8. apríl 2004 | Viðskiptablað | 1118 orð

Að eyða í þróun

George Soros hefur ritað áhugaverða bók um hnattvæðingu og þróunaraðstoð sem þó er ekki fyllilega sannfærandi.

HNATTVÆÐING hefur aukist til muna undanfarin ár.
HNATTVÆÐING hefur aukist til muna undanfarin ár. Þó svo að fólk almennt vanmeti þau hnattvæddu ferli sem voru til staðar fyrr á öldum (fyrri heimstyrjöld og kreppan mikla á fjórða áratugnum drógu mjög úr samtengingu heimsins) þá hefur tæknin gert það kleift að upplýsingastreymi er stöðugt að aukast. Þegar áhrif netbyltingarinnar náði hámarki í upphafi þessarar aldar var mikið rætt um að þróun heimsins væri á þá leið að um eitt nokkurskonar alheimsþorp væri að ræða þar sem allir væru meira og minna tengdir. Þetta tengdist bæði menningu og félagslegum áhrifum.

Einn af þeim mönnum sem hafa veitt hnattvæðingu sérstaka athygli er hinn þekkti fjárfestir George Soros. Bakgrunnur hans sem ungverskur gyðingur sem upplifði þá ógnaröld sem ríkti í Evrópu á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar endurspeglar hans líf: Mikil útsjónarsemi og áhætta í viðskiptum, sem hefur veitt afskaplega góða ávöxtun í gegnum tíðina, og vilja til að láta gott af sér leiða. Soros hefur ekki aðeins skapað miklar fjárhæðir í gegnum fjárfestingar sínar, hann hefur einnig verið einn af mestu styrktaraðilum heimsins til góðgerðarmála, meðal annars þróunarmála. Hann ætlaði sér upphaflega að verða heimspekingur og hefur kallað sjálfan sig misheppnaðan heimspeking. Það er því ef til vill ekki furða að hann hafi myndað sér skoðanir á því hvernig best væri að láta gott af sér leiða með tilliti lögmála fjármálamarkaða, enda hefur hann bæði reynslu við öflun fjár, að ávaxta það með frábærum hætti og hvernig best sé að eyða því í verkefni tengd þróunarhjálp.

Slíkar vangaveltur er kjarni bókar hans sem hann nefnir án minnimáttarkenndar George Soros on Globalization. Fyrsta hluta bókarinnar ver Soros að mestu, eins og flestum heimspekingum er tamt, til að útskýra helstu forsendur sem hann vinnur rök sín út frá auk skýringa á hugtökum sem hann telur séu nauðsynleg. Fyrsta skýringin lýtur einmitt að hugtakinu hnattvæðing; en Soros takmarkar það við frjálst flæði fjármagns og aukin völd hagkerfa með aðstoðar fjármálamarkaða og alþjóðlegra fyrirtækja. Hann bendir á að flæði fólks sé í reynd enn takmarkað á milli landa og ef menning og samskiptatækni sé bætt við skilgreininguna verði hún fullvíðtæk. Soros leggur áherslu á þá skoðun sína að hnattvæðing sé af hinu góða; hún eykur hagvöxt betur en miðstýring stjórnvalda (sem oft eru spillt) getur gert og leiðir auk þess til frekara frjálsræðis meðal þegna heimsins. Soros bendir hins vegar einnig á þá þætti hnattvæðingar sem eru neikvæðir. Vanþróuð ríki hafa oft verið helstu fórnarlömb neikvæðra áhrifa hnattvæðingar, bæði hvað varðar veikburða stöðu þeirra í alþjóðasamfélagi og þá staðreynd að þau lenda almennt í mestu hremmingunum þegar fjármálakreppur ríða yfir. Hnattvæðing hefur einnig stuðlað að misskiptingu auðs milli sérstakra hópa og almennings í heild. Nefnir hann til dæmis neikvæð umhverfisáhrif sem geta komið til vegna ásóknar í hagnað sem fáir njóta. Soros er í þessu tilliti afar gagnrýninn á Bandaríkin sem veita í dag 0,1% af vergri landsframleiðslu til þróunarmála, en sem dæmi má nefna að Ísland veitir um tvöfalt hærra hlutfall. Nýleg skýrsla um utanríkismál kveður á um að Ísland auki það hlutfall í 0,35% á árunum 2008 til 2009 til að nálgast takmark Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki veiti 0,7% til málefnisins.

