Jón Ari Arason
Jón Ari Arason
Jón Ari Arason fjallar um gæðaeftirlit í heilbrigðisþjónustu: "Þetta hefur verið erfið vinna en um leið lærdómsrík og gefandi."

GEÐDEILDIR á Íslandi rannsaka gæði þjónustuforma sem þær bjóða upp á en slíkt er yfirleitt unnið af fagfólki fyrir fagfólk og sjaldan er niðurstöðum fylgt nógu vel eftir. Þar að auki er sjaldan talað beint við notendur þjónustunnar. Nú er von á breytingum hvað það síðarnefnda varðar.

Hugarafl er hópur fólks sem hefur átt við geðsjúkdóm að stríða, er í bataferli og hefur áhuga á að hafa áhrif á geðheilbrigðisþjónustu með ýmsum verkefnum. Í sumar er Hugarafl að vinna að tilraunaverkefni með aðstoð og stuðningi heilbrigðisráðuneytis, geðsviðs Landspítala - háskólasjúkrahúss og Nýsköpunarsjóðs námsmanna.

Verkefnið ber heitið "Notandi spyr Notanda" og fer þannig fram að meðlimir Hugarafls, núverandi eða fyrrverandi notendur þjónustunnar, halda opna umræðufundi með einstaklingum sem eru inniliggjandi á völdum deildum. Spurt er um viðhorf sjúklinganna til þeirrar þjónustu sem þeir fá. Lögð er áhersla á að hafa þessa fundi frjálslega og opna og að umræðan stýrist af því sem notendur eru uppteknir af hverju sinni. Meðlimir Hugarafls gæta fyllsta hlutleysis og trúnaðar á þessum fundum. Svo er öllum gögnum safnað saman og niðurstöður verða birtar í skýrslu til yfirmanna geðsviðs og bæklingur settur saman fyrir deildarstjóra og sjúklinga viðeigandi deilda.

Verkefnið er að norskri fyrirmynd sem var unnið þar á árunum 1998 til 2000 með dyggum fjárhagslegum stuðningi félags- og heilbrigðisráðuneytis Noregs. Lagði ráðuneytið 41 milljón íslenskra króna í verkefnið. Á þessu þriggja ára tímabili voru haldnir 165 fundir í 7 mismunandi þjónustuformum þar sem 500 einstaklingar tóku þátt.

Í Noregi kom í byrjun fram neikvæðni í garð verkefnisins. Vangaveltur voru um hvernig notendur sem upplifað höfðu þjónustuna gætu verið hlutlausir og unnið þetta faglega. Norðmenn sáu þetta hinsvegar sem styrkleika en ekki veikleika því markmiðið var að fá huglæga en ekki hlutlæga sýn notenda. Einnig óttuðust sumir að notendur einblíndu um of á neikvæðar hliðar þjónustuforma en í lok verkefnisins kom í ljós að jafnmikið var minnst á það jákvæða.

Áhrif verkefnisins í Noregi voru að skipulag og innihald þjónustunnar var bætt og þótti sýnt fram á mikilvægi notendaáhrifa. Verkefninu var vel tekið af notendum vegna þess að þeir fengu tækifæri til að hafa áhrif. Fagfólki var sýnt fram á að notendur gætu verið málefnalegir og gætu fært rök fyrir máli sínu ef þeir fengu tækifæri til þess. Geðsjúkir urðu meðvitaðri um rétt sinn og urðu virkari á fundum.

Undirbúningi verkefnisins hér á landi lauk í lok júní og nú erum við að taka viðtöl. Við höldum 20 fundi á þremur deildum út júlímánuð. Úrvinnsla gagna fer fram síðan í ágúst og má búast við niðurstöðum í byrjun september. Tveir iðjuþjálfanemar, styrktir af Nýsköpunarsjóði námsmanna, aðstoða okkur við verkefnið, en án þeirra væri það vart framkvæmanlegt.

Þetta hefur verið erfið vinna en um leið lærdómsrík og gefandi. Vonandi verður í nánustu framtíð tekið mið af reynslu notenda þegar að þjónustu við geðsjúka kemur. Þetta verkefni gæti eflaust orðið vísir að því.

Jón Ari Arason fjallar um gæðaeftirlit í heilbrigðisþjónustu

Höfundur er meðlimur Hugarafls.