6. maí 2004 | Viðskiptablað | 1074 orð | 1 mynd

Túlípanaæðið

Markaðir eru yfirleitt skilvirkir en stundum verður skilvirknin múgsefjun að bráð

— Morgunblaðið/Kristinn
ALMENNT er sagt að verðbréfamarkaðir séu skilvirkir.
ALMENNT er sagt að verðbréfamarkaðir séu skilvirkir. Með skilvirkni er átt við að flestar þær upplýsingar sem eru fyrir hendi endurspeglist í gengi verðbréfa að því marki að nánast er ómögulegt fyrir fjárfesta að gera betur til lengri tíma en markaðurinn í heild. Því byggist heilbrigð fjárfestingarstefna á því einu að dreifa áhættu verðbréfasafna skynsamlega, val einstakra verðbréfa í þeim hefur litla þýðingu.

Flestir þeirra sem halda því fram að markaðir séu almennt skilvirkir játa hins vegar að tímabil eiga sér stað þegar skilvirkni markaða verða múgsefjun að bráð. Litlu máli virðist skipta á tímum múgsefjunar hversu vel einstaklingar þekkja lögmál markaðarins og hversu skynsamir þeir eru almennt. Í hópum umskiptast margir og fylgja trú hópsins, sama hversu óraunhæf sú trú er undir venjulegum kringumstæðum. Í bókinni Extraordinary Popular Delusions & the Madness of Crowds lýsir höfundurinn, Charles Mackay, í formála útgáfunnar árið 1852 slíkri þróun á þessa leið: Menn, því hefur verið vel lýst, hugsa sem hjarðdýr; það mun koma á daginn að þeir verði vitfirrtir í hjörðum, aðeins til að ná aftur fyrri skynsemi hæglega, einn í einu. Þessi bók, sem kom upphaflega út árið 1841, er eitt af helstu sígildum ritum um múgsefjanir. Fjallað er um margvísleg form múgsefjunar, en það sem er ef til vill áhugavert fyrir þá sem láta sig fjármál varða er að þrjár sögur bókarinnar tengjast verðbréfabólum. Það er nefnilega svo að auðveldur gróði er ein helsta auðlind múgsefjunar. Hver hefur til dæmis ekki kynnst keðjubréfum?

Nú þegar vor er í lofti er vert að lýsa stuttlega einni frásögn Mackay, The Tulipomania, en hún lýsir æði tengdu túlípönum í Hollandi sem náði hámarki árin 1634 til 1636. Margir kannast við túlípana í tengslum við Holland, iðulega mynd af stúlku í klossum með túlípana og vindmyllur í bakgrunni. Það mætti því segja að túlípani sé þjóðarblóm Hollendinga. Túlípanar komu til Vestur-Evrópu um miðja sextándu öld frá Tyrklandi, en orðið túlipani er dregið af tyrkneska orðinu túrbani. Ekki leið á löngu þangað til aðalsstéttin í Hollandi tók þessa jurt upp á sína arma. Árið 1634 var það orðið svo að það þótti vera merki um ósmekklegheit í aðalsstéttinni að eiga ekki safn túlípana. Ákafinn við söfnun túlípananna náði brátt einnig til miðstéttarinnar, sem greiddi í mörgum tilfellum fáránlegar fjárhæðir fyrir fágætt afbrigði túlípana. Þessi þróun varð svo áköf að almenn þjóðarframleiðsla í landinu var í lausum reipum því stór hluti landsmanna varði miklum hluta af tíma sínum í að versla með túlípana.

Í fangelsi fyrir laukátið

Mackey fjallar einnig um spaugilegar birtingarmyndir þessa æðis. Þeir sem var ekki kunnugt um þetta æði og áttu leið til Hollands lentu ósjaldan í vandræðum. Þekkt saga er um sjómann sem kom skilaboðum áleiðis til verslunarmanns um að mikilvæg sending væri komin til hafnar. Verslunarmaðurinn sýndi þakklæti sitt með því að bjóða sjómanninum til morgunverðar og á boðstólum var dýrindis síld. Á leiðinni út, eftir að hafa borðað nægju sína, greip sjómaðurinn lauk sem var á borðinu meðal silkis og flauels, vafalaust haldið að hann hefði færst úr stað. Ekki leið á löngu þangað til að verslunarmaðurinn uppgötvaði að verðmæti laukurinn hans var horfinn og dauðaleit hófst án árangurs. Eftir töluverða leit datt einhverjum sjómaðurinn í hug. Farið var út um strætin í leit að sjómanninum sem átti sér einskis ills von. Ekki leið á löngu áður en hann fannst tyggjandi síðustu bita lauksins sem passaði svo vel með síldinni. Hann óraði ekki fyrir því að hann hafði rétt í því klárað morgunmat sem kostaði álíka og að fæða heila skipsáhöfn í heilt ár. Manngreyið fékk kæru frá verslunarmanninum og lenti í fangavist í nokkra mánuði.