Helstu atriðin sem Soros telur hafi staðið þróunarhjálp fyrir þrifum eru eftirfarandi: Þróunarhjálp hefur almennt hagsmuni þeirra sem veita aðstoð efst í huga, ekki viðtakendur. Dæmi um slíkt tengist oft landfræðilegum og pólitískum atriðum. Þiggjendur þróunarhjálpar eignast sjaldnast það sem framkvæmt er eða hannað við þróunarhjálp. Þeir sem veita hjálpina fara oftast fram á það að þeirra fólk sjái um framkvæmd. Því myndast sjaldnast þekking á framkvæmdum hjá þiggjendum. Þróunarhjálp fer oft í gegnum ríkisstjórnir, sem sumar hverjar nýta fjármuni illa. Í verstu tilfellum verður þróunarhjálp þeirra helsta tekjulind, nýtt í þeirra eigin þágu. Að lokum er lítið út úr því að hafa að taka áhættu við þróunarhjálp samanborið við þá áhættu sem fylgir fyrirtækjarekstri. Erfitt er að mæla velgengni en mistök geta fljótt orðið augljós.

Soros eyðir of mörgum orðum í lausn á vandanum sem hægt er að draga saman í nokkrum setningum. Lausn hans felst í því að auðug ríki leggi fé í púkk. Úr þeim potti geta fátæk ríki öðlast heimildir til lántöku (í sumum tilfellum gætu ríki eingöngu fengið heimild en ekki lán en þá veita heimildirnar betra lánstraust fyrir ríkin) að því gefnu að þau fylgi ákveðnum stöðlum og að fjármagninu sé aðeins varið í fyrirfram samþykkt verkefni. Slík verkefni yrðu í fyrstu takmörkuð við málefni eins og heilsugæslu og menntun. Þessu yrði stýrt af stjórn innan Alþjóða gjaldeyrissjóðsins sem væri kosin með hliðsjón af menntun og reynslu þeirra. Stjórnin væri óháð þeim ríkjum sem tilnefndu einstaklingana og verkefni hennar væri fólgið í því að samþykkja verkefni og benda á forgangsverkefni. Af þeim verkefnum sem stjórnin kæmi fram með gæti hver ríkisstjórn kosið til hvaða verkefnis hún teldi að framlagi sínu væri best varið. Soros leggur áherslu á að slík verkefni væru að mestu gerð í samvinnu við heimafólk þannig að þekking og hvati til verkefnisins sé fyrir hendi frá upphafi til enda. Með þessu móti ráða ákveðin markaðslögmál för varðandi nýtingu fjármagns og mörg vandamál tengd þróunarhjálp minnka stórum. Soros bendir á sína reynslu varðandi mörg verkefni sem hann hefur sjálfur styrkt þessu til sönnunnar.

Þetta eru áhugaverður tillögur en skortir ákveðnar útfærslur út frá núverandi aðstæðum. Sú spurning læðist þó að manni við lestur bókarinnar af hverju ekki sé fyrir löngu búið að gera þetta fyrst þetta er svona einfalt. Soros tekst lítið, til að mynda, á við þá staðreynd að þróunarhjálp virðist hafa fengið sitt eigið líf þar sem margir ólíkir hagsmunir eru í veði. Hvernig ætlar hann að breyta því? Auðvitað hlýtur það að vera eðlilegt og skilvirkast að heimamenn vinni og stjórni verkefnum og furðulegt í raun að slíkt sé ekki raunin. Það sem vantar að mínu mati hjá Soros er af hverju þetta hafi ekki verið gert í meira mæli. Hagsmunir hverra liggja þar að baki? Í stað þess að takast á við þessi vandamál, sem eru orðin rótgróin innan þróunarhjálpar, leitast Soros við að ýta þeim til hliðar með tillögum sínum án þess að lesandinn sannfærist um endanlegan árangur. Auk þess má segja að sumar hugmyndir hans séu ekki raunhæfar. Þróunarhjálp hlýtur alltaf að snúa að ákveðnu leyti um pólitík vegna þess að hún snýst um dreifingu auðs og valds, hvernig á að gera slíkt eru í eðli sínu pólitísk málefni. Það að hann geti sjálfur stýrt fjármagni sínu í verkefni er tæpast samanburðarhæft við að kljást við þá pólitík sem fylgir alþjóðlegum stofnunum. George Soros on Globalization er áhugaverð lesning um þann vanda sem þróunarhjálp og vanþróuð ríki standa frammi fyrir vegna aukinnar hnattvæðingar. Betri ritstýring hefði þó brotið rök Soros betur til mergjar, bæði kosti og galla, og gert bókina að heilsteyptara riti.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.