— Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SNÆLDUSNÚÐUR úr norskum tálgusteini hefur fundist í gólfi jarðhúss á Eiríksstöðum í Haukadal.

SNÆLDUSNÚÐUR úr norskum tálgusteini hefur fundist í gólfi jarðhúss á Eiríksstöðum í Haukadal. Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur hjá Þjóðminjasafni, er sannfærður um að þar hafi verið dyngja, það er að segja vinnuhús kvenna, en þar var búið undir lok 10. aldar.

Guðmundur hefur undanfarna daga verið að rannsaka skemmuna sem er skammt sunnan rústa Eiríksstaðabæjarins. Þegar Þorsteinn Erlingsson rannsakaði Eiríksstaði í lok 19. aldar gróf hann í þetta hús og taldi það smiðju Eiríks rauða. Guðmundur hefur ekki fundið neina hluti sem tengjast smiðjuvinnu. Fyrir tveimur árum fann hann hins vegar tvo kljásteinavefstaði sem vaðmál var ofið á fyrir tíma vefstólanna og nú snældusnúðinn. Þótt hann hafi ekki lokið rannsókninni telur hann augljóst að þar hafi konur verið við vinnu.

Dyngjan er frá sama tíma og Eiríksstaðabærinn, frá lokum tíundu aldar. "Ég þorði varla að vona að eitthvað fyndist. Það er sjaldan að hlutir finnist þegar búið hefur verið stutt í bæjunum, eins og raunin var með Eiríksstaði," segir Guðmundur. Niðurstöður rannsókna á bænum bar vel saman við frásögn Eiríks sögu rauða. Samkvæmt því má leiða að því líkum að Þjóðhildur, kona Eiríks og móðir Leifs heppna, hafi staðið við vefnað með vinnukonum í dyngjunni sunnan bæjarins.

Þjóðminjasafnið og Eiríksstaðanefnd standa fyrir rannsókninni sem markar lok fornleifarannsókna á staðnum. Dyngjan hefur líklegast verið þrír til þrír og hálfur metri á hlið. Guðmundur segir að ef hægt verði að fá heillega mynd af húsinu verði það byggt upp á nýjum stað, sunnan við tilgátubæinn sem reistur var samkvæmt niðurstöðum rannsókna á Eiríksstaðabænum.