21. maí 2004 | Íþróttir | 359 orð | 1 mynd

* GRÉTAR Rafn Steinsson hefur ekki...

* GRÉTAR Rafn Steinsson hefur ekki náð samkomulagi við Knattspyrnufélag ÍA um möguleg félagaskipti sín til Young Boys í Sviss eða RKC Waalwijk í Hollandi .
*GRÉTAR Rafn Steinsson hefur ekki náð samkomulagi við Knattspyrnufélag ÍA um möguleg félagaskipti sín til Young Boys í Sviss eða RKC Waalwijk í Hollandi. Bæði félögin hafa gert Grétari tilboð og að öllu óbreyttu tekur hann boði svissneska félagsins, ef um semst. Grétar Rafn sagði við Morgunblaðið í gær að hann vonaðist til þess að lausn fyndist á málinu um helgina.

*SINISA Valdimar Kekic, fyrirliði Grindvíkinga, fór meiddur af velli eftir rúmlega klukkutíma leik gegn ÍA í gær. Hann meiddist á ökkla eftir návígi við sóknarmann ÍA en sagði við Morgunblaðið að það væri ekkert alvarlegt og hann yrði tilbúinn í slaginn í næsta leik.

*HARALDUR Ingólfsson Skagamaður þurfti einnig að fara af velli um svipað leyti eftir að hafa fengið spark í hælinn frá varnarmanni Grindavíkur. Haraldur taldi að hann yrði fljótur að jafna sig á því og yrði með í næsta leik.

*ALEKSANDAR Petkovic, bosníski miðjumaðurinn hjá Grindavík, var ekki lengi að krækja sér í gult spjald. Hann kom inn á sem varamaður á 65. mínútu og þremur mínútum síðar var hann áminntur fyrir að brjóta á Þórði Þórðarsyni, markverði ÍA.

*GRINDVÍKINGAR hafa aðeins einu sinni áður sótt stig til Akraness í efstu deild. Það var sumarið 2002 þegar Grétar Hjartarson skoraði þrennu fyrir Grindavík í 3:1 sigri á Akranesi. Annars hafa heimamenn haft betur í 8 af 10 leikjum liðanna á Akranesvelli.

*HELGI Kolviðsson og félagar í Kärnten féllu úr austurrísku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær þegar þeir töpuðu, 2:0, fyrir Austria Vín í lokaumferðinni. Helgi var varamaður og kom ekki við sögu. Kärnten hefði ekki dugað að vinna leikinn þar sem Sturm Graz vann sinn leik og bjargaði sér þar með frá falli.

*CHRISTOPHE Bouchet, forseti franska knattspyrnufélagsins Marseille, ætlar að senda kvörtun til UEFA vegna dómgæslu Pierluigi Collina í úrslitaleik UEFA-bikarsins í fyrrakvöld. Bouchet segir að Collina hafi hreinlega flautað leikinn af í lok fyrri hálfleiks með því að reka markvörðinn Fabian Barthez af velli.

*BOUCHET segir ennfremur að Collina hafi verið einstaklega vinalegur gagnvart leikmönnum Valencia fyrir leikinn og meira að segja kysst varnarmanninn Amadeo Carboni. Eftir leik hafi leikmenn Valencia allir fagnað Collina og Carboni hafi meira að segja farið í búningsherbergi hans og komið þaðan án keppnistreyju sinnar.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.