Rai og Johns verða með námskeið í borgaralegri óhlýðni um helgina.
Rai og Johns verða með námskeið í borgaralegri óhlýðni um helgina. — Morgunblaðið/Eggert
NÁMSKEIÐ um borgaralega óhlýðni og friðsamleg mótmæli verður haldið um helgina en Samtök herstöðvarandstæðinga hafa boðið Milan Rai og Emily Johns, breskum friðar- og umhverfissinnum, til landsins.

NÁMSKEIÐ um borgaralega óhlýðni og friðsamleg mótmæli verður haldið um helgina en Samtök herstöðvarandstæðinga hafa boðið Milan Rai og Emily Johns, breskum friðar- og umhverfissinnum, til landsins.

Rai og Johns hafa bæði verið virk í friðarhreyfingum í fjölda ára. "Borgaraleg óhlýðni gengur út á að reyna að breyta óréttlæti á einhvern hátt þó það sé ekki hægt að fara til þess hefðbundnar leiðir. Aðgerðirnar geta jafnvel leitt til handtöku eða málsóknar. Borgaraleg óhlýðni gæti krafist þess að brjóta lög en það er ekki endilega það sama og að brjóta "lögin". Oft eru t.d. alþjóðalög eða einhver önnur lög sem segja hið gagnstæða," segir Rai nefnir að hann hafi tekið þátt í að flytja lyf til Íraks þrátt fyrir viðskiptabann.

Emily Johns sér m.a. um vinnuhópa í tengslum við námskeiðið en hún hefur mikla reynslu af friðsamlegum leiðum til mótmæla og annarra aðgerða. Hún segir mótmæli sem þessi vera sérlega mikilvæg þegar stjórnvöld taka ekki vilja fólks með í reikninginn. "Þetta á sér stað þegar umræður eru ekki eðlilegar og lýðræðið ekki virkt. Sem dæmi má nefna að meirihluti fólks var andvígur þátttöku Bretlands í stríðinu í Írak. Engu að síður var sú ákvörðun tekin og það var ekki hlustað á vilja fólksins."

Rai bendir á að námskeiðið verði ekki einungis fræðilegt heldur byggist það mikið á umræðum. "Þetta er hagnýtt námskeið. Við förum yfir skipulagningu á friðsamlegum mótmælum og aðgerðum," segir Rai og bætir við að borgaraleg óhlýðni sé í raun leið til þess að brjóta upp hneigðina til að hlýða yfirvöldum alltaf skilyrðislaust. Nánari upplýsingar má finna á http://www.fridur.is.