15. júlí 2004 | Viðskiptablað | 964 orð | 1 mynd

Auður án innstæðu

Í hinni skemmtilegu bók Extraordinary Popular Delusions & the Madness of Crowds er fjallað um frönsku Mississippi-áætlunina á 18

Gömul bóla Hlutabréfabólur eru ekki nýjar og ein slík herjaði á Frakkland á 18. öld.
Gömul bóla Hlutabréfabólur eru ekki nýjar og ein slík herjaði á Frakkland á 18. öld. — Reuters
LOUIS fjórtándi, konungur Frakklands, lést árið 1715. Óhætt er að fullyrða að við lát hans hafi fjárhagur landsins verið bágur. Langvarandi spilling á öllum stigum þjóðfélagsins hafði ollið því að ríkið var á barmi gjaldþrots.
LOUIS fjórtándi, konungur Frakklands, lést árið 1715. Óhætt er að fullyrða að við lát hans hafi fjárhagur landsins verið bágur. Langvarandi spilling á öllum stigum þjóðfélagsins hafði ollið því að ríkið var á barmi gjaldþrots. Árlegar tekjur ríkisins voru tæplega einn tuttugasti af skuldum þess. Hatur í garð konungs, sem kraumað hafði undir niðri, braust fram og áhyggjur voru innan hirðar konungs um að bylting væri framundan. Erfingi krúnunnar var aðeins sjö ára gamall og því kom það í hlut hertogans af Orleans að stýra ríkinu þangað til erfinginn yrði lögráða.

Auknar skattheimtur, sem á tíðum voru líkari ofsóknum, skiluðu sáralitlu enda spilling allsráðandi innan kerfisins. Þetta og aðrar hefðbundnar aðgerðir (meðal annars gengisfellingar) skiluðu litlum árangri en juku allsráðandi óánægju. Róttækra aðgerða var þörf. Hertoginn hafði litla þekkingu tengda fjármálum en hafði nýlega vingast við mann sem hafði einmitt komið fram með hugmyndir sem þóttu framúrstefnulegar á því sviði. Því er ekki að undra að hertoginn, mitt í ríkjandi glundroða, gerði hann fljótlega að sínum helsta ráðgjafa. Maðurinn, að nafni John Law, er talinn af sumum vera helsti framfarasinni sögunnar í fjármálum en aðrir, sérstaklega margir samtíðarmenn hans síðar meir, voru öndverðrar skoðunar.

Law lagði fram byltingarkenndar hugmyndir samhliða stofnun nýs banka að hans frumkvæði. Ráðstöfun ríkistekna lyti stjórn bankans og lánveitingar yrðu veittar með jarðir og tekjur ríkis sem bakhjarl. Það sem þótti þó einna helst byltingarkennt var sú stefna hans að prenta bæri seðla í stað myntar sem auðveldaði viðskipti. Til að skapa traust á nýjum seðlum bankans lýsti Law því yfir að hver sá bankamaður sem gæfi út verðbréf án þess að fjármagn væri til staðar til að standa við skuldbindingar sínar ætti dauða skilið (Law lenti næstum í því sjálfur nokkrum árum síðar). Einnig þótti yfirlýst stefna að ekki væri hægt að fella gengi á peningum bankans, eins og algengt var af ríkisstjórnum samtímans, auka traust manna til hans. Þetta aukna traust var síðan undirstaða þess að hægt var að nota seðla í stað myntar. Þetta virkaði sem vítamínssprauta á efnahagslífið og ný útibú bankans voru stofnuð nánast samtímis í fimm öðrum borgum Frakklands skömmu síðar.

Í framhaldi af þessari velgengni var það lítið mál fyrir Law að sannfæra hertogann um að stofna nýtt fyrirtæki sem fengi einkarétt á verslun við Mississippi-fljót og nærliggjandi héruð, þar sem auðfenginn auður átti að vera handan hornsins. Félagið, sem var almennt þekkt sem Mississippi-áætlunin, var stofnað með hlutafjárvæðingu. Fyrirtækið öðlaðist sífellt fleiri einkasamninga sem hertoginn var viljugur að veita. Með auknum sérréttindum vænkaðist hagur fyrirtækisins og hlutabréf þess hækkuðu stöðugt í virði með betri tíð og blóm í haga og enn bjartari framtíðarhorfur. Samhliða því og snillinni sem Law sýndi við stofnun bankans fóru fyrstu merki þeirrar óröksömu bjartsýni sem kom til með að ríkja næstu tvö árin að koma fram. Algengt var að gengi hlutabréfanna hækkaði um 10-20% á nokkrum klukkutímum; þau margfölduðust í virði aftur og aftur sem augljóslega endurspeglaði ekki nema að litlum hluta aukinn framtíðarábata Mississippi-áætlunarinnar.

