GÆÐAEFTIRLIT með meðferð geðsjúkra hefst hér á landi í sumar. Hlutverkasetur, atvinnusköpun fyrir geðsjúka, hefur fengið styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og heilbrigðisráðuneytinu til að hrinda gæðaeftirlitinu í framkvæmd.

GÆÐAEFTIRLIT með meðferð geðsjúkra hefst hér á landi í sumar. Hlutverkasetur, atvinnusköpun fyrir geðsjúka, hefur fengið styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og heilbrigðisráðuneytinu til að hrinda gæðaeftirlitinu í framkvæmd.

Elín Ebba Ásmundsdóttir, forstöðuiðjuþjálfi á geðsviði Landspítala - háskólasjúkrahúss, segir að reynsla og þekking geðsjúkra verði nýtt til að leggja mat á þjónustuna. "Reyndar efast ég ekkert um að reynsla geðsjúkra verður nýtt á geðdeildum í framtíðinni, í miklu meiri mæli en nú er, til dæmis með því að ráða starfsmenn á geðdeildir sem sjálfir hafa reynslu af að kljást við geðsjúkdóma."

Elín Ebba segist alltaf hafa lagt mikla áherslu á að spyrja sjúklingana sjálfa hvaða leiðir þeir vilji fara og ráðgast við þá sem náð hafi bata um hvað hafi reynst þeim best. Gæðaeftirlit felist í að notendur í bata, í samvinnu við sérfræðinga, spyrji aðra sjúklinga um hvað gagnist þeim best. Fyrir utan að hjálpa kerfinu að bæta þjónustuna skapi gæðaeftirlitið störf fyrir geðsjúka og efli þannig sjálfstraust þeirra.