Neskaupstaður | Innan skamms verður hafist handa við endurgerð kaupfélagshússins í Neskaupstað, en fyrirhugað er að koma þar upp 15 leiguíbúðum. Kaupfélagshúsið er byggt árið 1948, stórt og mikið hús sem setur sterkan svip á umhverfi sitt. Það hefur þarfnast endurbóta að utan um nokkra hríð og ljóst að þessar framkvæmdir munu verða andlitslyfting fyrir miðbæ Neskaupstaðar.
Heppilegur tími núna
Það eru Tröllaborgir ehf. í eigu Magna Kristjánssonar og Sigríðar Sjafnar Guðbjartsdóttur, sem hyggjast breyta húsinu í leiguíbúðir, en síðustu ár hafa verið þar gistiheimili og Tryggvasafn. Gistiheimilið er aflagt en Tryggvasafni hefur verið fundinn annar staður.Að sögn Magna var léleg nýting á þessu stóra húsi og eins og staðan er í dag þá bráðvantar leiguíbúðir í Neskaupstað. "Það var því mat allra að þetta væri heppilegur tími," sagði Magni í samtali við fréttaritara.
Íbúðirnar tilbúnar um næstu áramót
Fyrirhugað er að hefja framkvæmdir eftir páska og ráðgert að ljúka þeim og útleigu um næstu áramót. Nú þegar er töluvert spurt um íbúðirnar hjá Magna og segir hann að það líði varla sá dagur að ekki sé spurt um íbúðir, sérstaklega litlar íbúðir.Byggingarkostnaður er áætlaður um 150 milljónir og er verkið að mestu fjármagnað af Íbúðalánasjóði, sem lánar 90% af byggingarkostnaði. Það fé fæst hins vegar ekki fyrr en að byggingartíma loknum. Nýlega gerðu Tröllaborgir ehf. og Frjálsi fjárfestingarbankinn með sér samning um fjármögnun á byggingartíma og því ekkert að vanbúnaði að hefjast handa. Það er Þormóður Sveinsson arkitekt sem hannar áætlaðar breytingar en húsið var hannað á sínum tíma af Árna Hoff-Möller og Þóri Baldvinssyni arkitektum.