Þau André og Kristín voru að koma úr gjánni, endurnærð og ánægð.
Þau André og Kristín voru að koma úr gjánni, endurnærð og ánægð. — Morgunblaðið/BFH
Hiti hefur lækkað það mikið í Grjótagjá að fólk er farið að reyna að baða sig í henni á ný. Hiti í gjánni hækkaði svo mikið í Kröflueldum að útilokað var að baða sig þar. Hitastig vatnsins fór upp í 60 gráður.

Hiti hefur lækkað það mikið í Grjótagjá að fólk er farið að reyna að baða sig í henni á ný. Hiti í gjánni hækkaði svo mikið í Kröflueldum að útilokað var að baða sig þar. Hitastig vatnsins fór upp í 60 gráður. Fara þarf þó með varúð í gjánni, bæði vegna hita og hrunhættu.

Á seinni hluta síðustu aldar, eða frá því fyrir 1950 og fram til 1977, var afar vinsælt meðal heimamanna og gesta að baða sig í Grjótagjá en svo nefnist mikil hraunsprunga sem er hluti af gliðnunarbelti því sem liggur um Mývatnssveit austanverða, frá norðri til suðurs. Á þessu sprungubelti eru einmitt skilin þar sem mætast Ameríka og Evrópa samkvæmt kenningu Wegeners hins þýska. Þarf engan að undra þó þar sé ylur undir.

Grjótagjá hefur þá náttúru að um hana rennur verulegt magn af heitu vatni. Á nokkrum stöðum er hægt að komast að vatninu til baða. Sá var þó hængur á að í umbrotum Kröfluelda frá 1975 þá hitnaði vatnið í gjánni þannig að ógerlegt var að baða sig þar eftir 1977 þegar vatnshiti fór í 60°C. Einnig var hætta mikil á grjóthruni þegar jörð hristi sig. Á síðustu árum hefur hitnun gengið smám saman til baka og nú á útmánuðum er fólk aftur farið að harka sér ofan í gjána. Staðir þeir þar sem fært var ofan í vatn nefndust karlagjá og kvennagjá. Segir það sína sögu af siðprýði Mývetninga að kynin voru aðgreind í gjánni. Nú er vatnið í karlagjánni um 47°C heitt en í kvennagjánni um 42°. Þriðja opið þekkja fáir nema af afspurn en þar er hiti sagður lægstur. Sýna verður mikla aðgát ef menn vilja baða sig í Grjótagjá því stórgrýtisurð er þar yfir og undir og allt um kring og veruleg hrunhætta. Á staðnum er ekki snyrting eða búningsaðstaða, né ljós. Vegslóðin að gjánni er auk þess frekar slæm. Vegagerðin mun þó stefna að lagfæringu í sumar.

Mývatnssveit. Morgunblaðið.