17. júní 2004 | Viðskiptablað | 928 orð | 1 mynd

Að verðleggja áhættu

Af hverju falla notaðir bílar svona hratt í verði?

— Morgunblaðið/Ásdís
Á vordögum gaf Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands út nýtt rit, Hættumörk, en deildin hefur á undanförnum mánuðum verið ötul við útgáfur.
Á vordögum gaf Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands út nýtt rit, Hættumörk, en deildin hefur á undanförnum mánuðum verið ötul við útgáfur. Má þar meðal annars nefna Tímarit um viðskipti og efnahagsmál og Heilræði fyrir unga menn í verzlun og viðskiftum. Í þessari nýju bók deildarinnar er glímt við áhættur sem fylgja óvissu. Í stuttu máli má segja að í bókinni sé spurt; hvernig er hægt að verðleggja áhættu, eyða óvissu í viðskiptum og með hvaða hætti má hagnast á henni?

Í bókinni eru þrjár merkar greinar erlendra fræðimanna í þýðingu Þorbergs Þórssonar, allar frumlegt og merkt framlag á sviði áhættufræðinnar. Guðmundur Magnússon sá um val greinanna og ritar yfirlit um sögu áhættufræðinnar. Guðmundur bendir á að við val greina hafi þess verið sérstaklega gætt að þær væru ekki of tæknilegar til að aðrir en sérfræðingar gætu haft gaman af þeim.

Í yfirliti Guðmundar um sögu áhættufræðinnar, sem hann nefnir Glíma mannsins við óvissuna, sést hversu hröð þróunin hefur verið í áhættufræðum. Það kemur væntanlega mörgum á óvart að aðeins rúmlega þrjátíu ár eru síðan framvirk viðskipti með gjaldeyri hófust í kauphöllinni í Chicago.

Á svipuðum tíma, eða árið 1970, birtist einnig tiltölulega stutt grein sem lítið bar á. Reyndar átti höfundur hennar í mestu erfiðleikum með að fá hana birta, enda úr takti við almenna skilgreinda hagfræði þeirra tíma og afar einföld í uppsetningu. George Akerlof heitir höfundurinn, greinin heitir "Bílamarkaðurinn: Markaðskerfið og óvissa um gæði" og var greinin hornsteinn að því að hann fékk Nóbelsverðlaunin árið 2001. Greinin hefur orðið það langlíf að hún er meðal greinanna í Hættumörkum.

Umfjöllunarefni greinarinnar er samband gæða og óvissu. Akerlof kynnir tilraun til að kryfja staðhæfinguna: "Erfitt er að stunda viðskipti í vanþróuðum löndum." Helsta og þekktasta dæmið í greininni snýst um viðskipti með notaða bíla. Það er vel þekkt staðreynd að notaðir bílar falla hratt í verði, jafnvel þó að þeir séu aðeins nokkurra mánaða gamlir. Akerlof bendir á að ákveðið hlutfall nýrra bíla er ávallt með framleiðslugalla (á ensku nefndir lemons eða sítrónur). Eigendur slíkra bíla eru líklegri til að vilja selja gallagripina en þeir sem fá bíla í góðu ástandi. Væntanlegir kaupendur vita þetta og borga því almennt lægra verð fyrir notaða bíla, jafnvel þó að þeir séu sama sem nýir. Þar sem aðeins seljendur vita hvort bíllinn er raunverulega góður eða ekki myndast ósamhverft upplýsingastreymi í viðskiptum. Þar sem kaupendur geta ekki aðgreint góðu bílana frá þeim slæmu eru góðu bílarnir seldir á sama verði og slæmu bílarnir. Það þýðir að eigandi góðs bíls hlýtur að sitja uppi með eign sína, vitandi að hann getur ekki fengið sannvirði bílsins síns til baka.

