Guðrún Vera, Beðið eftir meistaraverki.
Guðrún Vera, Beðið eftir meistaraverki.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Safnið er opið alla daga nema mánudaga kl. 11-17. Sýningarnar standa til 18. apríl.

ÞAÐ er löng leið frá árþúsundagamalli leirstyttu sem nefnd hefur verið Venus di Milo til kvikmyndagerva leikaranna í Star Trek-þáttunum sem margir þekkja í dag en verk Guðrúnar Veru Hjartardóttur ná léttilega að spanna allt þetta svið og meira til. Hún mótar mannsmyndir í leir, verur sem eru hvorki börn né fullorðnir, konur né karlar heldur eitthvað þarna á milli, börn og gamalmenni, kvenkyns og karlkyns í senn. Verurnar eru að hluta til í stíl raunsæis, fylgja hlutföllum og lögun mannslíkamans en síðan bregður út af, tré sprettur upp úr úlnlið eða æðarnar birtast eins og skrautlegt mynstur á bakinu.

List hennar er bæði hefðbundin og nýstárleg, áleitin en vekur líka tilfinningar eins og samúð og umhyggju, hún er persónuleg en um leið sammannleg og býr yfir ríkum menningarlegum skírskotunum í ýmsar áttir, í hefð myndhöggvara eins og Rodin eða höggmyndir Degas, verur hennar gætu einnig að einhverju leyti búið í ekki óáþekkum heimi og birtist í málverkum Hieronymusar Bosch, Odd Nerdrum eða Helga Þorgils Friðjónssonar. Þær búa yfir frásögn sem áhorfandinn skapar en þó er hönd listamannsins alltaf sýnileg í leirnum og minnir á sköpunarsögu þar sem maðurinn er mótaður úr leir. Óhefðbundið útlit þeirra er stundum súrrealískt en bendir einnig til sterkra tengsla við náttúruna eins og listakonan lagði áherslu á þegar hún sýndi verk sín í Galleríi Hlemmi og nefndi sýningu sína Rætur. Þetta óhefðbundna útlit, æðar sem mynda mynstur á baki, tré sem vex upp úr úlnlið, hendur sem ellin hefur náð tökum á, minnir einnig á kvikmyndagervi í samtímanum, á borð við minniháttar frávik geimveranna í Star Trek-þáttunum þ.ám. Doktor Spock eða eitthvað úr X-files og þannig blandast nútímatækni aldagamalli hefð. Manni dettur líka í hug líftæknin og allir hennar möguleikar.

Guðrún Vera er mjög meðvituð um framsetningu verka sinna og sinnir henni af alúð og hugvitssemi. Þannig eru verur þær sem innilokaðar eru í glerkössum dálítið annars eðlis en þær sem eiga heimkynni sín á fljótandi eyjum, glerkassarnir vísa bæði til hugmynda um framsetningu listaverka, umhverfis listarinnar og tilvistar mannsins, á meðan hinar eiga tilvist sína í heimi sem opnari er fyrir fleiri skírskotunum.

Listakonan leiðir áhorfandann inn aftari ganginn að sýningu sinni og tekst þannig á einfaldan hátt að gjörbreyta þessum leiðindabotnlanga rýmisins í spennandi inngang. Staðsetning verksins "Beðið eftir meistaraverki" er greinilega úthugsuð til að yfirfæra merkingu titilsins, það er í raun verkið sjálft sem bíður og spurning hvort áhorfandinn hafi meistaraverk í för með sér, eða sé kannski hið raunverulega meistaraverk? Þessi spurning um meistaraverkið er auðvitað ekki ný af nálinni en ef til vill er einmitt kominn tími til að velta henni aftur fyrir sér. Nú er orðið langt síðan list snerist um að skapa meistaraverk. Þau tilheyra öld snillinganna, öld rómantíkur og innblásturs, listamanna að deyja úr tæringu sem lögðu allt í sölurnar til að skapa meistaraverkið. Allt þetta er löngu liðin tíð en ég fór að hugsa um hvort það væri einhver möguleiki á að þessi hugsun yrði endurvakin? Ekki listamaðurinn að deyja úr tæringu, en sú hugsun að listaverk búi yfir einhverju óskilgreindu sem geri þau að meistaraverkum, að kannski sé ekki hægt að afbyggja allt niður í frumeindir sínar eins og reynt var á síðustu öld? Er kominn tími til að vekja höfundinn upp frá dauðum? Litlu verurnar sem bíða í Gerðarsafni veita engin svör við þessu heldur bíða aðeins átekta í áleitinni spurn.

Guðrún Vera nær á þessari sýningu að velta upp hreint ótrúlega mörgum flötum á tilverunni, að því er virðist algerlega áreynslulaust og beint frá hjartanu. Hér er greinilega komin fram sterk og persónuleg listakona sem tekið verður eftir, hún hefur augljóslega velt verkum sínum lengi fyrir sér og þannig tekist að koma fram með mjög fjölbreytta niðurstöðu. Hún er þeim hæfileikum gædd að ná til fjöldans með verkum sínum án þess að slá nokkuð af í dýpt um leið og list hennar er óaðskiljanlegur hluti af list samtímans. Sýning hennar er ein sú eftirminnilegasta sem ég hef séð á liðnum árum.

