaf skerpa línur í pólitíkinni þegar liði að kosningunum.

Við hjónin þökkum fyrir hin góðu kynni og vináttu við Guðjón Ingimundarson. Fjölskyldunni sendum við samúðarkveðjur og bestu óskir um Guðs blessun.

Hjálmar Jónsson,

Signý Bjarnadóttir.

Látinn er Guðjón Ingimundarson, einn af heiðursfélögum ÍSÍ. Guðjón er fæddur Strandamaður en flutti ungur í Skagafjörðinn og ól allan sinn aldur á Sauðárkróki. Þar lagði hann stund á íþróttir, einkum sund, og var lengst af forstöðumaður Sundlaugarinnar á Króknum. Hann valdist fljótt til foyrstu í Ungmennasambandi Skagafjarðar og var einn af þeirri kynslóð forvígismanna og frumherja, sem beittu sér fyrir aukinni íþróttaiðkun og framgangi íþróttahreyfingarinnar. Íþróttalífið í landinu býr enn að baráttu þessara manna, sem sumir hverjir unnu áratugum saman af ósérhlífni og hugsjón, að eflingu íþrótta í sínum félögum og sinni heimabyggð. Guðjón var í hópi þessara manna, formaður og forvígismaður UMSS í þrjátíu ár, og var að launum fyrir sitt ómetanlega framlag, kjörinn heiðursfélagi hjá Íþróttasambandi Íslands. Mætti jafnan til þinga og atburða, þangað sem honum var boðið, enda öflugur stuðningsmaður og áhugamaður um allt sem viðkom ÍSÍ. Gráhærður höfðingi, bar aldurinn vel, spengilegur og virðulegur, svipmikill en vingjarnlegur og ljúfur í viðmóti.

Íþróttahreyfingin þakkar Guðjóni störf hans og tryggð.

Blessuð sé minning hans. Með íþróttakveðju,

Ellert B. Schram, forseti ÍSÍ.

Kveðja frá UMSS

Einhver mesti íþróttafrömuður Skagafjarðar fyrr og síðar Guðjón Ingimundarson er fallinn frá. Guðjón var einn af ötulustu brautryðjendum í skagfirsku íþróttalífi svo áratugum skipti og sat í stjórn Ungmennasambands Skagafjarðar í 31 ár þar af 29 ár (1944-1973) sem formaður. Eins sat Guðjón í stjórn Ungmennafélags Íslands um tíma og var þar varaformaður. Ekki þarf því að orðlengja það mikið hve mikil og djúp spor Guðjón markaði í skagfirskt íþróttalíf með krafti sínum og dugnaði sem á fáan sinn líka. Hann stóð meðal annars fyrir því að sundlaug var reist á Sauðárkróki á sjötta áratugnum. Sundíþróttin var alla tíð hans aðaláhugamál og má geta þess að nú fyrir skömmu gaf hann stórgjöf til sundlaugarinnar. Fyrir hans tilstilli og með aðstoð margra annarra ötulla manna var haldið landsmót UMFÍ á Sauðárkróki árið 1971. Tókst það landsmót með miklum ágætum og varð Skagfirðingum til mikils sóma. Allar götur síðan hefur skagfirskt íþróttalíf verið í miklum blóma og sér ekki fyrir endann á því.

Fyrir hönd íþróttafólks í Skagafirði þakkar stjórn UMSS Guðjóni kærlega fyrir hans miklu og óeigingjörnu störf í þágu íþróttahreyfingarinnar og sendir aðstandendum djúpar samúðarkveðjur.

Haraldur Þór Jóhannsson

og Hjalti Þórðarson.

Félög væru lítils megnug ef ekki væru til öflugir og ósérhlífnir félagar innan þeirra vébanda. Í dag er kvaddur einn af dyggustu félögum ungmennafélagshreyfingarinnar, Guðjón Ingimundarson, fyrrum stjórnarmaður UMFÍ í tæpa tvo áratugi og síðar heiðursfélagi frá 1987. Guðjón var mikill ungmennafélagi alla tíð og oft valinn til trúnaðarstarfa, bæði heima í héraði sem og á landsvísu. Hann var sífellt vakandi yfir hreyfingunni og félagsstarfinu og fullur af eldmóði fram á síðasta dag.

