Helga Óskarsdóttir, Guðrún Vera Hjartardóttir og Ingibjörg Magnadóttir.
Helga Óskarsdóttir, Guðrún Vera Hjartardóttir og Ingibjörg Magnadóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HELGIDÓMUR hefur yfirtekið Ásmundarsalinn í Listasafni ASÍ. Þegar upp er komið tekur ólgandi hjartsláttur á móti manni. Lítil vera með blá augu gægist ofan af vegg. Og niður úr háu loftinu hanga marglituð efni, perlufesti og hattur, sem í raun er brúða.

HELGIDÓMUR hefur yfirtekið Ásmundarsalinn í Listasafni ASÍ. Þegar upp er komið tekur ólgandi hjartsláttur á móti manni. Lítil vera með blá augu gægist ofan af vegg. Og niður úr háu loftinu hanga marglituð efni, perlufesti og hattur, sem í raun er brúða. Þær Guðrún Vera Hjartardóttir, Helga Óskarsdóttir og Ingibjörg Magnadóttir, myndlistarmennirnir þrír sem eiga heiðurinn að sýningunni Helgidómur sem opnaði í Listasafni ASÍ síðasta laugardag, vinna allar með hið sérstaka rými þar hver á sinn hátt. Langa brúðan hennar Ingibjargar, sem kölluð er Dýrgripur, undirstrikar lofthæðina í salnum, verur Guðrúnar Veru á veggjunum kallast á hvor úr sínum enda salarins og hjartsláttur Helgu - hennar eigin hjartsláttur - líður yfir salinn og rammar hann inn.

Sýningin er síðari hluti samstarfs sem hófst í byrjun þessa árs í Skaftfelli á Seyðisfirði. Þá unnu þær þrjár sýningu undir heitinu Ávöxtur myrkursins. Nú er yfirskriftin Helgidómur.

"Hjartslátturinn er mín túlkun á helgidómnum sem var yfirskriftin sem við settum okkur að vinna út frá. Við táknum kærleikann með hjarta og hjartslátturinn er taktur lífsins," segir Helga Óskarsdóttir um verkið sitt, Hjartslátt. Hún hefur líka gert veggverk úr glitrandi steinum, Klasa kallar hún þau. "Klasarnir eru birta sem breytist eftir því hvar þú stendur í salnum. Ljós og birta tengjast minni tilfinningu fyrir helgidóm, þetta er hrein fegurð. Sumir sjá stjörnubjartan himin eða alheiminn en aðrir sjá eitthvað allt annað," segir hún og bætir við: "Það er svo mismunandi hvað ólíkir einstaklingar sjá."

Úrvinnsla kvennanna þriggja sem standa að sýningunni á hugtakinu helgidómi er líka ólík. "Þegar ég hugsaði um helgidóminn fór ég að byggja upp á við. Það var útfrá þessum hefðbundnu fjarstæðukenndu hugmyndum um að himnaríki sé uppi og helvíti niðri. Þannig urðu þessir stöplar til," segir Guðrún Vera um verkið Frummyndun, sem er í miðjum salnum. Hún segir manneskjuna fyrst og fremst vera sitt áhugasvið. "Það fyrsta sem kom til mín þegar við fórum að hugsa um þetta þema sem við höfðum ákveðið, Helgidóminn, var þessi vera," segir hún og bendir á litla veru, sem liggur á bakinu á veggstalli innst í salnum. "Af hverju liggur hún svona? hugsaði ég. Þetta er nánast eins og fórnaraltari. En ég treysti þeirri hugmynd sem ég fékk."

Verurnar bera heitin Augu I og Augu II, enda eru augu þeirra afar áberandi, stara blá og ögn blóðhlaupin á sýningargesti. "Dýr eru með rauðari augu en mannfólk og þess vegna hef ég augun í verunum svona," segir Guðrún Vera. "Það er meira blóð í augum dýranna og eðlislægt sakleysi þeirra gerir það að verkum að þau hafa samúð fólks."

Ingibjörg Magnadóttir á verkin Dýrgrip, Djásn og My own monkey business á sýningunni. Hún segir sér ekki láta vel að vinna útfrá þema, enda hafi verkin hennar í Helgidómi orðið til nánast af sjálfu sér. "Ég vinn ekki mjög vitsmunalega í myndlist. Ég fæ nóg af því í lífinu sjálfu," segir hún og hlær. En útfrá hverju vinnur hún þá? "Ég vinn með rýmið. Dreg fram boga í vegg, lofthæð, glugga, leyfi verkunum bara að verða til. Ég reyni að spá sem minnst í það hvort verkið sé fallegt eða fyndið eða ógáfulegt. Fyrir mér er listin sjálf helsti helgidómurinn."

Sýningin stendur til 4. júlí. Hún er opin alla daga nema mánudaga frá kl. 13-17.