Æðið hélt endalaust áfram fram til ársins 1636. Í ársbyrjun voru túlípanamarkaðir starfandi í nokkrum borgum og merki á lofti um að áhættuspil í tengslum við túlípana væru í algleymingi. Margir einstaklingar urðu skyndilega ríkir. Hópar einstaklinga flykktust á túlipanamarkaðina eins og mý á mykjuskán. Allir töldu að eftirspurn eftir túlípönum yrði endalaus og að efnaðir einstaklingar víðs vegar úr heiminum kæmu til með að senda pantanir sínar eftir túlipönum til Hollands og borga fyrir hvaða verð sem beðið væri um. Fólk úr öllum stéttum tók þátt í leiknum; margir seldu aleigu sína á brunaútsöluverði til að geta fjárfest í túlípönum. Í fyrstu smituðust sumir útlendingar af æðinu og fjármagn streymdi inn til Hollands. Það leiddi svo aftur til hækkandi húsnæðisverðs og annarra vara í nokkra mánuði, sem jók enn bjartsýni fólks um framtíðina. Alls staðar fór raunar daglegt líf Hollendinga að snúast meira og minna í kringum túlípana.

Sviknir túlípanasamningar

Að endingu varð sumum það ljóst að þetta brjálæði gæti ekki varað að eilífu. Ríka fólkið keypti ekki lengur túlípana til að rækta í görðum sínum heldur til að selja aftur með hagnaði. Augljóst þótti á afar skömmum tíma að einhver sæti uppi með stórt tap. Verðið á markaðnum hrundi og fór aldrei aftur upp. Keðjuverkun átti sér stað því margir höfðu tekið lán fyrir kaupum sínum sem þeir ekki gátu staðið við að greiða auk þess sem margir framvirkir samningar voru gerðir. Þegar kom að skuldadögum gátu margir ekki staðið við þá samninga. Fjöldi manna, sem aðeins nokkrum mánuðum áður töldu að fátækt í landinu heyrði fortíðinni að eilífu til, sat skyndilega uppi með nokkra lauka í höndunum sem enginn hafði lengur áhuga á. Virði túlípana féll um 90% á örfáum vikum. Mikil reiði greip um sig og ásakanir um svindl og pretti voru allsráðandi. Gjaldþrot urðu tíð, ekki síst hjá efnuðu fólki, og aðrir sem tímabundið höfðu unnið sig úr þrengingum sem voru þá daglegt brauð hjá flestum fóru aftur í sama farið. Þeir sem höfðu náð að hagnast földu hagnað sinn og komu honum áleiðis til Bretlandseyja. Ekki var þó nóg að hafa hagnast á pappírnum því fjöldi manna stóð aldrei við skuldbindingar sínar.

Reynt var með margvíslegum leiðum að fá menn til að standa við gerða samninga um túlípana. Til að forðast allsherjar upplausn ákváðu stjórnvöld að samningar gerðir í október og nóvember, þegar æðið náði hámarki, flokkuðust undir áhættuspil frekar en viðskipti og því væri ekki hægt að neyða menn til þess að standa við þá samninga. Afleiðingin af ævintýrinu var hins vegar sú að mikil kreppa reið yfir landið, sem Hollendingar voru lengi að vinna sig út úr.

Þetta er að sjálfsögðu eitt af þekktustu dæmum þess þegar skilvirkni markaðar með verðmæti fylgdi orðið frekar hrifnæmni fólks en verðnæmni. Aðrar sögur úr Extraordinary Popular Delusions & the Madness of Crowds tengdar fjármálabólum eru um Mississippi-áætlunina og suðursjávarbóluna. Þeim verða gerð skil hér síðar á árinu.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.