Á komandi sumri verður Landsmót UMFÍ haldið í Skagafirði og var ánægjulegt að Guðjón skyldi vera viðstaddur undirskrift samnings við UMSS um framkvæmd mótsins. Þar kom reynsla hans berlega í ljós, en þegar 14. Landsmót UMFÍ var haldið á Sauðárkróki sumarið 1971 var Guðjón formaður UMSS ásamt því að vera formaður íþróttanefndar Sauðárkróks og því var þátttaka hans mikil í uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæðinu. Það var fallegur og sólríkur dagur þegar Landsmótið var sett á Sauðárkróki í júlí 1971 og vonandi verða landsmótsdagarnir í sumar jafn fallegir og þá. Gaman hefði verið ef Guðjóni hefði auðnast að vera með á mótinu í sumar og mun hans verða sárt saknað.

Fyrir hönd UMFÍ færi ég fjölskyldu Guðjóns innilegar samúðarkveðjur. Það var heiður og lærdómsríkt að fá að kynnast manni eins og honum.

Íslandi allt.

Björn B. Jónsson,

formaður UMFÍ.

Snemma á síðustu öld fór vakning um landið, er ungmennafélagshreyfingin kvatti ungt fók til dáða, undir kjörorðinu: "Íslandi allt." Eitt þeirra ungmenna sem þá svöruðu því kalli var Guðjón Ingimundarson, og allt til hinsta dags var hann heill og traustur félagi undir merkjum þeirrar hugsjónar sem hann löngu fyrr helgaði krafta sína. Guðjón starfaði lengst sem íþrótta- og smíðakennari á Sauðárkróki og í því starfi var hann, sem annars staðar, traustur liðsmaður sem gott var að leita til. Þegar Guðjón lét af störfum við skólana á Sauðárkróki tók hann að sér forstöðu sundlaugarinnar og gegndi því starfi farsællega um allmörg ár.

Við leiðarlok þakka ég Guðjóni góð kynni og langt og gott samstarf.

Eftirlifandi eiginkonu, og öðrum ástvinum er vottuð innileg samúð. Blessuð sé minning hans.

Björn Björnsson.

Í dag er kvaddur frá Sauðárkrókskirkju Guðjón Ingimundarson, fyrrverandi kennari á Sauðárkróki.

Kynni mín af Guðjóni hófust þegar hann á vordögum 1940 fluttist til Skagafjarðar, þá ungur maður, og hóf sundkennslu við nýbyggða sundlaug í Varmahlíð. Ári síðar færði Guðjón sig út á Sauðárkrók og gerðist þar íþróttakennari. Gekk hann þá strax til liðs við Ungmennafélagið Tindastól og var kosinn formaður félagsins árið 1944. Einnig sat Guðjón í stjórn Ungmannasambands Skagafjarðar í rúm 30 ár, þar af sem formaður í 29 ár. Guðjón sagði sjálfur að á þessum árum hefði hann fyrst komist í snertingu við ungmennafélagshreyfinguna og það var í Skagafirði sem afskipti hans af félagsmálum hófust. Afskipti sem stóðu til síðasta dags eða í 64 ár.

Guðjón Ingimundarson var mikill hugsjónamaður og var í fylkingarbrjósti ungmannafélagshreyfingarinnar. Einnig var hann mikill samvinnumaður og í forystusveit Framsóknarflokksins alla tíð. Guðjón var kosinn í bæjarstjórn Sauðárkróks árið 1951 og starfaði þar óslitið til ársins 1974 eða í 23 ár. Á þessum árum voru miklir umbrotatímar í bæjarmálum. Mörgum góðum málum var komið í framkvæmd og hornsteinar lagðir að öðrum. Hér sem annars staðar lagði Guðjón fram mikið dagsverk sem við íbúar Sauðárkróks njótum í dag.

