Ósk Þórhallsdóttir fæddist að Bakka í Viðvíkursveit í Skagafirði 20. maí 1918. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Garðvangi í Garði 17. maí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Björn ÞórhallurÁstvaldsson bóndi, f. 6. nóv. 1893 á Á í Unadal í Skagafirði, d. 30. sept 1962, og kona hans Helga Friðbjarnardóttir húsfreyja, f. 7. des. 1892 í Brekkukoti-Ytra í Blönduhlíð í Skagafirði, d. 20. apríl 1986. Systkini Óskar eru: 1) Elísabet, f. 15.1. 1917, d. 26.2. 2003, maki Bjarni Helgason, f. 27.10. 1919, d. 26.10. 1999. 2) Friðbjörn, f. 23.7. 1919, d. 8.1. 2003, maki Svanhildur Guðjónsdóttir, f. 12.2. 1926. 3) Guðbjörg, f. 17.10. 1920. Fyrri maki Þormóður Guðlaugsson, f. 15.3. 1916, d. 5.5. 1989, þau skildu. Seinni maki Axel Davíðsson, f. 17.11. 1921, d. 18.9. 1990. 4) Ásdís, f. 18.8. 1922, d. 5.12. 2001, maki Sigurður Guðmundsson, f. 16.11. 1912, d. 11.4. 1973. 5) Anna Guðrún, f. 25.11. 1923, maki Sveinn Þorkell Jóhannesson, f. 1.7. 1916, d. 22.6. 1981. 6) Kristjana, f. 14.1. 1925, maki Björn Þorkelsson, f. 9.5. 1914, d. 9.2. 1981. 7) Þorvaldur, f. 1.9. 1926, maki Valgerður Kristjánsdóttir, f. 25.10. 1929. 8) Halldór Bjarni, f. 5.11. 1927, maki Guðbjörg Bergsveinsdóttir, f. 30.9. 1928. 9) Guðveig, f. 23.5. 1929, maki Jóhannes Haraldsson, f. 28.5. 1928. 10) Birna, f. 13.5. 1938. Fyrri maki Guðmundur Kristjánsson, f. 14.7. 1931, d. 9.9. 1988. Seinni maki Geirfinnur Stefánsson, f. 9.3. 1935.

Hinn 12. nóv. 1940 giftist Ósk Frímanni Sigmundi Þorkelssyni, f. 13.9. 1917, frá Sveinagörðum í Grímsey, fv. bónda og sjómanni. Foreldrar hans voru Þorkell Árnason, f. 18.8. 1878, d. 28.6. 1941, útvegsbóndi og organisti í Grímsey, og k.h. Hólmfríður Ólafía Guðmundsdóttir, f. 10.6. 1878, d. 3.6. 1969, húsmóðir. Þau bjuggu lengst af að Sjálandi í Grímsey. Ósk og Frímann eignuðust sex börn. Þau eru: 1) Helga Hólmfríður, f. 9.7. 1940, maki Hjalti Sigurðsson. 2) Þórhallur Þorkell, f. 23.10. 1942, maki Gréta Jóhannesdóttir. 3) Dýrleif Eydís, f. 18.12. 1946, maki Gísli Steinar Eiríksson. 4) Anna, f. 16.3. 1948, maki Hartmann Óskarsson. 5) Ægir, f. 9.1. 1952, maki Valdís S. Sigurbjörnsdóttir. 6) Kristjana Björg, f. 7.7. 1953, maki Bjarni Halldórsson. Uppeldissonur, Þorkell Árnason, f. 20.7. 1944, d. 7.5. 2002. Barnabörnin eru 23, þar af hefur eitt látist. Barnabarnabörnin eru orðin 37, þar af hefur eitt látist. Barnabarnabarnabörnin eru orðin tvö.

Ósk og Frímann hófu búskap að Básum í Grímsey en fluttu árið 1946 að Ártúnum við Hofsós í Skagafirði þar sem þau bjuggu til 1961 en þá fluttu þau suður í Garð í Gerðahreppi þar sem þau bjuggu síðan.

Útför Óskar verður gerð frá Útskálakirkju í Garði í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Ég hugsa um mynd þína, hjartkæra móðir,

og höndina mildu, sem tár strauk af kinn.

Það yljar á göngu um ófarnar slóðir

þó yfir sé harmþrungið rökkur um sinn.

Ljósið er slokknað á lífskerti þínu,

þú leiddir mig örugg á framtíðar braut.

Hlýja þín vakir í hjartanu mínu

frá hamingjudögum, er fyrrum ég naut.

Minningarljósið á lífsvegi mínum

lýsir upp sorghúmið, kyrrlátt og hljótt.

Höfði nú drýp ég hjá dánarbeði þínum,

þú drottni sért falin, ég býð góða nótt.

(Hörður Björgvins.)

Elskulega mamma mín. Ljúfar og sárar minningar líða um huga minn er ég sest niður, með tár á vanga og söknuð í hjarta. Svo óvænt, en samt ekki, lést þú aðfaranótt 17. maí eftir stutt veikindi á hjúkrunarheimilinu Garðvangi. Við sjúkrabeðinn sat elsku pabbi og við systkinin, til skiptis, og einnig var alltaf til staðar elskulega hjúkrunarfólkið, sem er alveg einstakt. Þú fórst hægt og hljótt eins og alltaf, þú vildir aldrei láta hafa mikið fyrir þér. Eins var um andlátið. Friður og kyrrð umlukti þig. Þú hefðir orðið 86 ára 20. maí á uppstigningardag.

