Thor Jensen lét reisa þetta glæsilega hús árin 1907-1908. Fyrsta hæðin er 268m² að grunnfleti, önnur hæðin 242m² . Hann bjó í húsinu ásamt fjölskyldu sinni til ársins 1937, en flutti þá lögheimili sitt að Lágafelli í Mosfellssveit.

Thor Jensen lét reisa þetta glæsilega hús árin 1907-1908. Fyrsta hæðin er 268m² að grunnfleti, önnur hæðin 242m² . Hann bjó í húsinu ásamt fjölskyldu sinni til ársins 1937, en flutti þá lögheimili sitt að Lágafelli í Mosfellssveit. Eftir það bjó í húsinu einn af sonum Thors ásamt fjölskyldu sinni. Árið 1942 eignaðist Góðtemplarahreyfingin húsið, árið 1963 keypti Reykjavíkurborg Fríkirkjuveg 11.

Húsinu og aðdraganda að byggingu þess lýsir Thor í æviminningum sínum. Hann hafði mikinn áhuga á húsasmíðum, fór á Landsbókasafnið og fékk lánaðar bækur um húsagerðarlist. Hann fékk síðan Einar Erlendsson arkitekt til að gera uppdrætti að húsinu og var byggingarefni pantað frá Svíþjóð árið 1906. Yfirsmiður var Steingrímur Guðmundsson en að sögn Thors var hann einn vandvirkasti og besti húsasmiður sem þá starfaði í Reykjavík. Skrautmálun í miðgangi gerði Engilbert Gíslason málari.

Vatnslögn var í húsinu og var það algert nýmæli í Reykjavík í upphafi 20. aldar.

Thor lét grafa og sprengja u.þ.b. þriggja til fjögurra metra djúpan brunn og múra hann að innan. Úr brunninum var vatni dælt í vatnsgeymslu í kjallaranum sem síðan var dælt inn á vatnslagnakerfi hússins. Einnig var lagt fyrir rafmagni í húsið en það var framleitt með ljósamótor.

Fríkirkjuvegur 11 er í ítölskum villustíl með klassísku skrauti sem keypt var frá Danmörku, kórréttar jónískar súlur og renessans-pílárar. Gluggarnir eru í svonefndum sveitserstíl. Séríslenska aðferðin við að klæða íbúðarhús með bárujárni er hér í einstökum félagsskap með fornum, klassískum stílgerðum.

Í húsinu eru 15 herbergi á tveimur hæðum, 6 herbergi niðri, fyrir utan eldhús. Á efri hæð eru 9 herbergi, 8 svefnherbergi og lestrarstofa fyrir börnin.Engar breytingar hafa verið gerðar á húsinu frá upphafi nema að samkomusalur í kjallara var dýpkaður þegar Templarar áttu húsið. Lagfæringar og endurbætur hafa verið framkvæmdar á innra og ytra byrði hússins þau ár sem borgin hefur átt það. Umfangsmestu endurbæturnar voru framkvæmdar undir stjórn Leifs Blumenstein byggingafræðings á árunum 1985-1989.

Húsið að Fríkirkjuvegi 11 var friðað árið 1978.

Eftirtalin félög og stofnanir hafa verið til húsa á Fríkirkjuvegi 11 eftir að Thor seldi húsið 1942.

Góðtemplarar, Rannsóknarlögreglan, Fóstruskólinn, AFS, Íslenska hljómsveitin, Leikbrúðuland, Light nights, Félag ísl. áhugaljósmyndara, Útvarp Matthildur (ritnefnd), Leikklúbbur unga fólksins, o.fl.

Æskulýðsráð Reykjavíkur fékk húsið til afnota árið 1964 en húsið þjónaði bæði sem skrifstofa og æskulýðsmiðstöð fyrir ráðið til ársins 1986. Árið 1986 sameinuðust Æskulýðsráð Reykjavíkur og Íþróttaráð Reykjavíkur undir nafninu Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur.

Aðalskrifstofa ÍTR er til húsa í "höllinni" sem Thor Jensen lét reisa í upphafi 20. aldarinnar.

Byggingadeild borgarverkfræðings er með umsjón með viðhaldi hússins.