Í mínum huga á enginn einn stærri hlut að uppbyggingu íþróttamannvirkja í Skagafirði en Guðjón. Með þeim var lagður grunnur að því þróttmikla íþróttastarfi sem verið hefur í Skagafirði. Hann skildi vel hvers virði er að halda ungu fólki að heilbrigðu íþrótta- og félagsstarfi. Æsku- og íþróttafólk í Skagafirði á um mörg ókomin ár eftir að njóta þess sem Guðjón sáði til með einstakri eljusemi og dugnaði. Fyrir það allt verður seint fullþakkað.

Hinn 17. júní 1984 sæmdi forseti Íslands Guðjón Riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir störf að félagsmálum. Þessa miklu viðurkenningu bar Guðjón með sóma.

Í öllum sínum störfum naut Guðjón þess að vera drengskaparmaður og málafylgjumaður, hélt fast á sínu og var laginn að koma málum í höfn. Það var einstaklega gott að vinna með Guðjóni og ávallt var hægt að treysta verkum hans. Verk hans voru ekki aðeins vel gerð heldur einnig vel framsett.

Leiðir okkar Guðjóns lágu saman strax á mínum unglingsárum. Ég minnist hans sem samstarfsmanns, ráðgjafa og mikils vinar. Ég minnist þess ekki að nokkurn tímann hafi skuggi fallið á okkar mikla og langa samstarf. Samstarf sem verið hefur mér mjög dýrmætt.

Guðjón var mikill gæfumaður í einkalífi. Hann kvæntist stuttu eftir komu sína til Skagafjarðar Ingibjörgu Kristjánsdóttur, mikilli sómakonu. Engum er mögulegt að skila slíku dagsverki í félagsmálum sem Guðjón gerði nema eiga sér traustan og góðan lífsförunaut. Barnahópurinn var stór og Bárustígur 6 stóð ævinlega öllum opinn. Bið ég algóðan Guð að veita Boggu og fjölskyldunni styrk í sorginni.

Þegar ég sat hjá mínum góða vini heima á Bárustígnum fyrir fáeinum dögum fann ég að degi var tekið að halla, þótt ekki hvarflaði að mér, að það yrði okkar síðasta samverustund. Ég kveð minn kæra vin með orðum Stephans G. Stephanssonar;

Þar leið burt í sólskinið sálin hans hljóð.

Ég sá það, er falið var skilningi hinna.

Hún var hans innsta en ósungna ljóð,

Með arnsúg í væng heim til dalanna sinna.

Blessuð sé minning þín kæri vinur.

Stefán Guðmundsson.

Í dag er kvaddur hinstu kveðju einn þeirra manna er mótuðu samfélag okkar Skagafirðinga á þriðja fjórðungi síðustu aldar, maður sem alist hafði upp við hugsjónir ungmennafélagshreyfingarinnar um ræktun lýðs og lands, félagsmálamaður sem óhvikull barðist fyrir því sem hann taldi horfa til bóta og framfara í samfélaginu. Vorið 1940 kom hann lærður íþróttakennari norður í Skagafjörð teymandi reiðhjól sitt norður yfir Vatnsskarð sem þá var ófært bílum vegna aurbleytu, til að taka að sér sundkennslu við hina nýju sundlaug í Varmahlíð. Þar með var lífsbraut hans mörkuð og framtíðarstaður fundinn á Sauðárkróki.

Íþrótta- og menntamál voru Guðjóni jafnan hugleiknust. Hann barðist fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja á Sauðárkróki, stofnaði til og stjórnaði námsflokkum á Sauðárkróki á árunum 1974-1978 meðan hann var formaður skólanefndar í bænum og vann þá ötullega að stofnun Fjölbrautaskólans á Sauðárkróki sem tók til starfa 1979. Mörgu þessu gat hann komið til leiðar vegna þess að hann var áhrifamaður í félagsmálum, sat alllengi í bæjarstjórn og um tíma oddviti Framsóknarflokksins í bænum.

