Einhvers konar paradís Styrkurinn liggur í einfaldleika.
Einhvers konar paradís Styrkurinn liggur í einfaldleika. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SAMHÆFING og miðstýring virðist vera að aukast hér á landi á sama tíma og samkeppnisstaða landa, sem íslensk alþjóðafyrirtæki starfa í, er að styrkjast með ýmsum einföldunum í skattkerfi og rekstrarumhverfi.

SAMHÆFING og miðstýring virðist vera að aukast hér á landi á sama tíma og samkeppnisstaða landa, sem íslensk alþjóðafyrirtæki starfa í, er að styrkjast með ýmsum einföldunum í skattkerfi og rekstrarumhverfi. Þetta kom fram í máli Þórs Sigfússonar, framvæmdastjóra Verslunarráðs Íslands, á morgunverðarfundi ráðsins á Grand hóteli í gær þar sem rætt var um samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Þór sagði að Íslendingar hefðu gott tækifæri til að verða áfram með einstaklega skilvirkan vinnumarkað og samkeppnishæft rekstrarumhverfi en einnig væri hægt að glutra niður þessu forskoti, eins og hann orðaði það. Þór sagði einnig að stjórnkerfið hér á landi virtist nú vera neikvæðara fyrir umbótum á rekstrarumhverfi fyrirtækja en áður. "Nú er í algleymingi að setja þurfi lög á viðskiptalífið en ekki létta því lífið enn frekar. Skilaboðin eru því þau að nóg sé að gert fyrir fyrirtækin með lækkun tekjuskattsins [niður í 18%] og nú þurfi aðeins að setja lög til að hemja fyrirtækin. Þetta þýðir að þegar fulltrúar viðskiptalífsins heimsækja stjórnarráðið er eins og þar séu á ferð ofdekruð börn sem skynji ekki sínar takmarkanir.

Þessi mótbyr gagnvart íslensku viðskiptalífi á sér stað á sama tíma og ýmis samkeppnislönd okkar sem hingað til hafa ekki verið samkeppnishæf við Ísland eru á miklu flugi að koma á umbótum í skattamálum sem m.a. miða að því að auka alþjóðavæðingu," sagði Þór.

Þór kom í máli sínu einnig að gamla embættismannakerfinu eins og hann kallaði það, sem m.a. starfaði oft beinlínis gegn viðskiptalífinu í skattamálum o.fl. að hans sögn. "Verslunarráð hefur bent á að gamla kerfið kunni að vera að vakna til lífsins að nýju og hlakki til þess að taka upp gamla siði sem einkenndust af hroka gagnvart fyrirtækjastarfseminni. Í þessu sambandi má nefna þau viðhorf sem nýverið komu fram í skattkerfinu um mammonsdýrkun viðskiptalífsins og skattasniðgöngu."

Paradís einfaldleikans

Pétur H. Blöndal alþingismaður sagði á fundinum að heilmikið verk væri að vinna hvað varðaði skattalegt umhverfi fyrirtækja á Íslandi. Í alþjóðlegu tilliti sagði Pétur að styrkur Íslands varðandi samkeppnisstöðu landsins lægi í hraðvirkri og sveigjanlegri löggjöf og einföldu hagkerfi. "Markmiðið er að búa til rökrétt og mótsagnalaust kerfi sem er heiðarlegt og sanngjarnt en samt einfalt. Það er ekki markmiðið endilega að búa til skattaparadís heldur að búa til paradís einfaldleikans," sagði Pétur.

Raunskattar yfir 30%

Bjarnfreður Ólafsson, lögmaður hjá lögmannsstofunni Taxis, sagði á fundinum að þrátt fyrir að tekjuskattur á fyrirtæki hefði verið lækkaður í 18% hér á landi gerði ýmis konar takmörkuð skattskylda það að verkum að heildarskattbyrði erlendra fyrirtækja hér á landi væri jafnmikil og oft hærri en í ríkjunum sem við helst kepptum við. "Raunskattbyrði þeirra hér á landi er 30,3% en sem dæmi þá er upphæðin á Írlandi 12,5%. Í Bretlandi er upphæðin 30%," sagði Bjarnfreður. Hinir takmörkuðu skattar sem Bjarnfreður talar um eru afdráttarskattar sem erlendir aðilar þurfa að sæta og leggjast á arð, söluhagnað, þóknanir, laun og fleira. Þessir skattar eru, að því er fram kom í máli hans, eitthvað sem önnur lönd, sem Ísland ber sig saman við, eru að leggja af eða takmarka. Sagði Bjarnfreður að í þessu ljósi væri 18% skattprósentan ekki svo glæsileg lengur. "Fjárfestar horfa ávallt á heildarmyndina við ákvarðanir sínar og skattareglur skipta miklu máli við ákvarðanatöku þeirra. Fjárfestar líta heildstætt á allan skattkostnað, en ekki bara tekjuskattsprósentuna."

Ísland 5. versta landið

Bjarnfreður vitnaði í máli sínu í úttekt sænska dagblaðsins Dagens Industri þar sem fram kom að Ísland væri fimmta versta fjárfestingalandið innan OECD með tilliti til skattareglna. Bjarnfreður auglýsti á fundinum eftir frumkvæði Íslands í að laða hingað erlenda fjárfesta. Nú væru önnur lönd að skjóta okkur ref fyrir rass, háskattalönd eins og Noregur og Svíþjóð. "Þessi lönd boða skýra stefnu við að auðvelda fjármagnsflutninga á milli landa og þau ýta undir beinar og óbeinar fjárfestingar með breyttum skattareglum." Að lokum sagði Bjarnfreður að auðvelda ætti innlendum aðilum að beina fjárfestingum sínum til útlanda, svo og að koma fjármagninu heim til endurfjárfestinga og/eða ávöxtunar og fá endanlega skattlagningu fjármagnsins hér á landi.