Úthugsuð náttúrulýrík A La Flaubert, Proust og Perec

Sigtryggur Bjarni Baldvinsson sýnir málverk og vatnslitamyndir. Sigtryggur hefur unnið markvisst með ákveðin þemu innan málverksins á síðustu árum og heldur því áfram hér. Úrvinnsla og myndefni minna á verk impressjónistanna, samsetning smárra litaflata byggir upp ákveðna náttúrusýn, í nálægð leysist verkið upp í einingar sínar en í fjarlægð birtist heildarmyndin, vatnsflötur í olíuverkum hans og laufamynstur í vatnslitaverkunum. Aðferðafræði Sigtryggs er í samræmi við strauma og stefnur innan lista síðustu áratugi, þannig hefur hann til dæmis unnið verk eftir verkum annarra listamanna samkvæmt hugmyndafræði sem fram kom á síðustu öld og velti upp spurningum um höfundinn. Yfirborð verka hans minnir ekki bara á impressionistana heldur einnig á verk poplistamanna, sum verkin minna líka á felulitamynstur. Sigtryggur er afbragðs málari og skapar hér sterka heild með verkum sínum. Myndir hans eru vissulega úthugsaðar en ná því líka að hrífa áhorfandann með stílbrögðum og hrynjandi sem minnir á náttúruna en tengist um leið tækninni, vegur salt þarna á milli. Hann leikur sér líka listilega með áhorfandann í vatnslitamyndum sínum með því að skapa dýpt sem er fyllilega órökrétt. Verk Sigtryggs vekja á skemmtilegan hátt hugsanir um þrjá rithöfunda. Flaubert skrifaði listilegar náttúrulýsingar, flæðandi nákvæmni hans var snilldarstílbragð, úthugsað en um leið hrífandi, t.d. er lýsing hans á því hvernig sólargeislarnir dönsuðu í kringum Emmu Bovary og ástmann hennar í skóginum ógleymanleg. Proust hreifst svo innilega af smáatriðum í umhverfi sínu að meira en öld síðar ilma rósarunnar þeir sem hann skrifaði um enn jafn sterkt og þá. Og þegar ég tók eftir þeirri alls órökréttu dýpt sem Sigtryggur skapar í sumum vatnslitamyndum sínum minntist ég þess þegar ég var að lesa Lífið, notkunarreglur, eftir George Perec. Niðursokkin í söguþráðinn tók ég allt í einu eftir dálitlu undarlegu á síðunni, frá efra vinstra horni allt niður í neðra hægra horn var orðið "og" endurtekið svo það myndaði beina skálínu. Á svipstundu spratt höfundurinn fram og híaði pínulítið á lesandann sem hafði gleymt sér augnablik, gleymt því samspili höfundar, texta og lesanda sem allur texti er, sem öll list er.

Sjónarspil yfirborðsins

J.B.K. Ransu hefur á undanförnum árum einbeitt sér að nokkurs konar endurvinnslu. Í málverkum sínum vinnur hann með strauma og stefnur sem fram komu á síðustu öld og leitast við að finna á þeim nýja fleti. Verk hans mynda einnig samspil við áhorfandann ekki ósvipað og verk Sigtryggs Bjarna en hafa þó allt annað yfirbragð. Litaval og mynstur vísar hér ekki til náttúru heldur menningar og þau heilla áhorfandann á allt annan hátt en verk Sigtryggs. Það er óhjákvæmilegt að bera verk þessara tveggja málara saman því í vinnubrögðum eiga þeir nokkuð sameiginlegt, báðir vísa til þess sem á undan er gengið, að vissu marki vinna þeir báðir með sjónblekkingar og tekst báðum að koma áhorfandanum skemmtilega á óvart. Það er síðan smekksatriði hvor þeirra höfðar meira til áhorfenda, Sigtryggur með náttúrulýrík sinni eða Ransu með liti og mynstur sem ekki fyrirfinnast í þeirri guðsgrænu. Ekki er mjög langt síðan Ransu hélt einkasýningu á verkum sínum í Nýlistasafninu og þess vegna er nokkuð eðlilegt að verk hans hafi ekki tekið miklum stakkaskiptum síðan. Í nýrri verkum sínum einbeitir hann sér að skynblekkingum í anda op-listar og þau verk eru sjónrænt eftirtektarverð en síður eftirminnileg. Að mínu mati eru verkin sem hann sýndi í Nýlistasafninu, þar sem unnið er skemmtilega með óvænt hlutverkaskipti bakgrunns og forgrunns, þó enn þau áhugaverðustu. Í heildina er sýning Ransu eftirtektarverð og ekki vafi á að hann og Sigtryggur eru í fremstu röð með okkar athyglisverðustu málurum í dag. Ekki er verra að sjá að fram geta komið íslenskir málarar sem eru að gera spennandi hluti án þess að íslenskt landslag komi þar nokkuð við sögu, möguleikar málverksins eru ótæmandi.

Ragna Sigurðardóttir