Guðrún  M.  Guðmundsdóttir
Guðrún M. Guðmundsdóttir
Fátt bendir til þess að eðli karla sé orsök nauðgana heldur virðast menning og vald vera orsök þeirra. Mannfræðileg samanburðarrannsókn á hefðbundnum samfélögum hefur sýnt að yfirráð karla yfir konum eru hvorki algild né alheimsleg heldur menningarmótuð.
Fátt bendir til þess að eðli karla sé orsök nauðgana heldur virðast menning og vald vera orsök þeirra. Mannfræðileg samanburðarrannsókn á hefðbundnum samfélögum hefur sýnt að yfirráð karla yfir konum eru hvorki algild né alheimsleg heldur menningarmótuð. Jafnræði milli kynja einkennir þau samfélög þar sem nauðganir eru sjaldgæfar en það sem einkennir hin eru sterk yfirráð karla.

Þetta er meðal niðurstaðna í M.A.-ritgerð Guðrúnar M. Guðmundsdóttur mannfræðings sem ber tilitilinn Af hverju nauðga karlar? Þar segir einnig að menning karla þar sem áhersla er lögð á árásargirni, styrk, harðneskju, yfirráð, á mikilvægi þess að sigra, að vera æðri, stjórna o.s.fr.v. séu nauðganir einfaldlega sterkustu birtingarmyndir þessara hugmynda.

Nauðganir sem kynbundið menningarfyrirbæri

Guðrún segist hafa gengið út frá þeirri hugmyndafræði í ritgerðinni að nauðgun sé eitt birtingarform kynjamisréttis. "Ég skoðaði nauðganir sem kynbundið menningarfyrirbæri og það er kynbundið af því að það eru karlmenn sem nauðga og menningarfyrirbæri þar sem segja má að þær séu "félagsleg athöfn".

Það er mjög mismunandi á milli samfélaga hversu algengar nauðganir eru. Spurningin sem ég reyndi að svara var hvað það væri í menningunni sem veldur því að sumir karlar við sum tækifæri langar til, ákveða og gera það að veruleika að nauðga konu."

Guðrún minnir á að við sem félagsverur gerum okkur ekki grein fyrir í hvers konar samfélagi við búum og af hverju við hegðum okkur á ákveðinn hátt vegna þess að við erum samdauna menningu samfélagsins. "Marx sagði einmitt að fiskurinn sem syndir í sjónum sjái ekki sjóinn sem hann syndir í. Því rannsakaði ég hvað þetta er sem við sjáum ekki og þess vegna ákvað ég að nota valdakenningar því þær snúast um það að skoða á bak við það sem við sjáum ekki. Það er auðvitað ákveðin samsömun á milli þess sem við hugsum og þess sem er hlutbundið í samfélaginu, s.s. lög, stofnanir, trúarbrögðin - allt það sem stýrir menningu okkar og við getum lagt hendur á svo að segja."

Jafnrétti í orði en ekki á borði

Í niðurstöðum Guðrúnar kemur fram að frelsisbarátta 19. aldar hafi skilað konum mikilvægum réttindum þótt staða þeirra hafi ekki orðið jöfn á við karla. "Af þróun laganna í tímans rás," segir Guðrún, "má sjá að konan var áður álitin eign karla en öðlaðist síðan aukið einstaklingsfrelsi. Hugmyndin um konuna sem eign virðist hafa umbreyst með tímanum í skilgreiningavald á því hvaða kona nýtur refsiverndar og hvaða kona ekki."

Í ritgerðinni skoðaði Guðrún sérstaklega karlmennskuímyndina og ofbeldismenningu karla og ræddi m.a. við unga íslenska karlmenn og greindi hvernig sjálfsmynd þeirra mótast út frá hugmyndum um karlmennsku.

"Menning karla er samofin ofbeldi, þeir fremja flest morð, líkamsárásir og sjálfsmorð. Þeir bera ábyrgð á stríðum og ofbeldið normaliserað, sérstaklega innan íþrótta, hernaðar og alþjóðaviðskipta. Hin karllægu yfirráð sem, greipt eru í tilveruna móta menningu karla, sjálfsímynd og hegðun þeirra, ýmist út frá því hvort þeir hafa aðgang að valdi, finnist þeir eigiað hafa það eða þá að þeir séu reiðir yfir að hafa það ekki."

Guðrún komst að þeirri niðurstöðu að lykillinn að svarinu við spurningunni af hverju karlar nauðga sé kynverund (e. sexuality) karlmanna og svo ofbeldishegðun þeirra.

"Yfirráð eru greipt í kynverund karla og útskýra af hverju einkenni á borð við drottnun og stjórnsemi þykja aðlaðandi og erótísk í fari þeirra. Á sama hátt er undirgefni greipt í kynverund kvenna en hlutgerving kvenna er einmitt afleiðing þess að yfirráð séu greipt í kynverund karla og undirgefni í kynverund kvenna."

Guðrún segir að í svörum við rannsóknarspurningum hafi komið fram að stúlkur/konur sem klæði sig á kynferðislega ögrandi hátt séu álitnar senda ákveðin skilaboð með klæðaburðinum. Vegna undirgefnisstöðu kvenna sækist sumar þeirra eftir völdum á þennan hátt en völdin séu með skilyrðum að karlar samþykki þau.

"Það er þeirra að skilgreina skilaboð með klæðnaðinum. Karlar sem hafa áhuga á að nauðga konum geta því skilgreint og túlkað aðstæður sér í hag og valið þá réttlætingu sem hentar þeim best."

Guðrun segir að í viðtölum við unga bandaríska karla hafi kynferðisleg hlutgerving kvenna komið greinilega í ljós. "Myndlíkingar á borð við: kynlíf er árangur, kynlíf er það að vera þjónað af konu, og kynlíf er veiði eru notaðar til að lýsa ólíkum hlutverkum kynjanna í kynlífi. Kynlíf er sem sagt eitthvað sem karl þarfnast og kona sinnir."

Guðrún bendir á að í viðtölum við karla í Bandaríkjunum sem hafa nauðgað segi þeir að nauðgunin hafi sprottið af löngun í kynlíf, aðallega vegna þess að fórnarlambið hefði ögrað þeim með útliti sínu, þá hafi langað til þess, þeim hafi ekki fundist neitt athugavert við það og þeir teldu ólíklegt að þeim verði refsað fyrir. "Þegar öllu er á botninn hvolft eru nauðganir skiljanlegar menningarbundnum gildum. Í menningu karla þar sem áhersla er lögð á árásargirni, styrk harðneskju, yfirráð og samkeppni og skilningur ríkir á mikilvægi þess að sigra, að vera æðri, að drottna og að stjórna, er ekkert dularfullt við nauðganir því þær eru einfaldlega sterkar birtingarmyndir þessar hugmynda," segir Guðrún.