5. júní 2004 | Menningarblað/Lesbók | 623 orð | 1 mynd

Ég ætla að verða grammófónn

Gísli Magnússon
Gísli Magnússon
Ég ætla að verða grammófónn," sagði lítill snáði austur á Eskifirði á fjórða áratug tuttugustu aldar þegar hann var spurður að því hvað hann ætlaði að verða þegar hann yrði stór.
Ég ætla að verða grammófónn," sagði lítill snáði austur á Eskifirði á fjórða áratug tuttugustu aldar þegar hann var spurður að því hvað hann ætlaði að verða þegar hann yrði stór. Þá höfðu foreldrar hans nýlega eignast slíkt undratæki og hann hlustaði dolfallinn á tónlistina sem hljómaði úr því."

Þannig hljóðar inngangur að nýjum tvöföldum geisladiski með leik Gísla Magnússonar píanóleikara, sem lést fyrir þremur árum 72 ára að aldri. Gísli var einn mesti píanóleikari okkar á síðustu öld. Hann stundaði nám í Sviss og á Ítalíu og hélt sína fyrstu einleikstónleika árið 1951 í Austurbæjarbíói. Hann var alla tíð síðan mjög virkur í íslensku tónlistarlífi, hélt sjálfstæða tónleika, lék með Sinfóníuhljómsveit Íslands og tók þátt í flutningi á kammermúsík. Gísli var lengi kennari og síðar skólastjóri við tónlistarskólann í Garðabæ.

Að sögn Rósu Gísladóttur, dóttur Gísla, voru það Smári Ólason og aðrir samkennarar hans við Tónlistarskólann í Garðabæ, sem áttu hugmyndina að stofnun sérstaks útgáfusjóðs á sjötugsafmæli Gísla. "Það var stungið upp á því að í stað þess að gefa honum eitthvað í afmælisgjöf, yrði stofnaður slíkur sjóður, og fólk gæti gefið framlag í hann, til þess að hægt yrði að gefa út upptökur með pabba. Það var ýmislegt til, bæði efni sem hafði verið gefið út á hljómplötum, en líka upptökur úr Útvarpinu. Upp úr þessu fór pabbi að huga að útgáfunni og velja efni á diska."

Síðustu æviárin var Gísli með krabbamein, en Rósa segir að honum hafi þó auðnast sjálfum að ganga frá verkinu á þann hátt sem hann kaus, áður en hann lést. Upptökurnar eru blandað efni, sumt áður útgefið, en annað hefur ekki heyrst nema í Útvarpi. Upptökurnar spanna nánast allan einleikaraferil Gísla. Elsta hljóðritunin er frá árinu 1955, en það er tónlist sem kom út á plötu Fálkans í umboði His Masters Voice. Þar leikur Gísli verk eftir Pál Ísólfsson og Sveinbjörn Sveinbjörnsson, en á hinni hliðinni er Ensk svíta nr. 6 í d-moll eftir Bach. Síðustu upptökurnar eru frá 1988, af einleiksplötu með verkum eftir Beethoven og Brahms. Rósa segir að upptökurnar frá 1955 hafi verið föður sínum kærar af ýmsum ástæðum. "Þetta eru fyrstu upptökurnar á verkum Sveinbjörns og Páls, og líklega sú fyrsta á Ensku svítunni eftir Bach, sem gerð var í heiminum. Svo eru þetta líka mjög góðar upptökur, en þær voru gerðar í lítilli kirkju í Mílanó, og hann spilaði verkin bara einu sinni, eins og á tónleikum."

Ánægjulegt ferðalag yfir ferilinn

Rósa segir að veikindi föður hennar hafi ekki sett mikið mark á útgáfu diskanna. "Pabbi var svo hress - allur í núinu og framtíðinni. Fyrir honum var þetta alls ekki neinn minningardiskur um hann. Hann leit miklu frekar á þetta sem samantekt á hans ferli. Þetta var eitthvað sem hann langaði til að gera, og við vorum meira að segja búin að spekúlera í útliti disksins áður en hann dó. Ég held að það hafi verið honum mjög ánægjulegt ferðalag yfir ferilinn, að skoða það sem hann hafði gert áður."

Talsvert meira af upptökum með leik Gísla er til, óútgefið. Þar á meðal eru hljóðritanir af leik hans með Sinfóníuhljómsveit Íslands. "Hann var mjög sáttur við þetta val, og við höfum ekki rætt um að gefa meira út að svo stöddu, hvað sem síðar verður. Pabbi valdi efnið á diskana af mikilli kostgæfni og við reyndum að ljúka verkinu í hans anda."

Það er Smekkleysa sem gefur tvöfalda diskinn með leik Gísla Magnússonar út. Diskurinn er í eins konar bókarbandi, og í bókinni er að finna greinar um Gísla og feril hans, auk greina um tónlistina, þar á meðal ein eftir Gísla sjálfan. Það má kannski segja að með útgáfunni hafi æskudraumar Gísla ræst enn á ný, þótt grammófónninn sem hann dreymdi um að verða ummyndist hér í leik hans sjálfs fyrir grammófóna nútímans.

begga@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.