29. mars 2004 | Baksíða | 263 orð | 1 mynd

Björgólfur Thor Björgólfsson ritar borgarstjóra bréf vegna Fríkirkjuvegar 11

Óskar eftir formlegum viðræðum um framtíð hússins

BJÖRGÓLFUR Thor Björgólfsson hefur sent borgarstjóranum í Reykjavík bréf þar sem hann óskar eftir formlegum viðræðum við borgaryfirvöld um framtíð Fríkirkjuvegar 11, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.
BJÖRGÓLFUR Thor Björgólfsson hefur sent borgarstjóranum í Reykjavík bréf þar sem hann óskar eftir formlegum viðræðum við borgaryfirvöld um framtíð Fríkirkjuvegar 11, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.

Segir Björgólfur að sér sé annt um minningu langafa síns, Thors Jensen, sem lét reisa húsið. Eins og fram kom í Morgunblaðinu um helgina eru uppi áform um að Reykjavíkurborg selji húsið við Fríkirkjuveg 11, en það hýsir nú skrifstofur Íþrótta- og tómstundaráðs (ÍTR). Vísar Björgólfur til þess að langafi hans hafi byggt húsið og jafnframt verið meðhöfundur teikninga af því en þar bjó Thor Jensen í rúm 30 ár.

Björgólfur Thor Björgólfsson er langafabarn Thors Jensen. Móðir Björgólfs, Margrét Þóra Hallgrímsson, er dóttir Margrétar Þorbjargar Thors Hallgrímsson, dóttur Thors Jensen og Margrétar Þorbjargar Kristjánsdóttur.

Thor Jensen lét byggja húsið við Fríkirkjuveg 11 á árunum 1907-8, en hann seldi það samtökum bindindismanna árið 1939. Í minningum Thors Jensen segir meðal annars um húsið: "Vatnslögn var í húsinu, og var það algert nýmæli í Reykjavík. Ég lét grafa og sprengja djúpan brunn og múra hann innan. Úr brunninum var vatninu dælt í geymi í kjallaranum, en þaðan fór það með þrýstidælu í vatnsæðakerfi hússins." Seinna segir: "Ég fór að hugsa um, að hin stóru húsakynni gætu kannske orðið húsmóðurinni óþarflega erfið. Ég skrifaði henni einu sinni hálfgert afsökunarbréf út af þessu og bætti því við, að svo færu börnin kannske öll frá okkur, þegar tímar liðu, og þá sætum við tvö ein eftir í þessu stóra húsi. "Það er eins og vant er," sagði ég í bréfinu, "stórhugurinn hefir hlaupið með mig, en þú hjálpar mér gegnum þetta eins og allt annað.""

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.