Rakstur: Eiríkur Þorsteinsson rakari segir að meginreglan sé að skafa undan skeggvextinum, en hafa ber í huga að skeggvöxturinn getur þó verið mismunandi eftir hvort um vanga, höku eða háls er að ræða.
Rakstur: Eiríkur Þorsteinsson rakari segir að meginreglan sé að skafa undan skeggvextinum, en hafa ber í huga að skeggvöxturinn getur þó verið mismunandi eftir hvort um vanga, höku eða háls er að ræða. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Til að tryggja góðan rakstur er allra mikilvægast að hita húðina vel áður en raksturinn hefst, að sögn Eiríks Þorsteinssonar, rakara og eiganda rakarastofunnar Greifans við Hringbraut í Reykjavík.

Til að tryggja góðan rakstur er allra mikilvægast að hita húðina vel áður en raksturinn hefst, að sögn Eiríks Þorsteinssonar, rakara og eiganda rakarastofunnar Greifans við Hringbraut í Reykjavík.

Karlmenn þurfa að prófa sig áfram með rakvélar og raksápu og flestir bera nú á sig rakakrem eftir rakstur en rakspírinn er á undanhaldi. "Og núorðið fá menn jafngóðan rakstur heima hjá sér og á rakarastofu, en það er náttúrulega mjög þægilegt að láta raka sig á rakarastofu." En nú kemur varla nokkur maður og biður um rakstur á rakarastofu eins og algengt var áður fyrr.

Hátt verð á rakvélablöðum var ein af helstu ástæðum þess að karlmenn fóru í eina tíð til rakarans að láta skerða skeggið, auk þess sem rakhnífarnir hjá rakaranum voru flugbeittir og mun betri en rakvélablöðin sem þá voru á markaði. Eiríkur hefur starfað sem rakari frá árinu 1967 og var einn af þeim síðustu sem lærðu að brýna raknhníf því um þetta leyti lækkuðu rakvélablöð mikið í verði og urðu betri.

Brennivínsflöskubrýni

Hann segir að karlmenn hafi beitt ýmsum brögðum til að halda biti í rakvélablöðunum heima hjá sér, m.a. að brjóta brennivínsflösku með sérstökum hætti og brýna hnífinn svo á glerbrotinu. "Þeir brutu þá ofan af brennivínsflösku og bundu svo bómullarsnæri vætt í bensíni um neðri hlutann og kveiktu í. Þá klofnaði flaskan í sundur og gott brýni varð til," segir Eiríkur.

Engar slíkar kúnstir þarf til nú á dögum þegar hillur stórmarkaðanna eru fullar af Turbo, Excel, Mach3, Twin og fleiri framúrstefnulegum nöfnum á rakvélablöðum eða einnota rakvélum, sem hver og einn getur valið úr og kippt með sér. Rakvélablöð þróast eins og allt annað og stöðugt er reynt að setja á markað rakvélar sem gefa æ dýpri rakstur.

Eiríkur segir að það nýjasta á markaðnum sé Mach3 Turbo frá Gillette og það noti hann sjálfur þegar hann rakar sig. Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða þrefalt rakvélarblað þar sem hvert kemur á eftir öðru yfir sama svæðið og gefur því dýpri rakstur. Sumir raka sig á þennan hátt að staðaldri, aðrir með einnota raksköfum og enn aðrir með rafmagnsrakvél. Allt getur hentað, að sögn Eiríks, því húðgerð og skeggrót er mismunandi.

"Sumir eru með viðkvæma húð og þola ekki daglegan rakstur. Þeir raka sig þá kannski annan hvern dag með sköfu en hinn daginn með rafmagnsrakvél. Rafmagnsrakvél gefur ekki eins djúpan rakstur og getur því hentað þeim sem eru með viðkvæma húð," segir Eiríkur.

Meginreglan, að hans sögn, er að skafa undan skeggvextinum, þ.e. ekki á móti, en hafa ber í huga að skeggvöxturinn getur þó verið mismunandi eftir hvort um vanga, höku eða háls er að ræða. Og svo eru sumir með svokallaða snarrót, þ.e. nokkurs konar hvirfil eða sveip og geta átt erfitt með rakstur þess vegna. Tilgangurinn með notkun raksápu er að halda hitanum í húðinni og nú inniheldur raksápa oft mýkjandi efni að auki. Ekki er nauðsynlegt fyrir alla að nota raksápu. Margir nota olíu og aðrir alls ekkert annað en vatn, þ.e. raka sig í sturtu eða nýkomnir úr henni. Hitinn í húðinni er það allra mikilvægasta fyrir góðan rakstur, ítrekar Eiríkur rakari.

steingerdur@mbl.is