— AP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ATAL Behari Vajpayee, forsætisráðherra Indlands, gekk í gær á fund forseta Indlands, Abduls Kalam, og baðst lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína í kjölfar þess að ljóst varð að BJP-flokkur hans, flokkur þjóðernissinnaðra hindúa, hafði beðið ósigur í...

ATAL Behari Vajpayee, forsætisráðherra Indlands, gekk í gær á fund forseta Indlands, Abduls Kalam, og baðst lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína í kjölfar þess að ljóst varð að BJP-flokkur hans, flokkur þjóðernissinnaðra hindúa, hafði beðið ósigur í þingkosningum í landinu. Kalam forseti samþykkti afsögn Vajpayees en bað hann um að gegna embætti forsætisráðherra áfram tímabundið uns búið væri að mynda nýja stjórn.

Venkaiah Naidu, forseti BJP-flokksins, sagði að flokkurinn færi í stjórnarandstöðu eftir þennan óvænta kosningaósigur. "Við virðum ákvörðun þjóðarinnar," sagði hann. Kongress-flokkurinn hefur þegar lýst því yfir að farið verði fram á það við Kalam forseta að hann fái umboð til stjórnarmyndunar, nú þegar ljóst sé að ríkisstjórn Vajpayees sé fallin.

Talið var líklegt að forystusveit Kongress fundaði í gær um hver skyldi verða forsætisráðherraefni flokksins og þótti líklegt að Sonia Gandhi, 57 ára gömul ekkja Rajivs Gandhi, fyrrverandi forsætisráðherra Indlands, yrði fyrir valinu. "Allir starfsmenn flokksins vilja það, forysta flokksins vill það. Nú þarf hún bara að ákveða hvort hún vill verða forsætisráðherra," sagði einn forystumanna Kongress.

Sjálf vildi Gandhi hins vegar ekki taka af skarið í þessum efnum er hún hitti blaðamenn í gær.

Þurfa stuðning minni flokka

Indland er fjölmennasta lýðræðisríki heiminum. Næstum 380 milljónir manns greiddu atkvæði í kosningunum en þær voru haldnar í nokkrum lotum á þriggja vikna tímabili. Ekki er búið að telja öll atkvæði en útgönguspár benda til að Kongress og samstarfslokkar hans fái fleiri atkvæði en Vajpayee og bandamenn BJP-flokksins.

Þegar er ljóst að Kongress og fylgisflokkar hans fá 198 þingsæti en 543 þingmenn sitja á indverska þinginu. BJP og bandamenn hafa á sama tíma ekki fengið nema 166 þingmenn kjörna. Kongress þarf 272 þingsæti til að hafa meirihluta á indverska þinginu og þykir sennilegt að Gandhi verði að leita til nokkurra lítilla, óháðra flokka til að geta myndað stjórn.

Í kosningabaráttunni beindu BJP og aðrir stjórnarflokkar mjög spjótum sínum að Gandhi. Kjósendur voru reglulega minntir á að hún væri útlendingur - Gandhi er ítölsk að uppruna - en allt kom fyrir ekki. Segja stjórnmálaskýrendur að stefna BJP í efnahagsmálum hafi hrakið marga fátækari kjósendur frá flokknum.

Nýju Delhí. AFP.