Haukur Birgisson hjá Ferðamálaráði í Frankfurt ásamt Bjarnheiði Halldórsdóttur og Pétri Óskarssyni hjá Katla Travel.
Haukur Birgisson hjá Ferðamálaráði í Frankfurt ásamt Bjarnheiði Halldórsdóttur og Pétri Óskarssyni hjá Katla Travel.
UM 40 þúsund þýskir ferðamenn komu hingað til lands á síðasta ári og fjölgaði um 19% milli ára. Horfur eru á að ferðamönnum fjölgi töluvert í ár.

UM 40 þúsund þýskir ferðamenn komu hingað til lands á síðasta ári og fjölgaði um 19% milli ára. Horfur eru á að ferðamönnum fjölgi töluvert í ár. Ástæðuna fyrir þessari fjölgun má rekja til aukinnar markaðssetningar, bættu aðgengi að upplýsingum um Ísland sem og auknu framboði á leiguflugi. Um 90% þýskumælandi ferðamanna bóka ferðir hingað til lands á Netinu.

Til að kynnast Íslandi frá ýmsum hliðum eru nú staddir hér á landi um 60 fjölmiðlamenn, frá Þýskalandi og Austurríki, í boði Thomas Cook, eins stærsta ferðaheildsala í heimi, en dagskrá þeirra var skipulögð af íslensku ferðaskrifstofunni Katla Travel.

Thomas Cook stendur árlega fyrir ráðstefnu blaðamanna á mismunandi stöðum í heiminum en ávallt á áfangastöðum sem fyrirtækið vill vekja sérstaka athygli á. Pétur Óskarsson hjá Katla Travel segir ástæðuna fyrir því að Ísland varð nú fyrir valinu vera þá að áhugi á Íslandi hefur aukist mikið og Ísland er "rísandi stjarna" meðal áfangastaða fyrirtækisins. Katla Travel hefur verið samstarfsaðili Thomas Cook hér á landi frá árinu 1997 og segir ferðir á vegum skrifstofunnar hingað til lands mjög fjölbreyttar, bæði fyrir einstaklinga sem og stóra hópa.

Listir, menning, orkumál og stjórnmál kynnt sérstaklega

Blaðamennirnir, sem hér eru staddir á ráðstefnunni, hafa fengið að kynnast ýmsu sem land og þjóð hefur upp á að bjóða. Eftir fyrirlestra og kynningar í gær fóru þeir í ferðir út fyrir bæinn, t.d. að Gullfossi og Geysi, í hvalaskoðun og á hestbak. Þá fengu þeir að velja sér þema; listir og menningu, stjórnmál eða orkumál og fóru í ferðir sem þessum flokkum tengdust, t.d. á Nesjavelli.

Bjarnheiður Halldórsdóttir hjá Katla Travel segir listir og menningu sífellt verða meira aðdráttarafl og nefnir í því sambandi bækur Arnalds Indriðasonar sem slegið hafa í gegn í Þýskalandi.

Haukur Birgisson, starfsmaður Ferðamálaráðs í Frankfurt, segir að náttúran sé sá þáttur sem hingað til hafi verið auglýstur mest enda sérstaða Íslands talin felast í. Hann segir Ísland hafa aðdráttarafl allt árið og með átaki hefur sjónum ferðamanna í auknum mæli verið beint að öðru en eingöngu náttúrunni. "Margföldunaráhrif verða svo mikil í ferðaþjónustunni," segir Haukur. "Hingað koma margir til að kynna sér menningu og listir og Ísland hefur verið kynnt á þann hátt."

Haukur segir sjónvarpsþætti um Ísland hafa bein áhrif á fjölda fyrirspurna um ferðir hingað til lands. "Það verður að vera auðvelt að nálgast upplýsingar og það er auðveldara nú en áður, t.d. vegna Netsins og stórra aðila í ferðaþjónustu."

Pétur og Bjarnheiður segja ráðstefnur sem þá sem nú er haldin hafa langtímaáhrif. "Umfjöllun og greinar um Ísland hafa mikið að segja," segir Bjarnheiður. "Umfjöllun blaðamanna er meira virði en auglýsingar. Þess vegna er þetta mikilvægt til lengri tíma litið."