Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra veitti viðurkenningarnar fyrir hönd Brautargengis, námskeiðs Impru, til þeirra Sigrúnar Rafnsdóttur, sem er fyrir miðju á myndinni, og Elínar Ebbu Ásmundsdóttur.
Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra veitti viðurkenningarnar fyrir hönd Brautargengis, námskeiðs Impru, til þeirra Sigrúnar Rafnsdóttur, sem er fyrir miðju á myndinni, og Elínar Ebbu Ásmundsdóttur. — Morgunblaðið/ÞÖK
HLUTVERKASETUR, atvinnusköpun fyrir geðsjúka, hlaut aðalviðurkenningu Brautargengis, námskeiðs Impru fyrir konur sem luma á viðskiptahugmyndum.

HLUTVERKASETUR, atvinnusköpun fyrir geðsjúka, hlaut aðalviðurkenningu Brautargengis, námskeiðs Impru fyrir konur sem luma á viðskiptahugmyndum. Elín Ebba Ásmundsdóttir, iðjuþjálfi hjá Landspítala - háskólasjúkrahúsi, fór á námskeiðið til að hrinda hugmyndum sínum og samstarfsaðila í framkvæmd um aukinn sýnileika geðsjúkra í samfélaginu, og jákvæða valdeflingu.

"Við byggjum á reynslu geðsjúkra og þeirra viðhorfum, til hliðar við starf fagfólksins. Þetta hefur verið gert með góðum árangri erlendis, til dæmis í Bandaríkjunum og Ástralíu, en hefur ekki náð fótfestu enn hér á landi," útskýrir Elín Ebba. Hugmyndin byggist á hérlendri rannsókn og á víðtækri reynslu hér heima og erlendis.

Að sögn Elínar Ebbu er það mjög hvetjandi fyrir konur á öllum aldri að taka þátt í námskeiði Impru og fá þannig tækifæri til að þróa viðskiptahugmynd. "Margar konur, til dæmis hér á Landspítalanum, búa yfir mikilli þekkingu og reynslu, og eflaust mörgum hugmyndum sem þær ná ekki að hrinda í framkvæmd. Námskeiðið hjá Impru opnar leið fyrir þessar hugmyndir til brautargengis. Í þessum konum býr hugvit og sköpun sem ekki fær að njóta sín."

Elín Ebba hefur unnið að Hlutverkasetrinu í samstarfi við Auði Axelsdóttur, iðjuþjálfa hjá Heilsugæslunni í Reykjavík og Hugarafl, sem er hópur geðsjúkra í bata. "Þetta er hópur fólks sem vill hafa áhrif og ekki sitja þegjandi eftir að það hefur lokið meðferð við geðsjúkdómi sínum. Það vill hjálpa öðrum og það er afar gefandi að vinna með þessum hóp," segir Elín Ebba.

Hugmyndin er búin að vera í nokkurn tíma í vinnslu, og hefur Elín Ebba unnið með geðsjúkum í rúma tvo áratugi. Sömuleiðis hefur hún tekið þátt í uppbyggingu iðjuþjálfabrautar við Háskólann á Akureyri. "Ég hafði lengi leitað að svörum á raunverulegum vilja geðsjúkra. Í því sambandi nýtti ég mér eigindlegar rannsóknir og vann á þann hátt rannsókn um geðrækt geðsjúkra þar sem ég bað geðsjúka um að leggja mat á hvaða þættir hefðu helst átt þátt í að þeir náðu bata," útskýrir Elín Ebba.

"Þessi nálgun veitti alveg nýja sýn á málefni og meðferð geðsjúkra. Á sama tíma vann ég með Héðni Unnsteinssyni, sem hefur bakgrunn sem notandi og vildi hafa áhrif á geðheilsu allra Íslendinga og kom Geðræktinni á koppinn, og á sama tíma kynntist ég notendahóp í Þrándheimi sem sá um gæðaeftirlit á geðheilbrigðisstofnunum."

Geðveikt kaffihús gefur tóninn

Ein af hugmyndum Hlutverkaseturs er að setja á laggirnar svonefnt geðveikt kaffihús. "Geðveikt kaffihús byggist á þeirri hugmynd að geðsjúkir séu í framlínu hvað varðar þjónustu og rekstur kaffihússins í stað þess að vera í felum. Með þeim hætti má opna umræðuna um geðsýki á skemmtilegan hátt. Í kjölfarið getur fylgt margs konar önnur þjónusta, og ekki síst ráðgjöf til þeirra sem veikjast. Mjög margir geðsjúkir hafa unnið á ýmsum sviðum atvinnulífsins áður en þeir veikjast, og tækifæri eins og þetta gefur færi á að nýta þessa kunnáttu," segir Elín Ebba.

Næst á dagskrá hjá samstarfshópnum er að vinna að gerð gæðaeftirlits á meðferð geðsjúkra hér á landi. "Við fengum styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna og einnig styrk frá heilbrigðis- og tryggingaráðuneyti til að hefja gæðaeftirlit í sumar. Við tengjum þetta við nýsköpunarstarf vegna árs fatlaðra 2003 og bindum miklar vonir við þetta frumkvöðlastarf. Með þessum hætti er hægt að virkja geðsjúka sem samstarfsmenn og ég tel það afar mikilvægt. Þarna býr mikil þekking og reynsla, sem nauðsynlegt er að nýta. Að mínu mati verður í framtíðinni gerð krafa um að einhver af starfsmönnum á geðdeild sé með reynslu af geðsjúkdómum sjálfur, og sé sýnileg fyrirmynd," segir Elín Ebba.

Vinna að þróun hugmyndarinnar í sumar

Viðurkenning Brautargengis er mjög mikilvæg fyrir framgang hugmyndarinnar um Hlutverkasetur. "Viðurkenning frá viðskiptalífinu er afskaplega mikilvæg, og lyftir verkefninu í nýja vídd. Nú halda áfram umræður við félagsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, Reykjavíkurborg og fjársterka aðila um framgang hugmyndarinnar, og vonumst við til að sem fyrst rætist úr áætlunum Hlutverkasetursins um að skapa vettvang fyrir atvinnu geðsjúkra og að nýta ábata af reynslu þeirra. Þetta gefur geðsjúkum nýja von um að samferðamenn hafi trú á þeim og gefi þeim tækifæri í atvinnulífinu," segir Elín Ebba að lokum.