21. júní 2004 | Aðsent efni | 783 orð | 1 mynd

Íslendingar á Spáni

Auður Hansen
Auður Hansen
Auður Hansen skrifar um Íslendinga á Spáni: "Á síðustu árum hafa fjölmargir Íslendingar flutt til Spánar."
Á SÍÐASTLIÐNUM árum hefur færst óðfluga í vöxt sá valkostur fyrir Íslendinga að eignast heimili í sólinni á Spáni. Það hefur farið fram hjá fáum sem fylgjast með fjölmiðlum hér heima hið gífurlega úrval fasteigna og söluaðila sem þar standa Íslendingum til boða. En fyrir þann sem útþrána hefur, bíður frumskógur sem vert er að kanna vel áður en ákveðið er að láta drauminn verða að veruleika.

Tölur Hagstofunnar bera með sér gífurlega aukningu á fluttum Íslendingum til Spánar, og hafa 290 manns flutt lögheimili sitt þangað á síðustu 4 árum. Telja verður þó að þessi tala sé aðeins brot af þeim fjölda sem raunverulega hefur flutt aðsetur sitt þangað. Sjálfsagt á milt Miðjarðarhafsloftslagið þar stóran þátt ásamt verðlagi sem Íslendingar eiga ekki að venjast á ylhýru fósturjörðinni. Skv tölum Húseigendafélags Íslendinga eru 360 Íslendingar skráðir í félagið og má þá gera ráð fyrir að um 2 til 6 manna fjölsk. sé að ræða. Að auki eru fjölmargir húseigendur sem ekki eru í umræddu félagi. Því til viðbótar er ávallt drjúgur hópur íslendinga sem hefst þar við í námi. Erfitt er því um vik að staðhæfa nokkuð um hversu margir Íslendingar eru raunverulega búsettir á Spáni en ekki óraunhæft að gera ráð fyrir að það séu um 1.000 til 2.000.

Líta má aftur til miðbiks 18 aldarinnar til að finna sterka tengingu Íslands við suðausturströnd Spánar, nánar tiltekið í bæinn Torrevieja, þegar frönsku duggararnir sigldu þaðan á Íslandsmið með skip fullt af salti. Þegar fyrstu skipulögðu sólarlandaferðir Íslendinga voru svo að hefjast var stefnan tekin á Costa Blanca ströndina og bæinn Benidorm sem liggur rétt norður af Torrevieja. Nokkur hluti Íslendinga leitaði þó í fiskimannaþorpið litla, þar sem um svipað leyti var að hefjast mikil uppbygging á húsnæði fyrir N-Evrópubúa. Óhætt er að segja að þeir Íslendingar sem um þetta leyti keyptu sér sumarhús á Spáni hafi varið pundinu viturlega. Síðan þetta var hefur mikið vatn runnið til sjávar, jafnt í viðhorfsbreytingu íslenskra sólarlandafara sem og í húsbyggingum á Spáni. Sólarlandaferðirnar hafa smátt og smátt þróast úr hótelvænum drykkjuferðum í vel skipulagðar fjölskylduferðir þar sem löngunin að kynnast menningu og tungumáli er ekki síðri en sól og sandur. Það segir sitt þegar til þess er litið að í námsflokkum Reykjavíkur er spænska eitt vinsælasta tungumálið í boði og sífellt fleiri sem leggja land undir fót í þeim tilgangi að nema málið. Á síðustu árum hafa jafnframt orðið gífurlegar framfarir í húsbyggingum á Spáni. Það sem við kölluðum á 9 áratugnum "sumarhús", eru í dag í flestum t.v heilsárs-lúxushús, sem í engu standa að baki þeim húsbyggingum sem við eigum að venjast á Íslandi. Spænskur byggingariðnaður hefur æ meir tekið mið af kröfum Norður-Evrópubúa til húsbygginga.

En þá að fólkinu sjálfu, sem útþrána hefur og kjarkinn til að yfirgefa fósturjörðina til lengri eða skemmri tíma. Takast á við nýtt þjóðfélag, siði, venjur og tungumál. Hverjir eru þetta ? Höfundur hefur verið búsett á Spáni í á fimmta ár og getur staðfest að sannarlega er þetta fólk úr öllum stöðum og stéttum þjóðfélagsins. Ungt fólk með fjölskyldur, fólk á miðjum aldri, og síðast en ekki síst eldri borgarar íslands í leit að lífi fjarri sultarmörkum. Á Spáni er krónan okkar nefnilega sterkari en við eigum að venjast á Íslandi og lífið meira en helstu nauðþurftir. Það er því ekki að undra að stærsti hluti íslendinga sem til Spánar hefur flutt á síðustu árum, er "fólk á besta aldri" sem eftir áratuga strit getur leyft sér að slaka á í mildu veðurlagi, með, eins og sumir kjósa að kalla það "beint bak". Það segir sína sögu þegar til þess er litið að flestir veitingastaðir bjóða upp á 3 rétta máltíð með léttvíni fyrir 7 evrur, eða 600 kr. ísl. og fasteignagjöld fyrir árið á Spáni eru eins og 1 mán. greiðsla sömu gjalda á Íslandi. Þetta er aðeins lítið brot af þeim gífurlega mun sem er á neyslu hér heima og á Spáni.

Já það undrar ekki að Íslendinga kitli þegar þeir velta fyrir sér möguleikanum um búsetu í jafnara loftslagi og betra verðlagi við strendur Miðjarðarhafsins. Draumurinn um að eiga heimili að heiman, eða flytja alfarið er ekki óraunhæfur draumur í fjarlægri hillingu. Og hefur aldrei staðið Íslendingum nær en einmitt í dag. Á síðustu árum hafa fjölmargir Íslendingar flutt til Spánar. Og sumir fest þar rætur sem ekki verða leystar að nýju. Við skulum þó ekki gleyma því, þó löngunin sé sterk, að fyrirhyggja er flestu betri og mikilvægt fyrir Íslendinga sem hug hafa á að eignast hús erlendis, að vera vel upplýstir áður en skrefið er tekið að fullu.

Sjáumst á ströndinni !!!!

Auður Hansen skrifar um Íslendinga á Spáni

Höfundur er lögg. fasteignasali á Spáni og starfar á fasteignasölunni Perla investments S.L.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.