Lítið barn elskar móður sína af öllu hjarta, sál og sinni, sækir í að snerta hana, hlusta á hana og njóta öryggis í návist hennar og treystir henni algerlega. Þannig var hún alltaf til staðar. Í Ártúnum þar sem við systkinin sex ólumst upp tók hún þátt í öllu, hvort sem það var sorg eða gleði. Við systkinin urðum þeirrar gæfu aðnjótandi. Eins var það þegar við stækkuðum og urðum fullorðin, alltaf tóku mamma og pabbi þátt í öllu og umvöfðu okkur kærleika og ást.

Mamma var falleg, nett kona og við kölluðum hana stundum pjattrófu sem var hrós. Hún vildi alltaf vera fín og var mjög smekkleg á allan hátt. Hún var ein af þessum konum sem gat allt, prjónað, saumað og eldað. Hún tók þátt í öllum sveitastörfum sem voru aðeins öðruvísi en í dag. Ég man eftir henni hlaupa frá pottunum út á tún með hrífuna að snúa heyi, raka, fara í fjósið, sækja vatn, þvo þvotta í bala, skola þvottinn í ánni, reka kindur og alltaf var hún eins og fiðrildi. Kossana sparaði hún ekki þó stundum væri dagurinn langur og ekki gleymdust bænirnar áður enn við fórum að sofa. Samt er ekki hægt að tala um mömmu án þess að tala um pabba. Þau voru ákaflega samhent og ást og kærleikur var þeirra boðorð, hrós við okkur og við hvort annað. Ég varð einnig þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa föðurömmu á heimilinu. Hún fylgdi foreldrum mínum frá því ég man eftir. Henni og mömmu kom ákaflega vel saman og unnu þær gjarnan sem einn maður. Og þar ríkti sannarlega kærleikur og hjálpsemi á báða bóga. Einnig ólu pabbi og mamma upp bróðurson pabba frá sex ára aldri. Það eru sannarlega forréttindi að eiga foreldra sína svo lengi. Börnin mín og barnabörn hafa notið ástríkis þeirra og ég er þakklát fyrir það.

Elskulega mamma mín, ég gæti haldið áfram að skrifa endalaust en ég ætla að geyma allar góðu minningarnar í hjarta mínu. Allir hér í Garðinum sáu gömlu hjónin á Kárastöðum leiðast hvern morgun eins og þau væru nýtrúlofuð. Þannig var ást þeirra og kærleikur þar til dauðinn aðskildi þau, þessar elskur.

Elsku pabbi, ég bið góðan guð að vaka yfir þér og styrkja þegar ástin þín er farin. En hún bíður eftir þér svo þið getið haldið áfram að ganga saman í guðsríki. Við elskum þig öll.

Hví skyldi ég yrkja um önnur fljóð,

en ekkert um þig, ó, móðir góð? -

Upp, þú minn hjartans óður!

Því hvað er ástar- og hróðrar dís,

og hvað er engill úr paradís

hjá góðri og göfugri móður?

(M. Joch.)

Dýrleif Eydís Frímannsdóttir.

Það var að kvöldi fimmtudagsins 13. maí að pabbi hringdi og tilkynnti mér að þú hefðir veikst alvarlega. Mér var mjög mikið um enda áttir þú stóran stað í hjarta mínu. Ég var ekki tilbúin til að missa þig strax þó svo að ég hefði verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að hafa þig svona lengi. Þú varst 85 ára og afmælið þitt á næsta leiti. En því miður fékkstu ekki að upplifa 86. afmælisdaginn því þú lést aðfaranótt mánudagsins 17. maí.

Elsku amma. Það er margs að minnast. Ég man fyrst eftir þér þegar þú komst og heimsóttir okkur mömmu á Akureyri ásamt afa. Þú hafðir meðferðis fallega gula plastönd á hjólum og í henni var skófla, sigti og lítil hrífa. Það sem mér þótti vænt um þessa plastönd. Ég lék mér með hana daginn út og daginn inn. Þetta var það fyrsta sem ég man af okkar samskiptum. Nokkrum árum síðar fluttum við mæðgur til ykkar afa í Garðinn. Þar tókst þú á móti okkur opnum örmum. Ég man vel hvað faðmurinn þinn var hlýr og allt um vefjandi. Það var ekkert sem þú ekki gast lagað með fallega brosinu þínu og faðminum þínum mjúka. Sem lítil stelpuskotta man ég að þú varst alltaf sístarfandi. Þú varst falleg kona, grönn, nett og kvik í hreyfingum og fljót til allra verka. Allt lék í höndunum á þér sama hvort það var bakstur, eldamennska eða handavinna.

Þarna í Garðinum byrjaði ég skólagöngu mína. Þegar ég kom heim úr skólanum beiðst þú alltaf eftir mér með eitthvað gott að borða og svo var lært. Þú varst góður kennari enda var þolinmæðin ótrúlega mikil. Þú kenndir mér ekki bara að lesa og reikna heldur svo margt fleira. Ég áttaði mig ekki á því þá hversu margt það var, heldur kom það smátt og smátt eftir því sem ég varð eldri. Ekki er hægt að skrifa um ömmu öðruvísi en að minnast á afa. Amma og afi voru búin að vera gift í 64 ár og voru jafn ástúðleg hvort við annað eins og þegar hjónaband þeirra hófst. Það er því mikið áfall fyrir afa að missa þig, amma, eftir allan þennan tíma, en ég veit að þið munið hittast aftur þó síðar verði.

Það er skrítið til þess að hugsa að fá aldrei framar að kyssa mjúka vangann þinn og halda um hlýju hendurnar þínar, en minningin um þig lifir ætíð í huga mínum.

Elsku amma, ég kveð þig með þessum línum:

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfin úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Elsku afi, ég votta þér mína dýpstu samúð og bið algóðan guð að vaka ávallt yfir þér.

María Ósk.