Slíkt ósamhverft upplýsingastreymi getur leitt til þess að keðjuverkun eigi sér stað. Slæm vara flæmir miðlungsgóðar vörur af markaði, sem flæmir frekar góðar vörur af markaði og þannig koll af kolli þangað til enginn markaður er til staðar fyrir vörur þar sem ósamhverft upplýsingastreymi ríkir.

Slík staða getur einnig komið upp í umhverfi þar sem kaupendur vita minna en seljendur. Annað dæmi sem Akerlof notar varðandi ósamhverfar upplýsingar af þeim toga eru heilbrigðistryggingar. Þeir einstaklingar sem hafa upplýsingar um að þeir þurfi líklegast á tryggingafénu að halda hafa meiri ástæðu til að kaupa sér heilbrigðistryggingu en þeir einstaklingar sem kenna sér einskis meins né vita af arfgengum fjölskyldusjúkdómum. Því hafa umsækjendur um slíkar tryggingar meiri upplýsingar en tryggingafélögin sem selja þeim trygginguna. Þetta leiðir til þess að þeir sem kaupa dýrari tryggingar eru líklegri til að þurfa á þeim að halda. Eftir ákveðinn aldur verður því nánast ómögulegt að kaupa slíka tryggingu (og almannakerfið tekur á sig kostnaðinn). Verð trygginga er hið sama fyrir þá veiku sem þá heilbrigðu og því eru hinir heilbrigðu að vissu leyti flæmdir frá slíkum kaupum.

Akerlof benti á fleiri dæmi, meðal annars með vísan til staðhæfingarinnar um viðskipti í vanþróuðum löndum í upphafi greinarinnar. Um staði þar sem óheiðarleiki ríkir í viðskiptum gilda ókostir gallagripakerfisins. Ósamhverfar upplýsingar um gæði vara leiða til þess að meðalverð þeirra lækkar til að vega á móti þeirri óvissu sem felst í ósamhverfum upplýsingum milli kaupanda og seljanda. Aukin þekking á staðháttum dregur aftur á móti úr slíku misvægi upplýsinga og eykur þannig verðgildi vara. Akerlof bendir á að 85% útfluttra vara í Indlandi gangast undir gæðaeftirlit til að brúa bilið á ósamhverfu upplýsingastreymi um vörugæði.

Akerlof bendir á ýmsar leiðir til að vinna gegn óvissu um gæði. Tvær þekktustu leiðirnar eru ábyrgðir og vörumerki. Helsta ástæðan fyrir því að fólk er oft tilbúið til að greiða hærra verð fyrir notaðan bíl sem keyptur er af viðurkenndum bílasala frekar en beint af seljanda er að bílasalar hafa bæði orðspors að gæta og veita auk þess oft ábyrgð í nokkra mánuði á þeim bílum sem þeir selja. Vörumerki gefa einnig neytendum góða vísbendingu um gæði vörunnar. Það er því alþekkt að sambærilegar vörur eru verðlagðar með ólíkum hætti, því neytendur eru oft tilbúnir að greiða hærra verð fyrir þær vörur sem hafa traust vörumerki og því með minni óvissu um gæði.

Það er athyglisvert hversu illa Akerlof gekk að fá greinina birta í upphafi. Helstu ástæður sem hann fékk er útgefendur synjuðu henni var að hún fjallaði um lítilsvert málefni. Áður en greinin birtist var almenn skoðun manna að samkeppni skapaði jafnvægi og skilvirkni í hagkerfum sem aðeins einokun og slæm afskipti ríkis gætu kollvarpað. Í dag einblína hagfræðilíkön frekar á sérstaka markaði við sérstakar aðstæður. Aukin umræða um alþjóðavæðingu og traust vörumerkja er liður í þeim hugsunarhætti sem Akerlof hratt af stað með grein sinni sem skrifuð var fyrir aðeins 35 árum. Fyrir áhugasama um greinar Hættumarka er bent á að bókin fæst í Bóksölu stúdenta.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.