Kynni mín af Guðjóni Ingimundarsyni áttu sér fortíð því að faðir minn og hann voru skólabræður frá íþróttaskólanum á Laugarvatni veturinn 1937-1938 og héldu vináttu alla tíð síðan. Eftir að ég tók við Héraðsskjalasafninu á Sauðárkróki kom Guðjón til mín oftlega og spjallaði, þá kominn á efri ár, hættur kennslu og félagsmálavafstri. Þá afhenti hann safninu eitt og annað er varðaði sögu félags- og íþróttamála í héraðinu. Þar kynntist ég Guðjóni betur, lágvöxnum manni, hæglátum og íhugulum, vissi þó að undir niðri bjó nokkurt skap, hafði reyndar einu sinni orðið vitni að því þegar ég ungur drengur í sundnámi á Króknum hlustaði á hann lesa yfir einum sundfélaga mínum fyrir stríðni og áreitni, það sem nú mundi kallað einelti. Það hugtak var víst ekki til þá en Guðjón tók hart á því og kvað niður þegar í stað.

Mér er ljúft að minnast kynna minna af Guðjóni og fjölskyldu hans. Það var ánægjulegt að koma í bókaherbergið hans og renna augum yfir bækurnar sem hann hafði bundið sjálfur af mikilli smekkvísi, því hann var snilldarbókbindari og fékkst við það talsvert eftir að hann komst á eftirlaunaaldur. Eftirtektarverð var sú snyrtimennska sem þar ríkti og einkenndi allt hans fas og umgjörð.

Það var happafengur Skagfirðingum að fá hinn unga Strandamann hingað norður vorið 1940 og fá síðan að njóta starfskrafta hans í hálfa öld. Sú sveit er vel skipuð sem hefur slíka menn innan borðs sem Guðjón Ingimundarson.

Ingibjörgu, börnum þeirra og öllum ástvinum sendi ég samúðarkveðjur og bið þeim allrar blessunar.

Hjalti Pálsson.

Einn af burðarásum Sauðárkróks á síðustu öld er allur. Fyrir þá sem eru fæddir og uppaldir á Króknum var Guðjón Ingimundarson hluti af tilverunni, hvort sem það var í sundlauginni, þar sem hann var forstöðumaður, við kennslu íþrótta og smíða eða fyrir störf að sveitarstjórnar- og ungmennafélagsmálum. Til að geta vaxið og dafnað þarf Sauðárkrókur að eiga menn eins og hann, menn sem unna heimkynnum sínum af mikilli einurð og fórnfýsi og hafa sterka framtíðarsýn. Hann starfaði sem farsæll kennari við skólana á Króknum í áratugi, þar af var hann skólastjóri Barnaskólans eitt skólaár. Hann var í skólanefnd Sauðárkróks til margra ára og var alla tíð umhugað um skólamálin. Átti hann stóran þátt í uppbyggingu barna- og gagnfræðaskólans.

Frá því að ég fór að vinna við grunnskólann höfum við Guðjón oft rætt um menntamálin, enda var hann einlægur baráttumaður fyrir framgangi skólanna. Ég hitti hann fyrir stuttu og þá eins og alltaf spurði hann: ,,Hvað er títt í skólamálunum?"

Guðjón bar gæfu til að halda heilsu fram á efri ár og vera vel inni í öllum málum. Það var lærdómsríkt að rökræða við hann, því ekki vorum við alltaf sammála um forgangsröðina í uppbyggingu bæjarins. Síðustu árin átti frekari efling sundlaugarinnar hug hans allan og minnti hann mig gjarnan á að líta ætti á laugina eins og hverja aðra kennslustofu og hlúa að henni sem slíkri. Því miður entist honum ekki aldur til að sjá draum sinn um betri sundlaug verða að veruleika en þegar sá dagur kemur verður baráttu hans minnst með virðingu og þakklæti.

Fjölskyldu Guðjóns sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Hávamál.)

Óskar G. Björnsson.