20. maí 2004 | Íþróttir | 223 orð

Bjarni Þór Viðarsson samdi við Everton

BJARNI Þór Viðarsson knattspyrnumaður skrifaði í gær undir fjögurra ára samning við enska úrvalsdeildarliðið Everton að undangenginni læknisskoðun hjá félaginu. Bjarni er 16 ára gamall og hefur leikið með FH allan sinn feril.
BJARNI Þór Viðarsson knattspyrnumaður skrifaði í gær undir fjögurra ára samning við enska úrvalsdeildarliðið Everton að undangenginni læknisskoðun hjá félaginu. Bjarni er 16 ára gamall og hefur leikið með FH allan sinn feril. Þá hefur hann verið fastamaður í drengjalandsliðinu þar sem hann spilaði níu af tíu leikjum liðsins á síðasta ári og hann er enn gjaldgengur með því liði í ár. "Ég er rosalega ánægður með samninginn og get varla beðið eftir því að byrja að æfa með liðinu. Aðstæður hjá Everton eru meiri háttar og allir þeir sem koma að félaginu hafa reynst mér ákaflega góðir," sagði Bjarni Þór við Morgunblaðið skömmu eftir að hafa gengið frá samningnum við Everton í gær.

Þar með fetar Bjarni Þór í fótspor eldri bræðra sinna - Arnar Þór er hjá Lokeren í Belgíu og Davíð Þór er á mála hjá Lilleström í Noregi, en karl faðir þeirra er Viðar Halldórsson sem lék á árum áður með FH og íslenska landsliðinu. "Ég hef átt mér þann draum lengi að verða atvinnumaður eins og Arnar og Davíð og ég trúi því varla enn þá að ég sé kominn í Everton," sagði Bjarni, sem mun spila með 18 ára liði Everton á næstu leiktíð og varaliði félagsins.

Bjarni Þór er nefndur undrabarnið frá Íslandi í umfjöllun á fréttavef Sky-sjónvarpsstöðvarinnar en þar var rætt við David Moyes, knattspyrnustjóra Everton.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.