5. apríl 2004 | Innlendar fréttir | 183 orð

Brotið gegn lögum um neytendalán

SAMKEPPNISRÁÐ hefur komist að þeirri niðurstöðu að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) hafi í auglýsingabæklingi sínum um langtímalán brotið gegn ákvæðum laga um neytendalán með því að upplýsa ekki um árlega hlutfallstölu kostnaðar í bæklingnum.
SAMKEPPNISRÁÐ hefur komist að þeirri niðurstöðu að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) hafi í auglýsingabæklingi sínum um langtímalán brotið gegn ákvæðum laga um neytendalán með því að upplýsa ekki um árlega hlutfallstölu kostnaðar í bæklingnum.

Samkeppnisráð athugaði málið í kjölfar erindis Neytendasamtakanna á síðasta ári. Samtökin töldu að í bæklingi SPRON með fyrirsögninni: "Tilboð á langtímalánum", hafi lánveitandi ekki veitt upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar á starfsstöð sinni, en í 13 gr. laga um neytendalán segir m.a. að á starfsstöð lánveitanda, svo og í auglýsingum og tilboðum, sé skylt að upplýsa um árlega hlutfallstölu kostnaðar við lánssamninga sem lögin taki til.

Samkeppnisráð telur að tilgangur lagagreinarinnar sé að tryggja neytendum sem greiðastan aðgang að upplýsingum um árlega hlutfallstölu kostnaðar. "Er það gert með því að lánveitendum er gert skylt að veita upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar bæði á starfsstöð og í auglýsingum," segir í greinargerð samkeppnisráðs. "Ef neytendalán eru auglýst er því ekki nægilegt að upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar liggi einungis fyrir á starfsstöð lánveitanda þó svo þær séu aðgengilegar fyrir neytanda. Ber því SPRON að upplýsa um árlega hlutfallstölu kostnaðar í auglýsingabæklingi sínum."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.