Hertoginn gekk á lagið og lét prenta fleiri og fleiri hlutabréf sem jók fjármagn í umferð enda eftirspurn langt umfram framboð. Þetta veitti hertoganum tækifæri til að greiða niður skuldir ríkisins hraðar en nokkurn mann hafði órað fyrir. Líklegt þykir að Law hafi í sigurvímunni ekki gáð að sér hvaða afleiðingar slíkt gæti haft, en augljóslega var verið að fara af þeirri braut sem hann hafði áður lýst yfir varðandi skyldur bankamanna. Law, sem hafði yfirumsjón með því hverjir fengu forkaupsrétt, varð brátt afar eftirsóttur. Gatan þar sem hann bjó var troðfull af fólki frá morgni til kvölds og þar var slegist, stundum í orðsins fyllstu merkingu, um bréfin þegar þau voru boðin út. Leiguverð húsa þar hækkaði meira en tífalt. Heldri stéttar fólk reyndi öll brögð til að komast á hlutabréfalistann, en slíkt krafðist oft samtals við Law. Ein sagan segir að kona hafi fengið njósnir um hvaða veitingastað Law snæddi í eitthvert kvöldið. Hún kallaði eldur og allir hlupu út. Law sá hana hins vegar ganga inn í veitingastaðinn í átt til sín, grunaði hvers kyns var og sneri í hina áttina. Fólk í öllum stéttum græddi óheyrilegar fjárhæðir, enda hækkuðu bréfin stöðugt í virði, auðvelt var að fá lán til kaupa þeirra sem myndaði hringrás eignabólu. Hestasveinar sem fengu bréf gefins frá eigendum sínum voru skjótt eigendur vagnafyrirtækja fjármagnaðra af ágóða vegna sölu bréfa Mississippi-áætlunarinnar. París var aðalstaður Evrópu og var áætlað að um 300 þúsund manns hafi flykkst þangað í von um skjótan auð og frama.

Í upphafi ársins 1720 fóru hlutir með snöggum hætti að snúast í höndum hertogans, Law og frönsku þjóðarinnar. Séðir fjárfestar fóru hljóðlega að selja bréf sín í Mississippi-áætluninni og komu fjármunum út fyrir landsteinana. Þegar Law áttaði sig á þróuninni var það þá þegar líklegast orðið of seint að snúa henni við. Hann bannaði öll viðskipti með mynt í þeim tilgangi að auka traust fólks á seðlum. Auk þess var bann sett við kaupum á skartgripum og eðalsteinum. Uppljóstrurum voru veitt verðlaun fyrir að koma upp um slík brot. Áhrifin voru þveröfug. Traust fólks til seðla gufaði nánast upp og ofsóknir hófust á nýjan leik á augabragði. Þrátt fyrir margvíslegar tilraunir til að vekja traust fólks á fyrirtækinu féll gengi hlutabréfa þess hratt niður. Með sama hætti, aðeins illvígari, hópaðist nú fólk að bankanum til að innleysa Mississippi-bréf sín. Atgangurinn var slíkur að fjöldinn allur af fólki endaði ævi sína í þeim forarpytti. Law, sem í nokkur ár hafði verið þjóðhetja varð hataður á aðeins nokkrum vikum. Hann flúði til Feneyja og dó þar tíu árum síðar, slyppur og snauður.

Þessi frásögn er tekin úr hinni skemmtilegu bók Charles Mackay, Extraordinary Popular Delusions & the Madness of Crowds. Hún fjallar einnig um suðursjávarbóluna sem þróaðist á svipuðum tíma og Mississippi-áætlunin og olli jafnvel enn meiri skaða. Fjallað verður um hana síðar á árinu.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.