Ingibjörg Elsa Björnsdóttir
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir skrifar um loftslagsbreytingar: "Það er ekki að ástæðulausu sem helstu vísindamenn heimsins vilja vara menn við."
BÍÓMYNDIN The day after tomorrow sem sýnd er um þessar mundir í kvikmyndahúsum landsins er tilraun til þess að gera almenningi ljóst hvað felst í orðinu loftslagsbreytingar (Climate change). Aðalsöguhetjan í myndinni, Hall að nafni, er sérfræðingur í loftslagssögu (paleo-climatology). Hann er ekki veðurfræðingur heldur loftslagsfræðingur sem reiknar út með flóknum ofurtölvum og GCM-líkönum að loftslag jarðarinnar muni breyta um jafnvægisástand á einungis örfáum vikum. Meðan á því stendur gengur stór og djúpur stormur yfir allt norðurhvel jarðar.

Í raun og veru byggist The day after tomorrow á áreiðanlegum vísindalegum niðurstöðum sem liggja nú þegar fyrir. Í áratugi hafa færustu vísindamenn heims reynt að koma heimsbyggðinni í skilning um að miklar líkur eru á því að mannkynið sé að breyta loftslagi jarðarinnar. Þetta er vegna þeirrar mengunar, sér í lagi gróðurhúsalofttegunda, sem hefur á undanförnum 100 árum verið sleppt út í andrúmsloftið.

Jarðfræðingar hafa lengi vitað að loftslag jarðar á sér fleiri en eitt jafnvægisástand. Þannig hafa lengi skipst á kuldaskeið og hlýskeið í sögu jarðar. Ástæður þessa eru taldar vera breytingar á göngu jarðar um sólu og hugsanlegar breytingar á útgeislun sólar. Í dag er hins vegar annað uppi á teningnum. Við mennirnir erum farnir að fikta í hinni stóru og miklu kolefnishringrás jarðar með því að dæla CO2 taumlaust út í lofthjúpinn. Meðalhiti jarðar fer hækkandi. Haldi þessi þvingun andrúmsloftsins (climate forcing) áfram, gæti svo farið að andrúmsloftið einfaldlega skipti um gír og að gjörsamlega nýtt loftslagsjafnvægi skapaðist með nánast ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Bíómyndin The day after tomorrow er þess vegna ekki tóm vísindaskáldsaga út í bláinn. Hún er tilraun til þess að kynna almenningi það sem hugsanlega gæti gerst ef miklar loftslagsbreytingar ættu sér stað. Hins vegar verður að segjast eins og er, að myndin er nokkuð ýktari og dramatískari en vísindamenn telja að raunveruleikinn geti orðið. Í myndinni breytir loftslag allrar jarðarinnar um jafnvægi á einungis örfáum vikum. Það er hins vegar mjög ólíklegt að miklar loftslagsbreytingar muni nokkurn tímann gerast svo hratt. Þó hafa niðurstöður úr rannsóknum á ískjörnum á Grænlandi og Suðurskautslandinu leitt í ljós að veruleg breyting getur orðið á loftslagi jarðar á einungis 50-100 árum, þannig að við höfum ekki endalausan tíma til þess að bregðast við.

Ég vona innilega að kvikmyndin The day after tomorrow verði til þess að vekja bæði áhuga og umræðu um loftslagsbreytingar hér á landi og verði einnig til þess að Íslendingar fari að taka hættuna á loftslagsbreytingum alvarlega. Það er ekki að ástæðulausu sem helstu vísindamenn heimsins vilja vara menn við. Því að ef loftslag jarðarinnar breytir um jafnvægi eða skiptir um gír - þá verður ekki aftur snúið.

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir skrifar um loftslagsbreytingar

Höfundur er jarðfræðingur og umhverfisfræðingur.